Stefndum á úrslitin og viljum nú vinna þau

Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn.
Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn, var að vonum kátur þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla með öruggum 92:74 sigri gegn Stjörnunni í oddaleik í undanúrslitum í Þorlákshöfn í kvöld.

„Þetta er bara geggjað. Þetta er það sem við stefndum á í allan vetur, að komast í úrslitin, og nú viljum við bara vinna þau. Það er bara þannig,“ sagði Ragnar Örn í samtali við mbl.is eftir leik.

Þór var þremur stigum undir í hálfleik, 44:47, en spilaði frábæra vörn í síðari hálfleiknum. Hverju breytti liðið í hálfleik?

„Svo sem litlu. Við spiluðum sömu vörn en hún var bara aðeins aggressívari. Við náðum að stoppa þá og náðum þá að spila okkar leik, sem var að hlaupa á þá. Við tókum þarna gott áhlaup þar sem við settum nokkur skot í röð og eftir það fannst mér þetta bara vera komið,“ sagði hann.

Stjörnumenn hittu ansi vel í fyrri hálfleik en það sama var ekki uppi á teningnum í þeim síðari. „Skotið sem þeir hittu í fyrri hálfleik, sem skoppaði þrisvar sinnum af hringnum og fór ofan í, það var fínt að fá það til baka í seinni hálfleik. Það var mjög ljúft,“ bætti Ragnar Örn við.

Hann sagði krefjandi verkefni bíða liðsins gegn Keflavík. „Þetta verður klárlega erfitt. Það hefur varla neitt lið náð að klára Keflavík í ég veit ekki hversu langan tíma þannig að við þurfum kannski að finna einhverja lausn sem enginn annar er búinn að finna til að vinna.

Við treystum Lalla [Lárusi Jónssyni þjálfara] og Gústa [Ágústi Erni Grétarssyni aðstoðarþjálfara] fyrir því verkefni að finna upp á einhverju sem við ætlum að koma með á móti þeim,“ sagði Ragnar Örn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert