Jákvætt og uppbyggilegt

Hjördís Ýr Johnson.
Hjördís Ýr Johnson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hjördís Ýr Johnson stýrir Dale Carnegie-námskeiðum fyrir ungt fólk þar sem nemendur stíga út fyrir þægindahringinn, efla sjálfstraustið, fá leiðsögn í tjáningu og mannlegum samskiptum og setja sér ný markmið.

Markmið námskeiðsins Næsta kynslóð er að vinna með mannleg samskipti, tjáningu, jákvætt viðhorf, markmiðasetningu og leiðtogahæfileika,“ segir Hjördís Ýr Johnson, kynningarstjóri og þjálfari hjá Dale Carnegie, en hún hefur margra ára reynslu af ráðgjafastörfum á vegum fyrirtækisins og hefur síðustu árin lagt mesta áherslu á þjálfun ungmenna. „Á hverju námskeiði er fjölbreytt flóra af ungu fólki – sumir eru félagslega sterkir en vilja bæta sig frekar í markmiðasetningu, á meðan aðrir eru til dæmis að takast á við áhyggjur og kvíða.

Flestir sem skrá sig á námskeið þekkja einhvern sem hefur verið hjá okkur og eru spenntir að prófa, en þó eru alltaf einhverjir sem koma af því að foreldrarnir ýttu þeim af stað. Við leggjum mikla áherslu á að þátttakendur sæki námskeiðin á sínum forsendum og langi til að vera með, því það er eins með þetta og flest annað, ef þú hefur engan áhuga á því sem þú ert að fást við þá nærðu engum árangri.“

Hvatning og hrós

Spurð betur út í námskeiðið Næsta kynslóð segir Hjördís þjálfunina byggjast á hvatningu, hrósi og jákvæðni. „Við vinnum mikið með styrkleika fólks og einnig viðhorf. Gæfa okkar og velgengni í lífinu snýst svo mikið um það hvernig við hugsum. Ef það er eitthvað sem getur hjálpað okkur að takast á við lífið, með öllum þeim áskorunum sem það býður upp á, þá er það hugsunarháttur okkar.

Oftast er viðhorf ekkert annað en vani og það er alltaf gott að staldra við og spyrja sjálfan sig: Hvort er ég meira jákvæð/ur eða neikvæð/ur? Í framhaldinu er hægt að taka meðvitaða ákvörðun um að verða ennþá jákvæðari í hugsun og það er einmitt útgangspunkturinn á námskeiðinu.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að jákvæður einstaklingur getur haft margfalt meiri áhrif á aðra en neikvæður einstaklingur. Það skemmtilega við jákvætt viðhorf er líka hversu smitandi það er, ég upplifi það daglega í mínu starfi hjá Dale Carnegie og raunar í lífinu öllu.“

Aukin samkennd

Aðspurð segir hún aðsókn að fjölbreyttum námskeiðum Dale Carnegie hafa farið vaxandi hin seinni ár, ekki síst á meðal þeirra yngri. „Fyrir 10 árum var byrjað að bjóða upp á sérstök námskeið fyrir ungt fólk og það hefur gefist einstaklega vel. Námskeiðið Næsta kynslóð er aldursskipt og miðað við 10-12, 13-15, 16-20 og 21-25 ára og í haust verður í fyrsta sinn einnig boðið upp á námskeið fyrir stelpur 16-22 ára. Námskeiðið spannar mjög breitt svið, þannig að hver og einn þátttakandi getur sett sér sín eigin markmið og lagt áherslu á það sem hann langar að bæta sig í.

Það er alltaf jafngaman að sjá hversu ólíkir þátttakendur eru og fá að kynnast öllu þessu unga, efnilega fólki sem á framtíðina fyrir sér. Það eru mikil forréttindi að fá að vera í kringum krakkana, það fylgir þeim svo mikil orka og gleði sem smitar út frá sér. Við getum verið stolt af þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi. Þau eru hörkudugleg, opin, jákvæð og með mikinn eldmóð og þau munu eiga sinn þátt í því að skapa hér enn betra samfélag.

Krakkarnir hafa oft á orði hvað þeim finnst gott að fá að vera á meðal jafningja, kynnast öðrum ungmennum og heyra hvað hinir eru að kljást við í daglegu lífi. Það eyðir fordómum og eykur samkennd að geta sett sig í spor annarra. Þá áttum við okkur líka gjarnan á því að við erum ekki ein í heiminum og sjáum jafnvel stundum að okkar líf er bara nokkuð gott miðað við ýmislegt sem aðrir eru að takast á við. Þannig lærum við betur að meta það sem við höfum.“

Virk þátttaka

Á námskeiðum Dale Carnegie er lögð áhersla á virka þátttöku í stað fyrirlestra og Hjördís er spurð hvort það sé ekki einmitt lykillinn að góðum árangri. „Jú, svo sannarlega. Námskeiðin eru byggð þannig upp að þú ert stöðugt að vinna með sjálfan þig, öll verkefni taka mið af þínu lífi og fólkinu í kringum þig. Þeir nemendur sem eru duglegir að nýta sér verkefnin, flétta þau inn í daglegt líf, uppskera því auðvitað mest.

Oft er fyrsta skrefið út fyrir þægindahringinn erfiðast, en svo verður það alltaf auðveldara og skemmtilegra. Það er ótrúlega gefandi að sjá þegar krakkarnir átta sig á því að þeim eru allir vegir færir, þau geta breytt lífi sínu með því að setja sér ný markmið og fylgja áætlunum sínum eftir.“

Hún kann ótalmargar reynslusögur af námskeiðinu Næsta kynslóð. „Eitt atvik er mér afar minnisstætt en þá laumaðist einn þátttakandi út úr fyrsta tímanum, hann fann til óöryggis og vildi ekki halda áfram. Við spjölluðum saman og sömdum um að hann kláraði tímann og prófaði einn tíma til viðbótar. Viku seinna birtist hann aftur og ég veit að það kostaði hann mikið átak. Hann kláraði námskeiðið, tók virkan þátt og fékk í lokin viðurkenningu fyrir mestar framfarir, þar sem þátttakendur kjósa sín á milli. Það var frábær tilfinning að sjá hann taka á móti viðurkenningunni, brosandi út að eyrum, hann hafði tekist á við áskoranir í sínu lífi, stækkað hressilega þægindahringinn og öðlast við það meira sjálfstraust.“

Hlutverk þjálfara

Sjálf sótti Hjördís sitt fyrsta námskeið hjá Dale Carnegie fyrir 15 árum. „Ég verð að viðurkenna að ég var með töluverða fordóma, hélt að þetta yrði óskaplega amerískt og tilgerðarlegt. En ég skipti fljótt um skoðun enda fannst mér námskeiðið bæði gagnlegt og skemmtilegt. Að því loknu sótti ég strax annað námskeið og var þá í hlutverki aðstoðarmanns. Það er frábær leið til að halda áfram að vinna í sjálfum sér, en á sama tíma liðsinna öðrum sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Mér fannst mjög gaman og gefandi að vera aðstoðarmaður á námskeiði og var dugleg að segja já þegar ég var beðin um að taka það að mér. Loks ákvað ég að fara alla leið og afla mér réttinda sem Dale Carnegie-þjálfari. Það er langt og krefjandi ferli og við þjálfararnir sækjum svo námskeið á hverju ári til að halda réttindunum, ásamt því að funda reglulega og stilla saman strengi.

Þetta er að mínu mati einn af styrkleikum Dale Carnegie-námskeiðanna og ein ástæða þess að þátttaka í þeim skilar svo góðum árangri. Lærdómurinn nýtist þér alla ævi, þar færðu öflug verkfæri í hendur sem þú getur notað til að eflast og styrkjast. Það er öllum hollt að staldra við reglulega, horfa inn á við og skoða hvernig við getum alltaf bætt okkur, hvernig við getum orðið besta útgáfan af okkur sjálfum, og því fyrr sem við byrjum á æviskeiðinu þeim mun meira gagn höfum við af því.“

www.dalecarnegie.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál