Feimnir græða jafnvel mest

Ólöf Sverrisdóttir segir að leiklistarnámskeiðin henti öllum. Ekki síst þeim …
Ólöf Sverrisdóttir segir að leiklistarnámskeiðin henti öllum. Ekki síst þeim sem eru feimnir. mbl.is / Ófeigur Lýðsson

„Ég fór á leiklistarnámskeið hjá Helga Skúlasyni sjálf áður en ég fór í leiklistarnám og þar var fólk á öllum aldri og með alls konar bakgrunn. Margir voru ekkert endilega að hugsa um að fara í leiklistarskóla, eða neitt slíkt, en allir skemmtu sér konunglega og þetta nýttist þeim við það sem þau voru að gera,“ segir Ólöf Sverrisdóttir, en hún og Óli Guðmundsson standa fyrir leiklistarnámskeiðum fyrir fullorðna.

„Mér fannst sjálfri algjör upplifun að fara til Helga á námskeið og þá sannfærðist ég um að þetta vildi ég gera. Mér fannst líka á sínum tíma hreinlega vanta námskeið fyrir fullorðna. Ég vissi um marga sem myndu vilja komast á svona námskeið. Og núna finnst fólki sem betur fer ekki að lífið sé búið um 35 ára aldurinn, eða svo. En svo er þetta líka fyrir þau yngri sem eru að spá í að fara í prufur í leiklistarskóla eða fara að gera eitthvað þessu tengt,“ segir Ólöf, en hvernig fara námskeiðin fram?

„Við notum leiklistaræfingar til að efla og styrkja fólk. Og einnig til að losa um hömlur og þannig ná í sköpunargleðina á ný. Og bara það að stíga út úr þægindahringnum gefur fólki kraft og lífsgleði. Og það er einmitt það sem gerist á námskeiðunum hjá okkur. Við notum skemmtilegar og líflegar æfingar til að hjálpa fólki að opna fyrir sköpunarflæði og ímyndunarafl. Við notum mikið spunaæfingar og þyngjum æfingarnar eftir því  sem fólk er orðið öruggara. Áherslan er  samt alltaf á sköpunargleði, útrás og frelsi.“

Ólöf segir að námskeiðin séu afar gefandi og að jafnvel megi líkja þeim við sjálfshjálparnámskeið.

 „Ég veit að hér get ég talað fyrir hönd flestra, ef ekki allra nemenda, sem hafa komið til okkar. Það að finna hvað maður er í raun hugmyndaríkur og skapandi er náttúrlega dásamleg tilfinning og gefur fólki mikið. En líka þetta frelsi sem fólk finnur fyrir þegar það hættir að hlusta á gagnrýnandann í höfðinu og stígur inní óttann. Það má segja að það að sleppa tökunum og framkvæma sé það sem leiklistarnámskeiðið hefur fram yfir mörg sjálfshjálparnámskeið. Þannig hverfur óttinn og fólk lætur oft drauma sína rætast eftir að hafa komið á námskeið hjá okkur.“

Ólöf segir að námskeiðin henti öllum og þá sér í lagi þeim sem eru feimnir eða óframfærnir.

 „Þetta er svo sannarlega fyrir alla. Þeir sem eru feimnir græða jafnvel mest á svona námskeiði. Þeir komast stundum algjörlega út úr skelinni. En auðvitað mismikið. Allir græða samt á að koma. Bara skrefið að koma á námskeiðið er stórt fyrir suma, en óvissan er góður staður að vera á. Þar geta gerst kraftaverk,“ segir Ólöf, en hvað tekur við eftir svona námskeið. Hefur einhver af fyrrverandi nemendum Ólafar „meikað“ það?

 „Ég held ekki að margir hafi orðið að stórstjörnum. En margir náð langt á sínu sviði. Rikka matargæðingur kom á námskeið á sínum tíma, en hún hafði nú hálfpartinn slegið í gegn í sjónvarpinu þá. Hún sagði samt að spuninn hefði hjálpað henni heilmikið að slaka á fyrir framan myndavélina. Hrafnkell Sigurðsson myndlistarmaður kom til að verða öruggari í „performance“-hluta myndlistarinnar og svo má lengi telja. Þau eru nokkur sem eru að stíga sín fyrstu skref á leikarabrautinni. Nýskriðin úr leiklistarskóla. Þau eiga kannski eftir að verða stórstjörnur. Það er ekki svo langt síðan við byrjuðum,“ segir Ólöf hress í bragði.

Áhugasamir geta fundið frekari upplýsingar um námskeiðin á Facebook.

Ólöf segir að leiklistin gefi fólk kraft og lífsgleði.
Ólöf segir að leiklistin gefi fólk kraft og lífsgleði. mbl.is / Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál