Dagurinn sem allt stoppaði

Hulda María Stefánsdóttir með dætur sínar tvær.
Hulda María Stefánsdóttir með dætur sínar tvær.

Hulda María Stefánsdóttir saksóknari hjá Ríkissaksóknara sagði frá því á Facebook-síðunni, Útmeð´a, sem er forvarnarverkefni gegn sjálfsvígum ungra karla, þegar hún missti kærastann sinn en hann framdi sjálfsvíg. Áfallið dundi yfir árið 2001.

Hér fyrir neðan er frásögn Huldu Maríu: 

„Dagurinn sem Bergur minn dó. Mér leið eins og ég stæði á þröskuldi að horfa á aðra lifa áfram. Mér var ýtt úr lífinu með þungu höggi. Mér fannst ég ekki ná andanum. Doði og vanmáttur heltóku mig. Ég fæ enn hryllings tilfinningu þegar ég minnist tryllingsins sem ég upplifði þennan dag og dagana sem fylgdu. Tryllingurinn sem maður finnur er ískaldur varanleikinn sem slær mann í andlitið.

Þegar þú áttar þig á því að manneskjan sem þú elskar mest af öllum í lífinu er farin og þú færð hana ekki aftur. Aldrei. Hugsanirnar sem þutu í gegnum hausinn á mér, og gera stundum enn, voru: Af hverju fór hann? Af hverju sá ég ekki hvað honum leið illa? Af hverju er ekki hægt að spóla til baka? Af hverju fattaði enginn að hann var svona lasinn? Af hverju sagði hann ekki neitt? Af hverju leitaði hann sér ekki hjálpar? Af hverju var ég ekki heima hjá honum? Af hverju kom ég ekki fyrr heim til hans þessa nótt? Af hverju núna? Af hverju? Svo var þögnin óbærileg. Öskrandi. Söknuðurinn nístandi.

Minningarnar báru mig í gegnum áfallið og gera enn þann dag í dag. 14 árum seinna. Á meðan ég var þakklát fyrir að hafa átt þessi 9 ár með ástinni minni þá var ég ósátt við lífið. Ósátt við að hafa misst Berg. Hann átti svo mikið eftir. Hann átti eftir að verða pabbi. Hann átti eftir að lifa.

Ef ég átti að nota eitt orð til að lýsa Bergi þá var orðið fullkominn það fyrsta þegar ég hugsaði um hann. Hann var fullkominn. Hann var kraftmikill íþróttamaður, afburða námsmaður, ljúfur í skapi, skemmtilegur, mein fyndinn, vinur vina sinna og traustur. Bergur var traustur. Og hann elskaði mig. Þann 16. júlí 2001 stoppaði lífið. Bergur svipti sig lífi í litlu íbúðinni okkar og ég kom að honum þegar ég kom heim af vakt snemma morguns. Fyrir mér var þetta fyrirvaralaust. Að hann gæti framið sjálfsvíg var mér svo fjarri að fyrst hélt ég að þetta væri einhver lélegur brandari hjá honum og það tók mig nokkur augnablik að skilja og meðtaka hvað var að gerast í alvöru.

Enn þann dag í dag skil ég ekki hvernig ég fattaði ekki að hann var veikur. Andleg veikindi sjást sjaldan á fólki og svo var ég blind á veikindin því ég elskaði hann og allt sem hann var. Þegar ég hugsa til baka þá sé ég að það voru breytingar sem áttu sér stað vorið áður, vísbendingar. Vísbendingar sem ég sá ekki því ég vissi ekki og ég þekkti ekki. Það eru aðeins 14 ár síðan og þá voru sjálfsvíg helst ekki rædd nema í hálfgerðu hljóði. Enn þann dag í dag á ég erfitt með að ræða þetta því ég upplifi oft fordóma frá fólki. Ég veit að þeir stafa oftast af vanþekkingu og oftar en ekki fattar fólk ekki einu sinni að það sem það er að segja um geðsjúka er fordómafullt. Samfélagið er svo litað og viðhorfin oft svo skökk. Fólk skilur ekki og þekkir ekki.

Þess vegna ákvað ég að verða við beiðni Melkorku Árnýjar Kvaran og skrifa þessi fáu orð um Berg fyrir átakið Útmeð‘a. Segja frá minni reynslu. Því ég skil og ég veit og ég get sagt ykkur frá. Ég vil ekki lengur taka þátt í þögninni. Bergur var ekki fullkominn. Hann var mér allt. Hann var yndislegur, en hann var ekki fullkominn. Það var sjúkdómurinn hans, þess vegna fannst honum hann þurfa að vera fullkominn og að annað kæmi ekki til greina. Lífið væri ekki þess virði nema í fullkomnun. Það er enginn fullkominn og hann þurfti ekki að vera fullkominn. Honum leið bara þannig. Honum leið illa og enginn vissi það fyrr en 16. júlí 2001. Þann dag stoppaði allt.

Þegar ég les blöðin í dag og ég sé flott ungt íþróttafólk koma fram og lýsa kvíðaröskunum og öðrum andlegum veikindum sem það er að kljást við þá fyllist ég stolti. Ég dáist að hugrekkinu sem þau sýna. Þá fer ég að hugsa og vildi óska að Bergur hefði getað lesið svona greinar. Að hann hefði séð að hann var ekki einn. Ég fyllist eldmóð og vill hjálpa. Vera hluti af batanum. Vonandi verð ég það núna með því að rjúfa þögnina. Það er erfitt, en þess virði. Bergur Kristinn Eðvarðsson fæddist 20. maí 1973 og dó á fallegum sumardegi 16. júlí 2001 alltof ungur. Hann var mér allt.
Hulda María Stefánsdóttir, aðstandandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál