„Ég tek einn dag í einu og eina máltíð í einu“

Guðnýju Maríu Waage gengur vel í dag. Myndin í miðjunni …
Guðnýju Maríu Waage gengur vel í dag. Myndin í miðjunni og myndin lengst til hægri var tekin með fjögurra mánaða millibili, Guðný grenntist hratt á stuttum tíma.

Guðný María Waage ólst upp í Hafnarfirði. Æska hennar var ekki alltaf dans á rósum því hún var lögð í einelti frá 3. bekk og til 10. bekkjar vegna lesblindu. Guðný þráði að falla í hópinn en það gekk illa. Hlutirnir breyttust þó þegar hún kláraði gagnfræðiskóla en samt leið Guðnýju skringilega. 

„Ég fór í hönnunarnám eftir grunnskóla og þar fóru einkunnir að hækka en mér fannst samt ennþá eins og ég væri ekki hluti af samfélaginu, mér leið bara illa,“ útskýrir Guðný.

„Ég gerði margt til að reyna að fá viðurkenningu og eignast vini,“ segir Guðný sem brá á það ráð að hætta að borða í skólanum í von um að það myndi vekja áhuga fólks. Ég fékk mér bara orkudrykk á daginn og kvöldmat heima. Síðan fór boltinn að rúlla, fólk fór að taka eftir að ég væri að léttast og fór að hrósa mér, þá leið mér rosalega vel. Þá sökk ég dýpra í þetta og ég endaði á því að kasta upp mat,“ segir Guðný sem féll stundum í yfirlið vegna næringarskorts þegar sem mest gekk á. 

Hugðist lækna sig sjálf

„Þegar ég var sem léttust eða 52 kíló þá fattaði ég að það væri eitthvað að, þetta gengi ekki svona lengur. Ég fór á netið og sá hversu slæm ég var orðin en samt vildi ég engan lækni, ég ætlaði að læknast sjálf. Þetta var árið 2006.“ Guðnýju tókst ekki að lækna sig sjálf. Hún hafði enga stjórn á sér í kringum mat og kveðst hafa verið eins og „jó jó“. „Ég var „góð“ í nokkra mánuði en svo þegar eitthvað var að gerast, t.d. árshátíð, jól, afmæli...þá svelti ég mig.“

Guðný faldi sjúkdóminn fyrir fjölskyldu og vinum. „Ég fór alltaf á magadansæfingu eftir kvöldmat og kastaði upp þar rétt fyrir æfingu. Ef það var ekki æfing þá fór ég annaðhvort í ljós eða bað,“ segir Guðný sem náði að fela sjúkdóminn í sjö ár. Hún segist hafa falið sjúkdóminn vegna þess að hún upplifði skömm en einnig til að hlífa fjölskyldu sinni sem hafði gengið í gegnum mikla sorg nokkrum árum áður. „Ég átti frænku sem var með lystarstol eða anorexíu, hún féll fyrir eigin hendi árið 2002.“

„Ég fór svo í meðferð síðastliðna haust.“ Meðferðin var erfið og krefjandi að sögn Guðnýjar en hún kynntist þó frábæru fólki á meðan á meðferðinni stóð. „Ég kynntist þessum heimi betur inni á geðdeild Landsspítalans. Þar reyndi ég að mynda heilbrigt samband við mat, við stunduðum hugleiðslujóga, teiknuðum og leiruðum,“ segir Guðný aðspurð að því hvernig bataferlið hafi verið. „Svo voru haldnir fræðslufundir um sjúkdóminn og fjölskyldufundir með aðstandendum.“

Sjúkdómurinn er ekkert til að skammast sín fyrir

Guðnýju gengur ágætlega í dag að eigin sögn en vildi ganga enn betur. „Ég tek einn dag í einu og eina máltíð í einu, passa að hafa þrjá tíma á milli máltíða,“ segir Guðný sem vill benda fólki á að þessi sjúkdómur er ekkert til að skammast sín fyrir. „Ef þú sem ert að lesa þetta og kannast við þessar tilfinningar sem ég nefndi þá er mikilvægt að þú talir við þann sem þú treystir og segir frá því hvernig þér líður, þú verður að fá hjálp. Það er engin skömm að því.“

Guðnýju Maríu fannst hún vera of feit á þessum tíma …
Guðnýju Maríu fannst hún vera of feit á þessum tíma og passaði sig á að halda inni maganum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál