Rauðasandur með jöfnustu kynjahlutföllin

Ung stúlka hlýðir áhugasöm á tónlistarflutning á Rauðasandi.
Ung stúlka hlýðir áhugasöm á tónlistarflutning á Rauðasandi. Ljósmynd/Guðmann Þór Bjargmundsson

Á síðustu misserum hefur nokkuð farið fyrir fréttaflutningi af bágum hlut kvenkyns tónlistarmanna í kvölddagskrá Þjóðhátíðar í Eyjum. Þjóðhátíð er stærsta útihátíðin sem haldin er árlega á Íslandi en á liðnum árum hefur tónlistarhátíðum fjölgað til muna og vert er að skoða hvort hlutur kvenna sé meiri eða jafnvel minni í öðrum hátíðum.

Monitor skoðaði kynjahlutföll meðal tónlistarmanna í kvölddagskrá sjö hátíða, þar sem fyrst og fremst koma fram íslenskar hljómsveitir. Skoðuð var kvölddagskrá Eistnaflugs, Þjóðhátíðar í Eyjum, Evrópumeistaramótsins í Mýrarbolta, Bræðslunnar, Gærunnar, Rauðasands og LungA. Þegar allt var tekið saman var hlutfall kvenkyns tónlistarmanna hæst á Rauðasandi eða 37 % en lægst á Mýrarboltanum eða 11%.

Tekið skal fram að til að auðvelda útreikninga voru tölur yfir hljómsveitarmeðlimi sem kunna að spila með tónlistarfólki sem kemur fram undir eigin nafni ekki teknar með. Til að mynda voru þeir einstaklingar sem koma fram með Láru Rúnars og Emmsjé Gauta sem hljómsveit eða undirleikarar ekki taldir með. Þegar hljómsveit var nefnd sérstaklega í dagskrá, líkt og í tilviki Jónasar Sigurðssonar og Ritvéla framtíðarinnar eða Lúðrasveitar Vestmannaeyja sem leikur undir hjá Fjallabræðrum, voru þeir einstaklingar hins vegar taldir. Gera má ráð fyrir að flestir undirleikarar séu karlkyns og að því halli líklega nokkuð meira á konur á sumum hátíðanna en tölurnar sem hér eru gefnar gefa til kynna.

Kynjahlutföllin réttust óvart

Rauðasandur Festival fór fram 3. til 5. júlí síðastliðinn. Á hátíðinni komu fram 57 tónlistarmenn og þar af var 21 kona. Veðrið setti talsverðan strik í reikninginn og færa þurfti hátíðina þrisvar sinnum auk þess sem hljómsveitin My Bubba, sem skipuð er hinni sænsku My og íslensku Bubbu, þurfti frá að hverfa vegna veðurs. Ef My Bubba hefði náð á áfangastað hefði hlutfall kvenkynstónlistarmanna verið 39% á Rauðasandur Festival. Einn skipuleggjenda hátíðarinnar, Kristín Andrea Þórðardóttir, segir að síðustu árin hafi gengið erfiðlega að jafna kynjahlutföllin af ýmsum ástæðum en að hún hafi glaðst yfir bættum árangri. „Í ár gerðist þetta eiginlega bara óvart, kannski var það af því að við vorum búin að reyna svo mikið síðustu ár,“ segir hún og hlær.

Sækjast eftir konum

Ekki hefur verið tilkynnt um alla þá tónlistarmenn sem fram koma á Gærunni á Sauðárkróki í ágúst en enn sem komið er eru konur 32% flytjenda á hátíðinni. Hljómsveitir sækja um að fá að spila á hátíðinni og því eru skipuleggjendur háðir því að hljómsveitir sem innihalda konur sæki um til að rétta af kynjahlutföllin. Laufey Kristín Skúladóttir, önnur skipuleggjenda, nefnir þó að þær hafi haft samband við Reykjavíkurdætur sérstaklega til að benda þeim á að sækja um auk þess sem meðlimum í Kítón, félagi íslenskra kvenna í tónlist, hafi verið bent á hátíðina.

„Þær konur sem við veljum til að spila eru ekki valdar bara af því að þær eru konur enda hugsum við fyrst og fremst um gæðin,“ segir Laufey. Hún viðurkennir að sem stendur séu fleiri karlmenn í tónlistargeiranum en konur en neitar því alfarið að það sé niðrandi fyrir konur að það sé sóst eftir þeim sérstaklega. „Ég á til að mynda sjálf þrjár stelpur og við brjótumst ekki upp úr hjólfarinu ef þær og aðrar sjá ekki konur á sviði.“

Mammút og Reykjavíkurdætur draga upp kynjahlutfallið

LungA og Bræðslan eiga það sameiginlegt að þar koma fram 19 tónlistarmenn, ef frá eru taldir þeir sem fram koma sem undirleikarar eða hljómsveit stakra listamanna. Á LungA munu þrjár konur stíga á pall; ein úr Prins Póló, ein úr Retro Stefson og rapparinn Cell7. Á bræðslunni eru þær fimm, þrjár úr Mammút, Lára Rúnars og Emilíana Torrini. Á LungA eru því 16% tónlistarfólksins konur en á Bræðslunni 26%. Þess má geta að Mammút kemur fram á fjórum af hátíðunum sjö og gerir þannig sitt til að draga upp hlutfall kvenna á sviði. Sama má segja um rappsveitina Reykjavíkurdætur sem kemur fram á Gærunni og Eistnaflugi. Fjöldi Reykjavíkurdætra reikar á milli viðburða en á Gærunni verða þær níu (samkvæmt núverandi áætlunum) og 14 þeirra mæta á Eistnaflug.

Eistnaflug stóð yfir í Neskaupstað nú um helgina en hátíðin er annars vegar þekkt sem harðasta rokkhátíð Íslands og hins vegar fyrir grjótharða afstöðu gegn nauðgunum og ofbeldi af nokkru tagi. Þótt hið síðarnefnda skapi vinalegt umhverfi fyrir kvenkynið sem og aðra eru eflaust margir sem eiga bágt með að ímynda sér að kvenkyns tónlistarmenn eigi upp á pallborðið hjá þungarokkurum. Raunin er hinsvegar sú að 32 konur komu fram á Eistnaflugi í ár og þær röppuðu, öskruðu, spiluðu á hljóðfæri og ljóðaslömmuðu. Samtals mynduðu konur 15% tónlistarmanna á hátíðinni en ef Reykjavíkurdætrum væri kippt út hefði hlutfallið lækkað niður í 9%.

Betri tíð á þjóðhátíð

Þjóðhátíðarnefnd hefur víða hlotið harða gagnrýni fyrir skort á kvenkyns tónlistarmönnum á sviðinu í Herjólfsdal og í ár hefur formaður Þjóðhátíðar tekið skýrt fram að ekki sé tekið tillit til kyns þegar tónlistarfólk hátíðarinnar er valið. Miðað við talningu Monitor á tónlistarmönnum samkvæmt auglýstri dagskrá munu 180 manns stíga á svið á kvölddagskránni í dalnum yfir verslunarmannahelgina. Þar af eru 44 konur sem mynda þar með 24% tónlistarfólksins.

Hins vegar eru aðeins tíu þessara kvenna söngkonur eða hljóðfæraleikarar í popp- eða rokkhljómsveitum en 34 þeirra eru meðlimir Lúðrasveitar Vestmannaeyja sem spilar undir hjá Fjallabræðrum. Ef lúðrasveitin er tekin úr dæminu lækkar því hlutur kvenþjóðarinnar niður í 8% en ef Fjallabræður, sem skipaðir eru 50 karlmönnum og einni konu, eru látnir fjúka fer hlutfallið upp í 13%. Hvernig sem menn vilja nálgast reikninginn er ljóst að staðan í Eyjum er þó nokkuð betri en á síðasta ári. Þá komu einungis þrjár konur fram á hátíðinni og voru þær 5% tónlistarfólksins.

„Kannski skorti okkur hugmyndaflug“

Á Evrópumeistaramótinu í mýrarbolta koma fram 27 tónlistarmenn á þremur kvöldum. Ef engin hljómsveitanna sem fram koma hristir leynigest fram úr erminni munu aðeins þrjár konur stíga á svið á kvölddagskrá hátíðarinnar og þær eru allar úr Mammút. Mýrarboltinn rekur því lestina þegar kemur að jafnræði í kynjahlutföllum. „Mér finnst rosa leiðinlegt að segja það en ég hef aldrei pælt í þessu,“ segir Jón Páll Hreinsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar eða aðstoðarmaður drullusokks eins og rétt er að titla hann. „Það er þannig að við erum í samstarfi við tónleikahaldara sem sér um alla tónlistina og kom með lista sem var samþykktur, ég man ekki eftir að það hafi nokkurn tíma verið rætt um tónlistina út frá kyni, kannski skorti okkur hugmyndaflug,“ segir Jón.

Evrópumeistaramótið í mýrarbolta hefur verið haldið í tíu ár en tónlistardagskráin hefur ekki verið áberandi fyrr en síðustu þrjú árin. Jón segir mótið upprunalega hafa verið íþróttaviðburð en fljótlega hafi gestir gert kröfu um aukna dagskrá, skipuleggjendur hafi hins vegar aldrei haldið því fram að þeir væru góðir í að halda tónleika. „Við höfum skoðað hátíðina alla mikið út frá kynjunum, við krýnum alltaf Evrópumeistara og hann er ekki kynháður heldur það lið sem náði bestum árangri, sama hvort það var í karla- eða kvennadeildinni. Við höfum lagt mikið á okkur til að gera hátíðina öruggan gagnvart kynferðisofbeldi og erum með markvissan áróður gegn því,“ segir Jón. Að sögn Jóns hefur ekki verið kærð nauðgun á mýrarboltahátíðinni frá upphafi en hann segir skipuleggjendur aðhyllast þá hugmyndafræði að það að ekkert kynferðisofbeldi komi upp eigi ekki að vera frétt.

Jón er fljótur að svara „alveg pottþétt“ þegar hann er spurður hvort hann telji að kynjahlutföllin verði rædd í framtíðinni en þegar talið berst að hátíð sumarsins segir hann glaðhlakkalega: „Við verðum bara að stökkva til og ráða lúðrasveit.“

Mammút spilar á fjórum af hátíðunum sjö en hljómsveitin er …
Mammút spilar á fjórum af hátíðunum sjö en hljómsveitin er skipuð þremur konum og tveimur körlum. Styrmir Kári
Fjallabræður draga hlutfall karlmanna á þjóðhátíð duglega upp en hækka …
Fjallabræður draga hlutfall karlmanna á þjóðhátíð duglega upp en hækka raunar einnig tölu kvenna nokkuð með fiðluleikaranum Unni Birnu. Eggert Jóhannesson
Þó svo að aðeins þrjár konur séu bókaðar á kvölddagskrá …
Þó svo að aðeins þrjár konur séu bókaðar á kvölddagskrá Mýrarboltans mun kvenkynið vafalaust ekki láta sitt eftir liggja á völlunum. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes