Lét frysta egg sín og frestar barneignum

Lesendur Elle fengu að fylgjast með Robyn undirbúa sig undir …
Lesendur Elle fengu að fylgjast með Robyn undirbúa sig undir að láta frysta egg sín. Ljósmynd/ Skjáskot af Elle.com

Konur eru í auknum mæli farnar að frysta ófrjóvguð egg úr sér til að eiga aukna möguleika á að skapa sér farsælan feril. Hin 36 ára Robyn er ein þeirra kvenna og ákvað nýverið að frysta egg sín. Hún leyfði lesendum Elle að fylgjast með ferlinu sem hún þurfti að ganga í gegnum.

Ljósmyndari Elle fylgist með Robyn sprauta sig með tvenns konar hormónum; menopur og follistim. Robyn er marin eftir sprauturnar og maginn orðinn útstæður, líkt og hún sé komin nokkrar vikur á leið, en Robyn er að búa sig undir að láta frysta ófrjóvguð egg.

Konur, 35 ára og eldri, eru í auknum mæli farnar að láta frysta úr sér egg en yfirmenn fyrirtækja á borð við Apple og Facebook bjóðast nú til að fjármagna meðferðina fyrir kvenkyns starfsmenn sína. Með því vonast þeir til að fleiri konur sæki um starf hjá þeim þar sem konur eru í lágmarki í báðum fyrirtækjum. Robyn greiddi tæpar tvær milljónir króna fyrir sína meðferð en margar konur eru tilbúnar til að greiða þá upphæð og kaupa sér þannig aukinn tíma til að einbeita sér að vinnunni.

„Það gleður mig að konur hafa þetta frelsi til að fresta því að eignast börn og geta þannig skapað sér farsælan feril,“ segir Robyn. „Mér fannst alltaf einhleypir karlkyns vinir mínir svo lánsamir en núna hef ég val líkt og þeir.“ 

Tryggir sér örugga framtíð

Það veitti Robyn hugarró að geta fryst eggin sín. Hún býr í Brooklyn og starfar sem markaðsráðgjafi hjá flottu fyrirtæki. Robyn hyggst tryggja sér örugga framtíð fjárhagslega áður en hún eignast börn. Hún byrjaði að leggja peninga fyrir. „Ef þú átt smápening er þetta auðveldara,“ segir Robyn sem gekkst undir ýmsar rannsóknir áður en hafist var handa.

Robyn hlaut ákveðna þjálfun áður en hún hóf hormónameðferðina. Hún lærði að sprauta sig sjálf og lærði inn á lyfin sem hún þurfti að taka. Eftir að Robyn byrjaði hormónameðferðina var henni ráðlagt að stunda ekki líkamsrækt og ferðast ekki, þá mátti hún ekki neyta áfengis eða koffíns.

„Þetta er svona öryggisplan, plan B,“ segir Robyn.

Eftir um mánuð fór Robyn í sína fyrstu aðgerð. Hún var svæfð og þegar hún vaknaði var henni tilkynnt að tekist hefði að fjarlægja 40 egg úr legi hennar. Að lokum voru 25 egg fryst, sem þykir gott.

Núna getur Robyn einbeitt sér að vinnunni en hún þarf að borga tæknifrjóvgunarfyrirtæki 120.000 krónur á mánuði fyrir að geyma eggin. Þegar hún er svo tilbúin getur hún farið í tæknifrjóvgun og vonað það besta. „Ég ímynda mér að ég muni eignast börn einn daginn og ég sé ekki eftir að hafa beðið með það, alls ekki.“

Það krefst nákvæmni að sprauta sjálfan sig með hormónum.
Það krefst nákvæmni að sprauta sjálfan sig með hormónum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál