Nýtt 120 herbergja hótel við Skógarböðin

Á nýju hóteli Íslandshótela við Skógarböðin er gert ráð fyrir …
Á nýju hóteli Íslandshótela við Skógarböðin er gert ráð fyrir 120 herbergjum, en miðað er við að hótelið opni á vormánuðum 2026. Teikning/Basalt arkitektar

Íslandshótel og fjárfestar tengdir Skógarböðunum í Eyjafirði áætla að reisa nýtt 120 herbergja fjögurra stjörnu hótel við hlið Skógarbaðanna. Þá verður einnig horft til þess að stækka baðhluta Skógarbaðanna þannig að hann muni tengjast hótelinu. Reiknað er með að fjárfestingin í hótelinu muni nema um fimm milljörðum króna og að hótelið opni á vormánuðum 2026.

Gert er ráð fyrir að á hótelinu verði veitingastaður, ráðstefnu- og veislusalur ásamt heilsulind. Hótelið verður með 120 herbergi, fjögurra hæða, auk þakhæðar með útsýni yfir Eyjafjörðinn.

Stórhuga draumur að rætast

„Við erum afar spennt fyrir þessu verkefni og stórhuga draumar okkar um hótel tengt við Skógarböðin eru nú að rætast. Við viljum gera okkar til að byggja áfram upp ferðaþjónustu á Norðurlandi, enda getur hótel hér einnig stuðlað að bættum forsendum fyrir millilandaflugi til Akureyrar. Hótelið verður staðsett í jaðri skógarins í Vaðlareit og mun hafa einstakt útsýni yfir á Akureyri og inn og út Eyjafjörðinn, lengsta fjörð Íslands,“ er haft eftir Sigríði Maríu Hammer og Finni Aðalbjörnssyni, aðaleigenda Skógarbaðanna, í tilkynningu.

Þá er haft eftir Davíð Torfa Ólafssyni, forstjóra Íslandshótela, að bæði sé erlendum ferðamönnum að fjölga á svæðinu og Íslendingum sem fara norður til skammtímadvalar, t.d. með að taka þátt í íþróttamótum eða skella sér á skíði. Því sé þessi viðbót kærkomin.

Hótelið verður við hlið Skógarbaðanna og gert er ráð fyrir …
Hótelið verður við hlið Skógarbaðanna og gert er ráð fyrir að stækka baðhluta Skógarbaðanna þannig að hann muni tengjast hótelinu. Teikning/Basalt arkitektar

Íslandshótel á leið á markað

Íslandshótel reka í dag 18 hótel með um 2.000 herbergi undir merkjum Fosshótela og Reykjavíkurhótela.

Í síðasta mánuði var tilkynnt um að Íslandshótel stefndu á skráningu í Kauphöllinni á næstu mánuðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK