Breytingar á framkvæmdastjórn Landsvirkjunar

Á síðustu vikum hafa orðið nokkrar breytingar í framkvæmdastjórn Landsvirkjunar m.a. í kjölfar þess að dótturfélögin Landsvirkjun Power og HydroKraft Invest hófu starfsemi.

 Um áramótin lét Örn Marinósson, viðskiptafræðingur, af störfum fyrir aldurs sakir sem skrifstofustjóri og staðgengill forstjóra Landsvirkjunar.  Við starfi hans tók Agnar Olsen, verkfræðingur, sem starfað hefur hjá Landsvirkjun um áratugaskeið.  Hann hefur verið framkvæmdastjóri verkfræði- og framkvæmdasviðs fyrirtækisins sl. 13 ár.

Bjarni Bjarnason, verkfræðingur, sem verið hefur framkvæmdastjóri orkusviðs Lands­virkjunar frá ársbyrjun 2001 hefur verið ráðinn forstjóri Landsvirkjunar Power.  Áður en Bjarni réðist til Landsvirkjunar var hann forstjóri Íslenska járnblendifélagsins og þar áður forstjóri Kísiliðjunnar í Mývatnssveit.  Landsvirkjun Power er að fullu í eigu Landsvirkjunar og verkefni félagsins felast í undirbúningi, rannsóknum, hönnun og byggingu jarðvarma- og vatnsaflsvirkjana fyrir Landsvirkjun auk sérfræðiráðgjafar.  Landsvirkjun Power er ætlað að taka þátt í hvers konar fjárfestingu á sviði orkumála.  Hjá Landsvirkjun Power starfa um 40 manns sem flestir störfuðu áður á verkfræði- og framkvæmdasviði Landsvirkjunar.

Einar Mathiesen, viðskiptafræðingur, hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra orkusviðs Landsvirkjunar.  Einar hóf störf hjá Landsvirkjun á árinu 2001 og hefur gegnt stöðu deildarstjóra rekstrardeildar á orkusviði.  Áður en Einar réðist til Landsvirkjunar starfaði hann sem sveitar- og bæjarstjóri í 11 ár.

Þá hefur Stefán Pétursson, viðskiptafræðingur sem verið hefur framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar, verið ráðinn framkvæmdastjóri HydroKraft Invest.  HydroKraft Invest er fjárfestingarfélag í eigu Landsbankans Vatnsafls og Landsvirkjunar Power sem hefur það að markmiði að fjárfesta í umbreytingaverkefnum og nýframkvæmdum á sviði endurnýjanlegrar orku.

Kristján Gunnarsson, viðskiptafræðingur, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar.  Kristján hefur unnið hjá Landsvirkjun um tuttugu ára skeið og verið yfirmaður fjármáladeildar Landsvirkjunar undanfarin 6 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK