Nútímalegir vegglímmiðar með íslensku ívafi

Saman hafa systurnar Kristín, Sigrún og Lilja stofnað fyrirtækið VEGG sem selur sérhannaða vegglímmiða með íslensku ívafi. Vegglímmiðar eru nútímaleg, einföld og falleg leið til að skreyta auða veggi og því þótti Stílnum afar spennandi að spjalla við systurnar um þessu sniðugu lausn fyrir heimilið.

 

Hverjar eru Kristín, Sigrún og Lilja?

Við höfum allar ólíkan bakgrunn, Kristín er sjúkraþjálfari, Sigrún fyrrum flugfreyja með BA í sálfræði og Lilja menntuð tónlistarkona, en við deilum sameiginlegum áhuga á hönnun og myndlist. Með tímanum erum við farnar að sjá hvernig ólíkir styrkleikar okkar nýtast í fyrirtækinu og hver og ein fær sitt hlutverk. Ein er til dæmis köldust við að hafa samband við fólk, önnur er snjöllust í tæknimálunum og sú þriðja hefur skipulagsgáfuna og stórt tengslanet. Við erum sífellt að læra eitthvað nýtt og skemmtilegt í tengslum við fyrirtækið. Þetta er búið að vera frábært ævintýri frá upphafi og við hlökkum til framhaldsins.

Hvaðan kom hugmyndin að vegglímmiðunum?

Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði þegar við systurnar sátum saman á kaffihúsi eitt vetrarkvöld snemma árs 2012. Við spjölluðum um ýmislegt þetta kvöld, m.a. hvað það væri gaman að vinna að einhverju skapandi saman og stofna jafnvel fyrirtæki í kringum það. Umræða um vegglímmiða dúkkaði einnig upp á þar sem tvær af okkur voru að leita sér að slíkum límmiðum. Okkur fannst vegglímmiðar vera snilldarlausn í rými, bæði flottir og praktískir. Það er skemmtilegt hvernig þeir samlagast veggnum, nánast eins og myndin hafi verið máluð á.

Þeir eiga við alls staðar og á sumum stöðum eru þeir sérstaklega sniðugir, t.d. í leiguíbúðum þar sem bannað er að negla og einnig fyrir ofan rúm þar sem þeir geta ekki dottið ofan á fólk. Við ræddum um að það væri gaman ef úrval vegglímmiða væri meira hér á Íslandi og þá kviknaði hugmyndin um að við gætum sjálfar stofnað fyrirtæki og framleitt vegglímmiða. Oft lætur maður sig dreyma um hlutina en guggnar á því að láta raunverulega verða af þeim. Maður er hræddur um að manni mistakist og það er einfaldlega þægilegra að halda sig við gömlu rútínuna. Við systurnar könnuðumst allar við að hafa fengið góðar hugmyndir sem við þorðum síðan ekki að framkvæma. Í þetta skiptið vorum við þó ákveðnar í að láta ekkert stoppa okkur!

Hver hannar/velur límmiðana og hvaðan fáið þið innblástur?

Þegar kom að því að velja myndefni fannst okkur Ísland bjóða upp á óþrjótandi uppsprettu hugmynda, svo viðkvæmt og kraftmikið í senn. Okkur fannst að það yrði skemmtilegt fyrir Íslendinga að prýða veggina með einhverju sem er þeim svo kunnuglegt og einnig erlenda ferðamenn sem gætu þannig átt eitthvað til minningar um landið. Við vorum einnig mjög spenntar fyrir því að tengja saman íslenska myndlist og vegglímmiða. Sú leið hefur ekki verið farin áður svo að við vitum til og okkur fannst það afar áhugaverð nýjung.

Úr þessu spruttu fram tvær vörulínur: Farsælda Frón, vegglímmiðar með áherslu á sögu, menningu og náttúru Íslands og Kvak, vegglímmiðar unnir af myndlistarkonunni Guðrúnu Sigurðardóttur. Við vönduðum mikið til verks við báðar þessar vörulínur og erum virkilega ánægðar með afraksturinn. Límmiðarnir eru alfarið framleiddir hér heima á Íslandi og við skerum þá út í hágæðafilmu sem endist lengi á veggnum. Umbúðirnar eru sterkar og koma í veg fyrir að þeir verði fyrir hnjaski. Hverjum límmiða fylgir síðan fræðslutexti um myndefnið, bæði á íslensku og ensku.

Hvar er hægt að versla vegglímmiðana?

Vegglímmiðarnir eru nú komnir í sölu í nokkrum flottum verslunum: Kraum, Epal, Aurum, Kaupstadur.is, Safnbúð landnámssýningar, Around Iceland, Sirku, Bláa lóninu og Arcticselection.com. Einnig höfum við nýlega opnað okkar eigin vefverslun, http://vegg.is, en þar er hægt að skoða vöruúrvalið og fá nánari upplýsingar.

Stílinn má skoða í heild sinni í nýjasta tölublaði Monitor hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er gott að þekkja sín eigin takmörk og þá ekki síður að virða þau þegar á það reynir. Ef þú fæst ekki við það sem þú hefur áhuga á getur lífið svo sannarlega verið letjandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er gott að þekkja sín eigin takmörk og þá ekki síður að virða þau þegar á það reynir. Ef þú fæst ekki við það sem þú hefur áhuga á getur lífið svo sannarlega verið letjandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Anna Sundbeck Klav