Kína mætir Bandaríkjunum eftir dramatískan sigur

Kínverska liðið fagnar dramatískum sigri á Ástralíu í morgun.
Kínverska liðið fagnar dramatískum sigri á Ástralíu í morgun. AFP/Jeremy NG

Kína tryggði sér í morgun sæti í úrslitaleik HM 2022 í körfuknattleik kvenna með því að hafa naumlega betur gegn heimakonum í Ástralíu, 61:59, í undanúrslitunum í Sydney.

Ástralir byrjuðu leikinn betur og voru með nauma forystu, 17:13, að loknum fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta sneru Kínverjar talfinu við og voru sex stigum yfir, 36:30, í leikhléi.

Í síðari hálfleik var allt í járnum og munurinn aðeins þrjú stig, 47:44, Kína í vil, að loknum þriðja leikhluta.

Í blálokin var staðan jöfn, 55:55, þá 57:57 og loks 59:59.

Þegar þrjár sekúndur voru eftir á leikklukkunni fékk Kína tvö vítaskot. Siyu Wang settu þau bæði niður og staðan orðin 61:59.

Enn var tími fyrir heimakonur til þess að halda í eina lokasókn. Ezi Magbegor reyndi þá sniðskot en það geigaði og dramatískur tveggja stiga sigur Kína staðreynd.

Kína er þar með komið í úrslitaleik HM í fyrsta skipti í tæpa þrjá áratugi, þegar liðið vann til silfurverðlauna á HM 1994 eftir tap fyrir Brasilíu.

Kínverska liðið mætir ógnarsterkum Bandaríkjakonum í úrslitaleiknum á morgun, en bandaríska liðið hefur unnið stórsigra í öllum leikjum sínum á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert