„Mér leið eins og ég væri skelfileg móðir“

Drífa Katrín Guðmundsdóttir með son sinn.
Drífa Katrín Guðmundsdóttir með son sinn.

„Mig hefur lengi langað að skrifa um þessa sjúkdóma sem meðgöngu og fæðingarþunglyndi eru en aldrei þorað, eða fundist vandræðalegt að ég, einhver ung mamma sé að skrifa um svona,“ segir Drífa Katrín Guðmundsdóttir á pistli á bloggsíðu sinni.

Drífa Katrín er búsett í Danmörku og er 22 ára gömul. Hún ákvað að láta vaða og segja frá þunglyndinu sem hefur verið að hrjá hana síðan í janúar 2013. Á bloggsíðu sinni sagði hún eftirfarandi: 

En ég semsagt hef verið með þunglyndi og kvíða síðan í janúar 2013, en ég náði með hjálp foreldra minna og geðdeildar að vinna í mínum málum og koma mér á gott ról sumarið 2013. Í desember 2013 komst ég að því að ég væri ófrísk sem var mjög óvænt. Ég átti erfitt með að átta mig almennilega á því hvað væri að gerast þrátt fyrir að láta alveg eins og þetta væri ekkert mál. En þarna byrjaði kvíðinn að stinga upp höfðinu aftur og þunglyndið fylgdi fljótt með. Þar sem ég mátti ekki taka venjulegu lyfin mín á meðgöngu hætti ég strax á þeim sem tók mikið á. Á þessum tíma bjó ég í Vestmannaeyjum og vann á vertíð, ekki beint draumaaðstæður til þess að koma með barn inn í.

Í febrúar fiskaðist illa og við Bjarki fengum ekki áframhaldandi vinnu en það átti ég sérstaklega erfitt með að díla við, að vera ófrísk og atvinnulaus. Þarna fór kvíðinn virkilega að láta finna fyrir sér og ég efaðist rosalega um sjálfa mig, hvað ég hefði að bjóða barni, kveið fyrir öllu og gat best lýst þessu sem „ég er með heimþrá, en ég veit ekki hvar ég á heima“.

Meðgangan hélt áfram og mér leið enn illa svo ég sagði lækninum mínum frá því að mér leið illa og ég fékk lyf sem þóttu örugg. Svo les ég um teymi sem Landspítalinn er með en það heitir FMB teymi og er fyrir foreldra sem eiga von á barni, eða eru með barn á fyrsta ári sem eru með alvarlegan geðrænan vanda og/eða áhyggjur af tengslamyndun við barnið. Sjálf finnst mér frekar erfitt að lesa þetta „alvarlegan geðrænan vanda“ en sannleikurinn er bara sá að ég fann sjálfa mig á þeim stað að þetta átti við mig. Ég bað lækninn minn um að hafa samband við teymið og sjá hvort ég gæti mögulega komist að, sem ég gat.

Baltasar fæddist 27. Júlí 2014, 16 merkur og 52 cm – fullkominn. Hann var yndislegur nýburi, borðaði vel, svaf mikið og leið greinilega bara mjög vel í heiminum. En á meðan var ég einhvernvegin frá – svaf mjög illa, höndlaði afar illa að vera innan um fólk og var langt niðri. Og því lengri tími sem leið því verr leið mér og á endanum var ég farin að hugsa um hvað ég vildi óska þess að ég gæti bara látið mig hverfa með litla með mér. Það var ekki það að ég vildi endilega deyja heldur bara fá frið því ég höndlaði enganvegin áreitið sem flestir taka lítið eftir. Þegar fólk kom í heimsókn lokaði ég mig oftast inni í herbergi og sagðist vera að leggja mig, en í sannleika sagt þá gat ég lítið sofið og hugsaði frekar allt fram og aftur.  Hafði miklar áhyggjur af því að Baltasar leiddist því hann grét ekkert eða í rauninni „gerði ekkert“ sem ég sé núna að er alveg óþarfi. Mér leið eins og ég væri skelfileg móðir og misheppnuð því ég var ekki hamingjusöm. Einnig var ég gjörsamlega obsessed á hreinlæti og þreif allt endalaust og fékk bókstaflega kvíðakast yfir minnsta kaffikorni sem greyið Bjarki hafði skilið eftir á eldhúsbekknum. En sem betur fer sagði ég mömmu frá því hvernig mér leið og hún hvatti mig til þess að seigja þeim í FMB teyminu frá því sem ég gerði og þau gripu strax inní og hjálpuðu mér að komast á betra ról.

Ég get sannarlega sagt að FMB teymið bjargaði mér algjörlega, en ég fór þangað vikulega með Bjarka og þar ræddum við tvö saman við fjölskylduþerapista sem hugsaði svo yndislega vel um okkur og ég fékk frábæran geðlækni sem ég fékk líka að hitta reglulega eins og ég þurfti. Þetta var mikil vinna en svo þess virði. Ég get held ég ekki lýst því hversu ánægð ég er með að þetta teymi sé til, og hversu vel allar yndislegu konurnar í teyminu hafa reynst okkur báðum á erfiðum tímum og góðum.

Ég naut þess ekki nóg að vera ófrísk, en ég fór ekki í óléttumyndatöku og átti tvær flíkur sem voru „óléttu” en þeim gekk ég i nánast alltaf! Ég hlakka mikið til að verða ófrísk aftur og næst þegar það verður mun ég reyna það sem ég get að njóta þess að finna líf vaxa inní mér og njóta þess að hlakka til. Og ef ég fer að finna fyrir einkennum sem ég kannast við ætla ég ekki að bíða, ég ætla að vera opin með hvernig mér líður.

Mig langar svo að segja við verðandi mæður og mæður sem eru kvíðnar eða þunglyndar að þetta er sjúkdómur, ekki val. Það langar enga konu að vera þunglynd og kvíðin á meðgöngu en því miður þá fáum við víst ekki að velja og þessi sjúkdómur getur skotið upp kollinum hjá hverjum sem er, sama hversu fullkomið maður heldur að líf annara sé. Það hafa allir sína djöfla að draga og fæstir sýna erfiðu tímana í lífi sínu. En það skiptir öllu máli að seigja frá, hvort sem það er ljósmóðurinni eða lækninum og ekki bíða bara eftir því að þetta lagist bara að sjálfu sér. Þetta er sjúkdómur sem oft versnar bara og er oft auðveldara að tækla því fyrr sem hægt er að grípa inní.

Í dag er ég enn kvíðin, en ég hef mun betri stjórn á því og get betur róað mig í aðstæðum sem ég áður gat ekki höndlað. Auðvitað koma dagar sem eru erfiðir en þá þarf ég oft að muna orðin „hvað er það versta sem gæti gerst” og „er það svo slæmt?”. Því oftast er það „versta” ekkert svo slæmt og aldrei svo slæmt að það verður ekki í lagi.

Það er eitthvað við það að vera ófrísk og ALLT þarf að vera fullkomið, maður vill hafa allt spikk og span alltaf, fötin hrein og straujuð þegar barnið kemur, brotin fullkomnlega saman í glænýja kommóðu sem maður valdi gaumgæfilega með bleyjuskiptingar í huga líka.

En núna veit ég að það þarf ekki allt að vera fullkomið og það er allt í lagi. Það er til hjálp fyrir konur sem líður illa og það er engin skömm í því að leita sér hjálparinnar! Enginn mun líta á þig sem minni móður þrátt fyrir það að þú hafir verið svo óheppin að fá sjúkdóm, enginn myndi líta á mann sem aumingja með lungnabólgu svo afhverju ætti maður að skammast sín fyrir þunglyndi?

Ég mun líklegast aldrei þora að birta þessa færslu…en ef svo ótrúlega fer þá vil ég bara þakka foreldrum mínum fyrir, FMB teyminu og sérstaklega Ingibjörgu Ásgeirsdóttur og Bjarka mínum, þau studdu mig í gegnum allt, alltaf.

HÉR er hægt að lesa blogg Drífu Katrínar.

Drífa Katrín með son sinni.
Drífa Katrín með son sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál