Keðjuverkandi lokun vegna tækjabúnaðar

Sigurgeir Guðlaugsson fyrir utan húsið við Fiskislóð á Granda.
Sigurgeir Guðlaugsson fyrir utan húsið við Fiskislóð á Granda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Afar flókið verður að koma tækjabúnaðinum fyrir sem verður notaður í verkefnið Flyover Iceland en stefnt er á opnun risastórrar sýningarhvelfingar á Fiskislóð seinnipart næsta sumars. Tækin munu fara inn í húsið áður en lokið verður við að byggja það.

Í Flyover Iceland mun fólk svífa um í sérhönnuðum sætum í sýndarveruleika yfir helstu náttúruperlum Íslands og njóta útsýnisins fyrir framan stóran skjá. 

Að sögn Sigurgeirs Guðlaugssonar, stjórnarformanns afþreyingarfyrirtækisins Esju Attractions ehf., er verið að senda búnaðinn til landsins og stefnt er að uppsetningu á meirihluta hans eftir áramót. Til þess að hægt verður að koma búnaðinum fyrir þarf húsið á Fiskislóð að vera komið á ákveðið byggingarstig. Vinna er hafin við að setja þar upp burðarvirkið og eftir að þeim framkvæmdum lýkur verður húsinu lokað utan um það. Því næst koma tækin þangað inn og að því loknu verður hægt að ljúka smíði hússins að fullu. „Það verður keðjuverkandi lokun á húsinu,“ segir Sigurgeir og bætir við að stærðargráðan á öllu saman sé ofboðsleg. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Óhemju raunveruleg upplifun“

Á meðal búnaðarins er skjár frá Austurríki sem er 17 sinnum 20 metrar að breidd og hæð og 40 sæti sem færast í átt að honum. Þau fara 10 til 14 metra upp í loftið á meðan á sýningunni stendur og sitja áhorfendurnir í öryggisbeltum. Um eins konar háloftaheimsókn á tveimur hæðum verður að ræða þar sem sætin hreyfast í takt við myndirnar. „Þetta er óhemju raunveruleg upplifun, þér finnst eins og þú sért að svífa um í lausu lofti,“ segir hann og nefnir að lofthrætt fólk ætti ekki að hafa áhyggjur því slík tilfinning gleymdist um leið og sýningin hefst.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Tækin frá Taívan

Tækin koma að mestu frá félagi sem heitir Brogent Technologies í Taívan og eru þau langstærsti einstaki kostnaðarliðurinn fyrir utan húsið sjálft. Þungamiðjan í tækjabúnaðinum er hið svokallaða i-Ride með sætunum fjörutíu sem fyrirtækið hefur þróað. Heildarkostnaður verkefnisins þegar allt er talið, bæði bygging hússins, tækjabúnaðurinn og að koma honum til landsins hleypur á milljörðum króna. Vel yfir 100 manns hafa unnið við verkefnið. Veitingasalur og verslun verða á neðri hæð hússins.

Stofnendur Flyover Iceland eru þeir Sigurgeir, Robyn Mitchell og Kevin Finnegan. Fyrirtækið Pursuit er rekstraraðlinn og á 54,5% í félaginu, en það hefur starfað í Kanada og Bandaríkjunum. Fasteignafélagið E6 er eigandi hússins að Fiskislóð. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem borga sig inn á Flyover Iceland sjá fyrst tvær forsýningar í tveimur öðrum sýningarsölum áður en aðalatriðið hefst og er þeim ætlað að byggja upp spennuna hjá fólki. Heildarupplifunin fyrir þá sem borga sig inn tekur um 45 til 55 mínútur en flugið yfir Ísland tekur um tíu mínútur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert