Kom á Ólympíuleikana og stóð mig vel

Snæfríður Sól Jórunnardóttir endaði í 34. sæti í 100 metra …
Snæfríður Sól Jórunnardóttir endaði í 34. sæti í 100 metra skriðsundi. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Sund­kon­an Snæfríður Sól Jór­unn­ar­dótt­ir var að vonum nokkuð ánægð eftir að hún lauk þátttöku sinni á Ólympíuleikunum í Tókýó með því að keppa í 100 metra skriðsundi í dag.

Snæfríður synti á 56,15 sekúndum og bætti þar með sitt eigið persónulega met í greininni þó hún hafi ekki komist áfram í úrslitakeppnina. „Það var gaman að fá að synda aftur og bæta mig, það er alltaf gaman,“ sagði Snæfríður í viðtali við RÚV.

Snæfríður, sem er tví­tug, þreytti frum­raun sína á Ólymp­íu­leik­un­um á mánu­dag­inn er hún keppti í 200 metra skriðsundi og bætti þá sitt eigið Íslandsmet. Hún segir það hafa verið aðeins minna stressandi að keppa í annað sinn. „Nú var ég búin að prófa þetta einu sinni þannig að það var ekki eins mikið stress.“

Þrátt fyrir að vera ung að aldri hefur Snæfríður nú þegar náð býsna langt, meðal annars keppt á Ólympíuleikum og heimsmeistaramóti. Hún ætlar þó ekki að fara fram úr sjálfri sér. „Ég tek bara einn hlut í einu. Núna er ég búin að koma á Ólympíuleikana og standa mig vel, finnst mér allavega,“ sagði Snæfríður Sól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert