Öðlaðist nýja sýn á lífið

Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari ætlar nú að leiða fleiri um …
Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari ætlar nú að leiða fleiri um töfra fjalla og menningar á framandi slóðum. Árni Sæberg

Eftir að hafa upplifað töfra fjalla, fólks og menningar ætlar Vilborg Arna Gissurardóttir nú að gefa fleirum tækifæri á að njóta þess sama með stórkostlegum ævintýraferðum til Grænlands og Nepal.

„Nepal stendur mér mjög nærri eftir að hafa eytt dágóðum tíma þar á síðastliðnum árum. Ég er algjörlega heilluð af menningu, fólki og landslagi og það er engu líkt að ganga innan um hæstu fjöll heims og er óhætt er að segja að eftir kynni mín af þessari menningu hafi ég öðlast nýja sýn á lífið,“ segir Vilborg Arna sem ætlar nú að leyfa fleirum að njóta töfranna en Vilborg hefur tekið að sér tvær stórkostlegar ævintýraferðir til Grænlands og Nepal.

Siglt um Grænland.
Siglt um Grænland.

„Ég mun fara þessar tvær ferðir í mars á næsta ári, annars vegar upp í grunnbúðir Everest og á fjallið Island Peak sem er frábær áskorun fyrir þá sem vilja prófa að takast á við Himalaya-tind. Fjallið er ekki tæknilega erfitt en mikill ævintýraheimur og tindurinn er í 6.200 m hæð.“ Sjálf hefur Vilborg eins og þekkt er orðið gert tvær tilraunir til að komast upp á Everest. „Everest á orðið mjög stóran part í hjarta mér og það er ekkert ólíklegt að ég muni einhvern tímann reyna aftur við tindinn.“

Vilborg á Elbrus í Rússlandi, hæsta fjalli Evrópu.
Vilborg á Elbrus í Rússlandi, hæsta fjalli Evrópu. Mynd/Vilborg Arna

Ferðin til Grænlands er svo sannkallaður könnunarleiðangur í samvinnu við Norðursiglingu að sögn Vilborgar.

„Við siglum á skonnortunni Hildi um Scoresbysund og förum alla leið í Stauning-Alpana en afar fáir hafa nokkurn tíma komið þangað. Þar mun hópurinn fara í land, setja upp tjaldbúðir og ganga á fjöll. Þetta er eitthvað sem hefur ekki verið gert áður á þennan hátt og algjörlega einstakt tækifæri fyrir ævintýraþyrst útivistarfólk. Landslagið og útsýnið er stórkostlegt og þarna takast á miklar andstæður í náttúrunni. Fjöllin eru mikilfengleg og á sjónum dansa ísjakar. Þessi eina ferð verður á sérstöku kynningarverði,“ segir Vilborg.

Fjallasýn Himalaya er óneitanlega stórfengleg og segir Vilborg Arna Tomasz, …
Fjallasýn Himalaya er óneitanlega stórfengleg og segir Vilborg Arna Tomasz, sem var í sinni fyrstu ferð, hafa heillast algjörlega. Ljósmynd/Vilborg Arna

Ferðirnar henta öllum þeim sem eru í góðu formi og hafa stundað útivist. Gangan upp í grunnbúðirnar er ekki tæknileg að sögn Vilborgar heldur er gengið á stígum nánast alla leið en hæðin er áskorun. „Þeir sem skrá sig í ferðina á Island Peak munu fá undirbúningsnámskeið og læra og æfa alla þá þætti sem þarf að kunna skil á til þess að takast á við slíka áskorun.“

Fyrir Grænlandsferðina er mælt með að menn hafi reynslu af bakpokaferðum, séu líkamlega vel á sig komnir og til í að upplifa einstakt ævintýri.

Kostir gönguferðar eru margþættir að sögn Vilborgar og á hún þar við andlega þáttinn.

„Ég myndi segja að gönguferð komi til dæmis inn á marga þætti núvitundar og því afar heppilegar til þess að hreinsa hugann og komast í burtu frá daglegu áreiti. Svo hefur líka verið sýnt fram á að gönguferðir hafa góð áhrif á hjartað og heilsuna almennt. Það má líka segja að þetta sé frábært tækifæri til þess að stækka þægindahringinn og upplifa nýja hluti.“

Hvað almennan undirbúning varðar þá er mælt með því fólk sé í góðu líkamlegu formi en boðið verður uppá sérstaka fyrirlestra og kynningar um hvernig er best að bera sig að.

„Fyrir Island Peak munum við hafa sérstaka kennslu þar sem við förum yfir alla þætti sem þarf að kunna skil á.“

Vilborg mun halda sérstakan kynningarfund næstkomandi mánudag kl 20.00 í Ármúla 4&6 þar sem farið verður yfir fyrirkomulag, dagskrá og sýndar myndir frá fyrri ferðum.

Vilborg Arna og kærastinn hennar Tomasz Þór á toppi Island …
Vilborg Arna og kærastinn hennar Tomasz Þór á toppi Island Peak sem er 6.189 metrar á hæð. Ljósmynd/Vilborg Arna

En hvernig ætlar fjallagarpurinn að halda upp á jólin?

„Á aðfangadag verðum við Tommi maðurinn minn í mat hjá vinafólki okkar og börnunum þeirra. Þessi hefð skapaðist í fyrra og okkur þykir mjög vænt um hana. Hina dagana verðum við í mat hjá fjölskyldunum okkar og auðvitað eins og oft áður með annan fótinn á fjöllum. Við eigum lítinn bústað upp við hálendið í Húsafelli og gerum ráð fyrir að vera talsvert þar um hátíðirnar. Almennt borða ég nokkuð hollan mat en um hátíðirnar leyfi ég mér þann munað að borða lakkrístoppa í öll mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál