Meistararnir náðu í oddaleik

Klay Thompson sækir í leiknum í nótt en Gerald Green …
Klay Thompson sækir í leiknum í nótt en Gerald Green er til varnar. Thompson skoraði 35 stig fyrir Golden State. AFP

Meistarar Golden State Warriors knúðu fram oddaleik gegn Houston Rockets í úrslitum Vesturdeildar NBA í körfuknattleik með stórsigri, 115:86, í sjötta leik liðanna sem var að ljúka í Oakland í Kaliforníu.

Staðan er þar með 3:3 og úrslit einvígisins ráðast í oddaleik sem fram fer í Houston aðfaranótt þriðjudags. Það eru því oddaleikir báðum megin því Boston og Cleveland leika oddaleik í Austurdeildinni næstu nótt.

Houston byrjaði mjög vel í Oakland en liðið var 39:22 yfir eftir fyrsta leikhluta og 61:51 í hálfleik. Í þriðja leikhluta snerist dæmið við þegar Golden State skoraði 33 stig gegn 16, var þá komið yfir 84:77, og stakk síðan gjörsamlega af í fjórða leikhluta.

Klay Thompson fór hamförum og skoraði 35 stig fyrir Golden State. Stephen Curry skoraði 29 stig og Kevin Durant 23.

James Harden skoraði 32 stig fyrir Houston og Eric Gordon gerði 19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert