Njarðvík í forystu eftir ótrúlegar sveiflur

Njarðvíkingurinn Andela Strize reynir að komast framhjá Grindvíkingnum Alexöndru Sverrisdóttur …
Njarðvíkingurinn Andela Strize reynir að komast framhjá Grindvíkingnum Alexöndru Sverrisdóttur í Smáranum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Njarðvík er komin í 1:0 gegn Grindavík í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir sigur, 83:79, í fyrsta leik liðanna í Smáranum í Kópavogi í kvöld, þar sem Grindavík leikur heimaleiki sína.

Sigurvegarinn í einvíginu mætir Keflavík eða Stjörnunni í úrslitum.

Njarðvík byrjaði af miklum krafti og komst í 14:2 snemma leiks. Skiptust liðin á áhlaupum eftir það út fyrri hálfleik. Grindavík minnkaði muninn í víxl við að Njarðvík jók hann og hélst munurinn því í 2-8 stigum út allan hálfleikinn.

Staðan eftir fyrsta leikhluta var 23:16 og 39:35 eftir annan leikhluta. Selena Lott skoraði 15 stig fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik. Eve Braslis gerði 13 fyrir Grindavík.

Grindavík byrjaði af miklum krafti í seinni hálfleik og Dani Rodríguez kom heimakonum þremur stigum yfir, 44:41, með þriggja stiga körfu. Var það í fyrsta skipti sem Grindavík komst yfir í leiknum.

Grindavík náði mest fimm stiga forskoti í leikhlutanum, 51:46. Þá tók Njarðvík við sér og að lokum var það Njarðvík sem fór með fimm stiga forskot í fjórða og síðasta leikhlutann, 61:56.

Í fjórða leikhlutanum var komið að Dani Rodríguez, því hún skoraði 15 stig á örskömmum tíma og kom Grindavík í 71:68 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Grindavík komst í 76:68 í kjölfarið og náði átta stiga forskoti í fyrsta skipti.

Njarðvík svaraði af krafti og Dani fékk sína fimmtu villu þegar lítið var eftir. Njarðvík nýtti sér þann meðbyr, náði forskotinu á ný og var 79:76 yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.

Grindavík náði ekki að jafna eftir það og Njarðvík er komin yfir eftir svakalegan fyrsta leik í einvígi sem lofar gríðarlega góðu. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Grindavík 79:83 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert