Ert þú með ómeðvitaða frestunaráráttu og verkkvíða í kjölfarið?

Þórey Kristín Þórisdóttir.
Þórey Kristín Þórisdóttir. mbl

„Ég verð að viðurkenna að ég hélt í einlægni minni að ég væri þessi „gera allt strax“ manneskja. Uppvaskið situr aldrei á hakanum, þvotturinn er straujaður á sunnudögum (mamma mín er húsmæðraskólagengin svo ekki gera grín að mér), skólaverkefnin skila sér alltaf innan tímarammans og svona mætti lengi telja.

Eftir að hafa lært heilsumarkþjálfun hef ég hins vegar komist að því að ég er snillingur í að fresta þessum litlu hlutum því hugur minn er alltaf á þeim stóru,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur í nýjum pistli: 

Eitt dæmi um smáverkefni sem fékk að sitja á hakanum hjá mér var uppfærsla ferilskrárinnar. Ég gleymi því ekki þegar félagi minn sendi mér tilkynningu um starf innan háskólans sem ég ætti endilega að sækja um. Frábært, ekki málið. Fresturinn rann út á miðnætti og ég sá skilaboðin hans kl. 19 sama kvöld. Heimilishaldið var í heljargreipum þar til korter í miðnætti því allar þessar „5 mínútur“ sem hefðu átt að duga til að halda ferliskránni uppfærðri í gegnum árin voru orðnar að 5 tímum (finna meðmælendabréfið sem var grafið í gamalli tölvu og símanúmerin hjá eftirtöldum meðmælendum úrelt, hvenær var ég að vinna á spítalanum og hvað lengi og svo framvegis). Þetta kvöld var skýrt dæmi um afleiðingar „frestunaráráttu“ vegna þessara litlu hluta sem vaxa bara með tímanum og verða að lokum að einu stóru verkefni þegar þeim er ekki sinnt strax.

Annað dæmi um frestunaráráttu snýr að syni mínum og var farið að skapa árekstra hér heima fyrir. Hann átti það til að fresta öllu mögulegu, stóru jafnt sem smáu. Nú hef ég verið að vinna að því að hann verði meðvitaður um frestunaráráttu sína, en það er fyrsta og mikilvægasta skrefið. Það hlakkaði í mér um daginn þegar hann hafði ítrekað frestað því að pumpa lofti í dekkin á hjólinu sínu. Korters hjólatúr í búðina tók rúma klukkustund því hann var svo hægfara á loftlausu dekkjunum. Ekki skemmdi fyrir úrhellið sem kom allt í einu til að gera þetta atriði dramatískara. Frestunaráráttan lenti af fullum þunga á honum og ég held að hann hafi byrjað að vakna til meðvitundar um afleiðingar hennar. 

Ef verkefnin eru orðin það mörg og óyfirstíganleg þá koma „to do listar“ oft að mjög góðum notum og forgangsröðun verkefna. Ekki langt síðan ég sat fyrir framan skjólstæðing minn sem átti erfitt með að sofna á kvöldin vegna þess að hugur hennar hrærðist í öllu því sem hún átti eftir að sinna. Hún hafði frestað það miklu að hún lá andvaka með kvíða og vissi ekki hvar hún ætti að byrja. Í sameiningu skrifuðum við öll verkefnin niður og forgangsröðuðum svo eftir á. Að koma verkefnunum úr höfðinu á sér og niður á blað var nóg til að slá á verkkvíðann hjá henni.

Frestunaráráttta kostar oftast nær tíma og peninga og oft líður andlega heilsan og fjölskyldan fyrir vikið. Ekki má gleyma líkamlegu heilsunni, en nær allir sem ég hef fengið í heilsumarkþjálfun eru einstaklingar sem hafa frestað því allt of lengi að taka sig í gegn og á meðan hafa heilsukvillarnir hrannast upp, jafnvel að því marki að læknisaðstoð hafi verið nauðsynleg.  

Lykilatriðið hér er að vera meðvitaður um hverju maður er að fresta í stað þess að gera það strax. Ætlar þú að byrja borða hollt í næsta mánuði? Byrja aftur í ræktinni eftir sumarfríið? Það er hvort eð er vonlaust þannig séð að hugsa um heilsuna í sumarfríinu, er það ekki? Borga reikninginn seinna? Ýtir þú ósjálfrátt á „sækja um frestun“ á skattframtalinu en endar svo á því að hanga á samfélagsmiðlum sama kvöld? Á meðan þessi frestun á skattframtalinu á sér stað þá er ég viss um að fleiri smáhlutir detta inn og áður en þú veist af eru þessir smáhlutir orðnir það stórir að verkkvíði hefur myndast. Kvíði er mjög algeng hliðarverkun frestunaráráttu án þess að margir geri sér grein fyrir því. 

Það besta við þetta er að þegar maður er orðinn meðvitaður um afleiðingar frestunar þá fylgir því svo mikil vellíðan að klára allt af.

Ég vil þakka mömmu minni fyrir að hafa alið mig upp við „illu er bestu af lokið“ hugarfarið. Ég hef aldrei séð þessa konu fresta neinu. Þegar hún fékk hraðasekt um daginn borgaði hún hana STRAX og sparaði sér þar með 25% af upphæðinni.  Að hún hefði getað sparað sér allan kostnaðinn við að keyra á löglegum hraða er önnur saga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál