Óviðunandi aðstæður í Ríó

Ólimpíuleikarnir hefjast í næsta mánuði.
Ólimpíuleikarnir hefjast í næsta mánuði. AFP

Enn eitt klúðrið bætist við undirbúning Ólympíuleikanna sem haldnir verða í Rio de Janeiro í næsta mánuði. Íbúðirnar þar sem þúsundir íþróttafólks eiga að gista eru sagðar ónothæfar.

Meðal atriða sem eru nefnd til sögunnar eru stífluð klósett, lekandi pípur og óvarðar rafmagnssnúrur. 

Lagt var upp með að íþróttamenn frá nokkrum þjóðum kæmu til Brasilíu í dag og flyttu inn í íbúðirnar. Fulltrúar Ástralíu mættu degi fyrr til að athuga aðstæður og var lítt skemmt þegar þeir uppgötvuðu sterka gaslykt í sumum herbergjum og að vatn lak meðfram veggjunum.

„Það lekur vatn gegnum þakið og myndar polla á gólfinu hjá vírum og snúrum,“ sagði einn af fulltrúum Ástralíu. Þau hafa viðrað áhyggjur sínar við ólympíunefndina en liðið gistir á hóteli þangað til aðstæður breytast. 

Opnunarhátíð leikanna fer fram 5. ágúst næstkomandi. Borgaryfirvöld og skipuleggjendur hafa lent í miklum erfiðleikum við undirbúning leikanna, meðal annars vegna pólitísks og efnahagslegs óstöðugleika, útbreiðslu Zika-vírussins og mengunar í vatni sem á að nota á leikunum. 

Fulltrúar Ólympíuleikanna í Ríó segja að verið sé að lagfæra ýmis atriði sem varða húsakynni keppenda og að búast hafi mátt við slíkum vandamálum. 

„Það eru nokkrar lagfæringar sem við erum að glíma við og það verður frágengið eftir skamman tíma,“ sagði forseti skipulagsnefndarinnar. 

„Vegna stærðargráðunnar þarf að aðlaga ólympíuþorpin til að gera þau fullkomin. Það sem skiptir mestu máli er að þau verði tilbúin þegar leikarnir hefjast og valdi keppendum ekki truflunum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert