Ekki dómurunum að kenna að hann missi hausinn

Norbertas Giga úr Álftanesi með boltann í kvöld.
Norbertas Giga úr Álftanesi með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, var skiljanlega svekktur þegar hann ræddi við mbl.is í kvöld, enda nýbúinn að tapa fyrir Álftanesi, 77:56, í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta.

Keflvíkingar lentu í miklum erfiðleikum með sterka vörn Álftaness í leiknum og skoruðu aðeins sex stig í fyrsta leikhluta.

„Það voru stífir olnbogar og lausir úlnliðir. Við hittum illa gegn hörkuvarnarliði. Þeir spiluðu fast og við byrjuðum að lúffa fyrir þeim. Við viljum skora 120 stig í leik og þegar maður er kominn með sex stig skuldar maður 114 og það er helvíti erfitt,“ sagði Pétur.

Álftanes var með forystuna nánast allan tímann, en Keflavík minnkaði muninn í fjögur stig í þriðja leikhluta. Heimamenn tóku þá aftur völdin og sigldu sanngjörnum sigri í höfn.

„Það vantaði bara 1-2 þrista ofan í, þetta er ekkert flóknara. Þeir voru hins vegar góðir í vörninni og við réðum illa við þá. Þeir settu tóninn strax, spiluðu fast og komust upp með það.

Þetta var allt öðruvísi lína hjá dómurunum en í fyrstu umferðinni, enda aðrir dómarar,“ sagði Pétur. Hann var ósáttur við Jaka Brodnik, sem fékk tæknivillu fyrir mótmæli, og fékk sína fimmtu villu og var ekki með á lokakaflanum.

„Það er ekki dómurunum að kenna að hann missi hausinn. Hann skildi okkur eftir svolítið litla,“ sagði Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert