Brýnt að koma í veg fyrir lækkun krónunnar

mbl.is/Júlíus

Í ljósi þess að gengislækkun krónunnar hefur veruleg áhrif á erlendar skuldir heimila, fyrirtækja og banka er brýnt að koma í veg fyrir enn stórfelldari lækkun gengisins. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

„Styrking krónunnar í kjölfar snarprar lækkunar sl. haust var því mikilvæg til að draga úr umfangi efnahagshrunsins. Raungengið er þó enn vel samkeppnishæft og raunar má halda því fram að töluverð styrking krónunnar væri í samræmi við hraðan bata í þjóðarbúskapnum eða gæti jafnvel stutt við hann. Hærra raungengi myndi draga úr skuldabyrði mjög skuldsettra fyrirtækja og heimila, sem sum eru jafnvel tæknilega gjaldþrota miðað við núverandi gengi og eiga því erfitt með að fá gjaldfrest og rekstrarfé," samkvæmt Peningamálum.

Sammála um mikilvægi stöðugleika krónunnar

Til að stuðla að endurreisn efnahags heimila og fyrirtækja eru Seðlabankinn, stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sammála um að veigamikill þáttur í áætluninni um efnahagsbata á Íslandi sé stöðugleiki krónunnar. Gengisstöðugleiki er líka mikilvægur þáttur í að koma að nýju á verðlagsstöðugleika á Íslandi.

Þetta kallaði í upphafi á aðhaldssama peningastefnu og á tímabundin gjaldeyrishöft til að forðast óheft útflæði fjármagns. Í ljósi veikrar stöðu íslensks þjóðarbúskapar og þeirrar efnahagsröskunar sem fylgir gjaldeyrishöftum eru báðar ráðstafanirnar óheppilegar en ómissandi liðir í áætlun sem miðar að því að styðja varanlegan efnahagsbata.

Tvöfaldur markaður með krónu torveldar framkvæmd peningastefnunnar

„Það hefur torveldað framkvæmd peningastefnunnar að til varð tvöfaldur markaður með krónuna vegna gjaldeyrishaftanna. Viðskipti sem aðallega tengjast vöru- og þjónustuviðskiptum fara fram á opinbera innlenda gjaldeyrismarkaðnum, en einhver viðskipti milli erlendra eigenda íslenskra fjármálaafurða fara fram á markaði sem hefur þróast erlendis. Báðir markaðir eru mjög þunnir og tiltölulega lítil viðskipti geta auðveldlega valdið miklum verðbreytingum. Þetta skapar frekari hættu því að fáar fjármálaafurðir eru tiltækar til að draga úr þessum sveiflum og verja sig gegn þeim við núverandi aðstæður."

Smugur skýra minni styrkingu krónu

Munurinn á gengi krónunnar á innlendum markaði og aflandsmarkaði (e. offshore market) hefur minnkað á ný eftir að hafa aukist á fyrstu mánuðum ársins og nú er gengi krónunnar um 208 kr. gagnvart evru á aflandsmarkaðnum, eða u.þ.b. 23% lægra en á opin berum gjaldeyrismarkaði," samkvæmt Peningamálum.

Á undanförnum mánuðum hefur komið í ljós að myndast hafa smugur framhjá gjaldeyrishöftunum. Viðskiptaaðilar hafa getað keypt krónur á lágu verði á aflandsmarkaðnum og greitt útflytjendum í krónum í stað erlends gjaldeyris.

„Þetta skýrir að hluta hví aukinn afgangur á viðskiptum við útlönd hefur ekki styrkt krónuna að því marki sem vænst var. Takmarkað innflæði erlends gjaldeyris hefur því ekki nægt til að vega upp á móti útstreymi vaxtagreiðslna til erlendra eigenda íslenskra skuldabréfa, sem hefur valdið þrýstingi á krónuna til veikingar.

Vegna mikils þrýstings af fjármagni sem vill út úr landinu hefur Seðlabankinn í samvinnu við stjórnvöld og Al þjóða gjaldeyrissjóðinn undirbúið ráðstafanir sem gera fjárfestum sem eru tilbúnir til að losa um stöður sínar á því sem næst hvaða gengi sem er kleift að gera það á skipulagðan máta. Þegar þessar ráðstafanir hafa verið gerðar ættu þær að létta nokkuð þrýstingi af gjaldmiðlinum."

„Forsendur þess að aflétta gjaldeyrishöftunum eru ekki enn fyrir hendi. Veruleg óvissa ríkir enn um erlendar skuldir þjóðarbúsins, stöðu ríkisfjármála og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Væru gjaldeyrishöft afnumin að fullu áður en þessir þættir hafa skýrst og dregið hefur úr öngþveitinu í fjármálum heimsins gæti það leitt til stórfellds fjármagnsútflæðis með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir gengi krónunnar og verðbólgu. Því er ekki líklegt að höftunum verði aflétt á næstunni. Ein af afleiðingunum fjármálakreppunnar er að mat fjárfesta á áhættu hefur breyst mikið. Þetta hefur leitt til þess að áhættuálag á allar tegundir fjármálaafurða hefur hækkað verulega, eins og sjá má t.d. í auknu vaxtaálagi á áhættulausar fjáreignir, t.d. milli peningamarkaðsvaxta og stýrivaxta, eða milli ávöxtunar af skuldum fyrir tækja og ávöxtunar á ríkisskuldabréfum," samkvæmt Peningamálum.

Sjá Peningamál

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK