„Emilý er á OnlyFans, ég er ekki á OnlyFans“

Kristrún Kolbrúnardóttir fer með aðalhlutverkið í myndinni Einskonar ást.
Kristrún Kolbrúnardóttir fer með aðalhlutverkið í myndinni Einskonar ást. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kristrún Kolbrúnardóttir fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Einskonar ást. Kristrún leikur unga konu í opnu sambandi sem starfar jafnframt á OnlyFans. Kristrún segir persónuna ekki geta verið ólíkari henni sjálfri en ákvað að taka áskoruninni þegar hún var nýútskrifuð úr Listaháskóla Íslands. 

„Frá því ég las handritið fyrst fannst mér þetta vera ástarsaga um nútímasambönd og óhefðbundin sambönd. Tvær aðalpersónurnar sem eru konur eru í fjarsambandi og að einhverju leyti í opnu sambandi. Mér finnst þetta vera ný og spennandi pæling,“ segir Kristrún. Persónan Emilý, sem Kristrún leikur, býr til efni fyrir OnlyFans-síðuna en þar er aðallega að finna klámefni. Myndin snertir þar með ýmiss málefni sem lítið hefur verið fjallað um í íslenskri kvikmyndagerð þar til nú. 

Kristrún segir það hafa verið áskorun að taka að sér …
Kristrún segir það hafa verið áskorun að taka að sér aðalhlutverk í Einskonar ást rétt eftir útskrift. mbl.is/Arnþór Birkisson

Er sjálf í lokuðu gagnkynhneigðu sambandi

Það kemur í ljós að Kristrún er á allt öðrum stað í lífinu en Emilý.

„Ég sjálf er ekki í opnu sambandi. Ég og kærastinn minn erum búin að vera saman í níu ár eða síðan ég var 18 ára. Emilý er á OnlyFans, ég er ekki á OnlyFans og sé ekki fram á að ég muni nokkurn tímann gera það. Það var rosalega margt sem ég hef ekki upplifað en það var það sem mér sem fannst spennandi,“ segir Kristrún sem segir fólk sem lifir lífinu eftir eigin höfði hugrakkt. 

Þrátt fyrir að Kristrún sé ekki með fordóma fyrir sambandsmynstri Emilý eða atvinnu hennar er efnið mögulega framandi einhverjum áhorfendum. Kristrún segist hafa hugsað sig vel um áður hún sagði já við hlutverkinu. „Þetta er mjög stórt hlutverk og ég var nýútskrifuð úr Listaháskólanum þegar Sigurður Anton leikstjóri bauð mér þetta. Ég hugsaði guð minn góður ég er nýútskrifuð, maður á ekki að gera eitthvað svona strax eftir útskrift. Það var aðallega það sem ég hafði áhyggjur af,“ segir Kristrún. 

Í myndinni eru meðal annars djarfar senur. „Ég fékk mjög góð ráð frá einum kennaranum mínum. Ég sagði: „Ég er ekki Emilý og ég sé ekki fyrir mér að gera svona efni.“ En kennarinn sagði þá við mig: „Kristrún nú ert þú að vera tepra, þetta er vinnan þín.“ Ég sagði já einmitt, þetta er vinnan mín.“

Kristrún bendir á að það sem gerist á OnlyFans sé íslenskur raunveruleiki. Edda Lovísa Björgvinsdóttir, fyrrverandi OnlyFans-stjarna, leikur í myndinni en hún hefur snúið sér að hefðbundinni leiklist núna.

„Ég var heppin að hafa hana. Hún veit hvernig þetta er, var svo yndisleg við mig, alltaf tilbúin að gefa mér ráð og lýsa fyrir mér hvernig heimurinn virkar. Líka einföldu hlutunum eins og hvernig síðan lítur út. Ég vissi það ekki. Ég vissi ekki hvernig appið leit út eða hvernig viðskiptahlutinn af þessu virkar,“ segir Kristrún sem segir eiginlega allt við OnlyFans hafa komið sér á óvart.

Leiklistin hefur alltaf átt hug Kolbrúnar en hún komst inn …
Leiklistin hefur alltaf átt hug Kolbrúnar en hún komst inn í Listháskóla Íslands í fyrstu tilraun. mbl.is/Arnþór Birkisson

Það komst ekkert annað að en leiklistin

Leiklistin hefur alltaf verið stór hluti af lífi Kristrúnar og kom snemma í ljós hvert hugur hennar stefndi. „Þegar ég var lítil neyddi ég mömmu mína að að horfa á það sem ég bjó til og var að sýna eitthvað. Svo voru það grunnskólaleikrit og menntaskólaleikrit. Það komst ekkert annað að,” segir Kristrún.

Kristrún fór á leikarabraut í Listaháskóla Íslands. „Ég var sjúklega heppin en ég komst inn í fyrstu tilraun þegar ég reyndi. Það var draumur sem rættist þegar ég komst inn. Ég var mjög heppin með bekk og kennara,“ segir Kristrún um skólann.

Hvernig var að fara út í atvinnulífið?

„Það hefur gengið vonum framar. Það var reyndar flókið af því að bekkurinn minn útskrifaðist í miðjum kórónuveirufaraldri. Það var ekki besti tíminn til að útskrifast en ég held að það hafi verið góð lexía. Það var aldrei neitt gefið. Á fyrstu sýninguna okkar á þriðja árinu máttu ekki nema sex koma á sýninguna. Það var ekki gefið að fólk kæmi á sýningarnar okkar og kæmi að sjá okkur,” segir Kristrún. Bekkurinn tók til eigin ráða í staðinn fyrir að gefast upp og tók upp sýningar. 

Kristrún hefur bæði fengið tækifæri við að vinna í leikhúsi og í kvikmyndaverkefnum síðan hún útskrifaðist. Hún segist læra mest á því að fylgjast með mótleikurum sínum. „Ég hef fengið að vinna með leikurum sem hafa unnið í 100 verkefnum og fólki sem er að stíga sín fyrstu skref og ég hef lært eitthvað af öllum,“ segir hún og segir mikilvægast að vera í núinu í vinnunni.

Töluverður tími er síðan að tökur fóru fram og er …
Töluverður tími er síðan að tökur fóru fram og er Kristrún spennt að sjá myndina. mbl.is/Arnþór Birkisson

Er slök fyrir frumsýningunni

Myndin kemur í kvikmyndahús þann 19. apríl og segist Kristrún vera spennt fyrir frumsýningunni en töluverður tími er liðinn síðan hennar vinnu lauk. Þannig er til dæmis leikhúsvinnan og kvikmyndagerðin ólík.

„Ég er spennt og kvíðin. Það er geggjað að þetta sé að koma og ógeðslega spennandi og verða aftur að þessum heimi sem var bara lífið mitt fyrir tveimur árum. En það er alltaf svo skrítið með kvikmyndaverkefni að maður gerir eitthvað og svo loksins þegar það kemur getur maður ekki gert neitt,” segir Kristrún og segir að þrátt fyrir að nokkur ár sé síðan vinna við hófst við myndina eigi myndin en erindi í samtímann. 

Ertu stressuð að sjá djörfu senurnar?

„Já, en mér finnst mikilvægt að íslensk kvikmyndagerð endurspegli raunveruleikann, og raunveruleikinn er sá að íslenskar konur hafa búið til efni fyrir OnlyFans og þeirra rödd þarf að heyrast. Mér finnst líka áhugavert þegar OnlyFans er til umræðu þá beinist öll athygli, sem oft er neikvæð, til þeirra kvenna, en engin áhersla er á neytendur efnisins sem eru oft íslenskir karlmenn. Þær senur sem mér þótti áhugaverðastar og mest krefjandi voru einmitt þær sem snérust um hvað neytendur báðu um að fá að sjá,“ segir Kristrún að lokum. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál