Agnes, Eva og Heiðdís til Flyover Iceland

Flyover Iceland hefur ráðið Evu Eiríksdóttur sem markaðsstjóra, Heiðdísi Einarsdóttur …
Flyover Iceland hefur ráðið Evu Eiríksdóttur sem markaðsstjóra, Heiðdísi Einarsdóttur sem sölustjóra og Agnesi Gunnarsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins. Myndir/Flyover Iceland

Fyrirtækið Flyover Iceland, sem nú reisir sérhannaða 2.000 fermetra byggingu á Fiskislóð undir sýndarveruleikasýningu, hefur ráðið þær Agnesi Gunnarsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins, Evu Eiríksdóttur sem markaðsstjóra og Heiðdísi Einarsdóttur sem sölustjóra.

Þegar framkvæmdum verður lokið og aðstaðan tekin í notkun gefst gestum kostur á að fara í sýndarflugferð yfir náttúru Íslands. Munu gestir sitja í sætum sem hreyfast samhliða því sem gerist á skjánum fyrir framan þá, en hann verður 17 sinnum 20 metrar á breidd. Munu sætin fara allt að 14 metra upp í loftið.

Í tilkynningunni kemur fram að Agnes hafi verið framkvæmdastjóri Perlan Museum á árunum 2015 til 2017. Þar áður var hún framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Íslenska gámafélaginu. Agnes hefur starfað sem stundakennari við Háskólann á Bifröst frá árinu 2013 og hefur einnig starfað sem viðskiptaráðgjafi hjá Verus ehf. Hún hefur meistaragráðu í stjórnun og markaðssetningu frá Háskólanum á Bifröst.

Eva var markaðsstjóri Norðurflug Helicopter Tours frá 2017-2018. Þar áður var hún verkefnastjóri hjá félaginu. Eva starfaði nýlega hjá Svartagaldri, tæknifyrirtæki í stafrænni markaðssetningu, og hefur þar að auki bakgrunn úr ferðaþjónustu. Hún er með MS-gráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun frá Háskóla Íslands.

Heiðdís var þjónustustjóri hjá Þjóðminjasafni Íslands frá árinu 2017. Þar áður starfaði hún hjá Höfuðborgarstofu, fyrst sem verkefnastjóri Gestakorts Reykjavíkur og seinna sem verkefnastjóri erlendra samskipta og markaðs- og kynningarmála. Heiðdís er með MA-gráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands.

Stefnt er að því að húsnæði Flyover Iceland verði tekið í notkun í sumar og er ráðgert að hefja aðrar ráðningar í maí og júní, en gert er ráð fyrir að um 45 manns muni starfa við sýninguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK