Minnesota í góðri stöðu

Luka Doncic átti enn einn stórleikinn í nótt.
Luka Doncic átti enn einn stórleikinn í nótt. AFP/Harry How

Minnesota Timberwolves er komið í 2:0 í einvígi sínu gegn Phoenix Suns í átta liða úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik eftir sterkan heimasigur, 105:93, í öðrum leik liðanna í nótt.

Fjóra sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum og staðan er því góð fyrir Minnesota þó björninn sé ekki enn unninn.

Jaden McDaniels var stigahæstur í leiknum með 25 stig og átta fráköst fyrir Minnesota.

Devin Booker skoraði 20 stig og gaf fimm stoðsendingar í liði Phoenix.

Dallas og Indiana jöfnuðu metin

Dallas Mavericks jafnaði metin í 1:1 í einvígi sínu gegn LA Clippers í Vesturdeildinni er liðið hafði naumlega betur í Los Angeles, 96:93

Luka Doncic fór fyrir Dallas einu sinni sem áður er hann skoraði 32 stig, tók sex fráköst og gaf níu stoðsendingar. Kyrie Irving bætti við 23 stigum og sex fráköstum.

Hjá Clippers voru James Harden og Paul George atkvæðamestir með 22 stig hvor. Harden tók auk þess sex fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Í Austurdeildinni jafnaði Indiana Pacers metin í 1:1 í einvígi sínu við Milwaukee Bucks með öruggum útisigri, 125:108.

Pascal Siakam fór á kostum í liði Indiana en hann skoraði 37 stig, tók 11 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Damian Lillard átti einnig stórleik fyrir Milwaukee Bucks er hann skoraði 34 stig og gaf fimm stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert