Fyrsti sigur Álftaness var stórsigur

Dino Stipcic og Remy Martin í baráttunni í kvöld.
Dino Stipcic og Remy Martin í baráttunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Álftanes jafnaði einvígi sitt við Keflavík í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með 77:56-heimasigri í öðrum leik liðanna á Álftanesi í kvöld. Er staðan í einvíginu nú 1:1. Þriðji leikurinn fer fram í Keflavík á föstudagskvöld, en þrjá sigra þarf til að fara í undanúrslit.

Er um fyrsta sigur Álftaness í úrslitakeppninni að ræða, en liðið er þar í fyrsta skipti. 

Álftanes byrjaði af krafti og náði átta stiga forskoti þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta, 12:4. Eins og stigaskorið gefur til kynna, var varnarleikur Álftnesinga til fyrirmyndar framan af leik.

Haukur Helgi Pálsson byrjaði einnig mjög vel og var með tíu stig í fyrsta leikhlutanum. Staðan eftir hann var 17:6. Álftanes náði svo 17 stiga forskoti um miðjan seinni hálfleik, 33:16.

Þá tóku Keflvíkingar við sér og með góðri nýtingu fyrir utan næstu mínútu tókst þeim að minnka muninn í sex stig, 33:27. Að lokum munaði átta stigum í hálfleik, 37:29.

Keflavík minnkaði muninn í fjögur stig um miðbik þriðja leikhluta, 49:45. Álftanes var hins vegar sterkari aðilinn í lok leikhlutans og var munurinn því aftur átta stig fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 55:47.

Álftanes skoraði fimm fyrstu stigin í fjórða leikhlutanum og náði þrettán stiga forskoti, 60:47, þegar sex mínútur voru eftir. Skömmu síðar var staðan orðin 65:50 og staða heimamanna orðin býsna góð.

Hún varð svo enn betri því Álftanes náði 20 stiga forskoti í fyrsta skipti þegar þrjár mínútur voru eftir, 70:50. Var Keflavík ekki líkleg til að jafna eftir það og sanngjarn heimasigur varð raunin.

Álftanes 77:56 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert