Óttast ósjálfbærni vegna offjölgunar

Félagið Alfred’s Apartments er með starfsemi í þessu húsi. Í …
Félagið Alfred’s Apartments er með starfsemi í þessu húsi. Í baksýn er Hótel Alda sem var opnað fyrr á árinu Þórður Arnar Þórðarson

Útleiga íbúða í miðborg Reykjavíkur til erlendra ferðamanna hefur stóraukist á síðustu árum og er orðin að umfangsmikilli atvinnugrein.

Skipta má útleigunni í þrjá flokka. Í fyrsta lagi útleigu skráðra félaga, sem listuð eru upp hér til hliðar í lauslegri samantekt. Í öðru lagi íbúðir sem eru leigðar út af bókunarsíðum á borð við Iceland Summer. Þau viðskipti eru skráð og fá íbúðaeigendur fasta greiðslu fyrir að leigja út íbúðirnar. Í þriðja lagi er um að ræða óskráða gistingu sem leigð er út í gegnum alþjóðlegar vefsíður. Sérstaklega er fjallað um slíkar íbúðir á síðunni hér til hliðar.

Eins og taflan hér til hliðar ber með sér hefur framboð hótelíbúða hjá skráðum félögum aukist mikið síðustu ár. Félögin sem stofnuð voru fyrr á öldinni hafa flest fjölgað íbúðum á síðustu árum, jafnvel verulega.

Umsvifamikill aðili á markaðnum, sem óskaði nafnleyndar, sagði stefna í hrun á þessum markaði á næsta ári.

Langt umfram fjölgunina

Ástæðan væri sú að með tilkomu nýrra hótela muni framboð á gistingu stóraukast. Sú aukning sé langt umfram þá aukningu sem fyrirhuguð er í flugi til landsins. Þá fari fasteignaeigendur orðið fram á mjög háa leigu hjá rekstraraðilum í miðborginni. Jafnframt hafi raunverð fasteigna hækkað mikið í miðborginni á síðustu árum. Með þetta í huga taldi viðkomandi nær öruggt að einhver íbúðahótel dragi verulega saman seglin á næstu árum

Halldór Meyer er eigandi íbúðahótelsins Stay Apartments, sem leigir út 70 íbúðir í Reykjavík. Spurður um þróunina á markaði segir Halldór að sú breyting hafi orðið í vor að bókanir fyrir sumarið komu ekki jafn snemma og í fyrra.

„Bókanirnar eru farnar að berast síðar. Áður fyrr vildi maður hafa þéttbókað svona fjóra mánuði fyrir sumarið. Núna getur maður vænst þess að fá minnst 80% bókað um tveimur mánuðum fyrir sumarið.

Færri bókanir bárust í tveggja og þriggja herbergja íbúðir í júní en áður. Þá bregst maður við með því að lækka og ég tók eftir því að nánast öll fyrirtæki á hótelmarkaðnum voru búin að lækka. Stúdíóíbúðirnar fyllast hins vegar eins og áður.“

Framboðið hefur aukist

– Hvað hefur breyst á þessu ári?

„Það hafa komið fleiri íbúðir inn á markaðinn.“

– Hvernig verður veturinn?

„Bókanir þá eru að aukast og það bjargar því sem fer niður yfir sumartímann. Frá síðustu jólum var nánast allt uppbókað og það sem ég var með í langtímaleigu tók ég snarlega úr langtímaleigu til að eiga þá fleiri íbúðir í skammtímaleigu. Það er minna framboð af leiguíbúðum yfir veturna. Íbúðir sem eru auglýstar á vefjum á borð við airbnb fara nær allar í langtímaleigu á veturna.“

Hlín Gunnarsdóttir, eigandi íbúðahótelsins Forsælu við Grettisgötu (Apartmenthouse.is), segir vísbendingar um að framboð leiguíbúða fyrir erlenda ferðamenn hafi aukist talsvert umfram fjölgun ferðamanna.

„Bókanir hjá okkur í sumar eru færri en í fyrrasumar. Við erum með hæstu einkunn á vefnum Tripadvisor og sambærilegt verð við aðra löglega staði. Erlendum ferðamönnum sem leggja leið sína til Reykjavíkur hefur fjölgað en samt hefur bókunum í íbúðum hjá okkur fækkað. Ódýrari gisting sem við bjóðum jafnframt, þ.e. herbergi með morgunverði er hinsvegar fullbókuð. Skýringin liggur að mínu mati í auknu framboði leyfislausra íbúða og mögulegri breytingu á flóru ferðamanna sem sækja landið heim, vegna aukins framboðs lággjaldaflugfélaga.

Forsæla er á lista hjá rútufyrirtækjum sem taka á móti farþegum í skoðunarferðir. Hér er oft biðröð af fólki sem gistir í leyfislausum íbúðum eða herbergjum í nálægum húsum.

Burtséð frá mínum eigin hagsmunum þá hef ég á tilfinningunni að hótelvæðingin í miðbænum sé bóla, dæmd til að springa. Forsendur sem liggja til grundvallar útreikningum til lánveitinga vegna uppbyggingar eru rangar. Það vantar allar svörtu tölurnar, ólöglegu gistinguna, inn í myndina. Framboð á gistingu stefnir óðum í að verða langt umfram fjölgun ferðamanna.“

Hluti íbúða sem eru leigðar út til ferðamann undir merkjum …
Hluti íbúða sem eru leigðar út til ferðamann undir merkjum skráðra félaga í 101 Reykjavík. Mynd/mbl.is
Forsæla gistihús.
Forsæla gistihús. Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK