Búnar á því þegar þær skríða á fætur

Keflavík er komin í 1:0.
Keflavík er komin í 1:0. mbl.is/Eyþór Árnason

Keflavík vann frækinn sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík í fyrsta leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta í kvöld. Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur var kampakátur með sigurinn eftir tvíframlengdan leik. Við ræddum við Sverri strax eftir leik:

Hvað segir þjálfari eftir svona spennuþrunginn leik?

„Það eru heldur margar í báðum liðum að spila nánast allan leikinn. Það verða margar ansi búnar á því þegar þær skríða á fætur í fyrramálið." sagði Sverrir brosandi.

„Þetta var rosalegur leikur, mikil barátta og ég er himinlifandi að vinna fyrsta leikinn í þessu einvígi en þetta er bara rétt að byrja."

Njarðvík nær 10 stiga forskoti í fjórða leikhluta og þú tekur leikhlé. Eftir það komist þið aftur inn í leikinn. Hvaða breytingar gerðir þú í þessu leikhléi sem útskýrir viðsnúninginn í ykkar leik?

„Við breytum aðeins í sókninni. Við breytum veikleika sem við vorum búin að vera í vandræðum með yfir í styrkleika. Gerðum vel í því og komumst nær því. Síðan jókst sjálfstraustið einhvernvegin. Við fundum síðan fleiri leiðir til að komast í góð skot þegar leið á leikinn. Varnarlega var þetta alveg nokkuð gott allan leikinn nema í fráköstum en þær eiga líka ansi marga sentímetra á okkur þar. Það er samt engin afsökun."

Eitthvað sem þú hefðir viljað sjá liðið þitt gera betur í næsta leik?

„Já alveg klárlega. Við þurfum að taka fleiri fráköst og hefðum mátt hitta betur. Hittnin var reyndar ekki góð hjá báðum liðum í kvöld. Síðan réðum við illa við Selenu Lott þegar hún óð inn í teiginn.

Hún er rosalega góð í því og er frábær leikmaður en við hefðum alveg mátt stoppa hana aðeins meira. Ég er samt bara fyrst og fremst ánægður með sigurinn og nú þarf bara að ná góðri endurheimt fyrir sunnudaginn," sagði Sverrir Þór í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert