Var í lélegu andlegu ástandi allan leikferilinn

Helgi Jónas Guðfinnsson.
Helgi Jónas Guðfinnsson. Morgunblaðið/Eggert

Körfuboltamaðurinn Helgi Jóna Guðfinnsson hefur ákveðið að rjúfa þögnina en í Facebook-færslu segir hann frá því hvernig kvíðinn náði tökum á honum. Hann segir sögu sína til að ítreka það að andlega hliðin skipti mjög miklu máli í öllum íþróttum. Hann segir að það hafi verið erfitt að deila þessari sögu því hann skammaðist sín.

Hérna kemur sú saga:

Þegar ég var rúmlega 6 ára þá sagði ég fyrst að ég ætlaði mér að vera atvinnumaður. Ég ætlaði að vera atvinnumaður í fótbolta. Það varð ekki alveg raunin en ég varð atvinnumaður í körfubolta.

Ég spilaði í Hollandi tímabilið 1998-1999 og gekk það mjög vel. Það gekk það vel að ég fékk samning hjá einu að besta liði í Belgíu. Liði sem hafði tapað í úrslitarimmunni árið áður.

Ég byrjaði ekki vel þa en á undirbúningstímabilinu meiddist ég og þurfti að fara í uppskurð. Þetta var ekki mjög alvarlegt og var ég fljótur að koma til baka.

Tímabilið gekk mjög vel eftir smá erfiðleika í byrjun og varð ég bæði bikar- og Belgíumeistari. Ég samdi við nýtt lið ásamt stórum hluta af liðinu sem ég var að spilaði með.

Ég gerði tveggja ára samning og allt gekk eins og í sögu.

Það breytist mjög fljótt!

Tímabilið 2000-2001 var martröð. Ég var ekki í náðinni hjá þjálfaranum. Fékk lítið eða ekkert að spila í sumum leikjum en svo 20+ mín í öðrum. Þetta var eitthvað sem ég var ekki vanur og byrjaði að taka mikinn toll af mér.

Mér leið gríðarlega illa og vanlíðan jókst eftir hvern einasta leik. Ég var farinn að íhuga að hætta en það gat ég ekki gert því ég gefst aldrei upp (þessi helv.... þrjóska).

Ég ákvað að harka þetta bara af mér. Ég vildi sýna þjálfaranum að ég væri hörkutól. Að hann gæti ekki bugað mig þó svo að ég væri löngu bugaður. Ég vildi bara ekki viðurkenna það.

Í lok janúar fór liðið á hausinn ég fékk ekki greidd laun mín síðustu 5 mánuðina af tímabilinu. Samningur sem ég hafði skrifað undir nokkrum mánuðum áður var gufaður upp.

Mín hjálp í þessu ferli var að fá mér bjór og léttvín til þess að deyfa tilfinningarnar. Ekki var það góð lausn því eftir tímabilið var ég á mjög slæmum stað.

Um sumarið átti landsliðið að spila á smáþjóðaleikunum ásamt að spila nokkra evrópuleiki. Ég var í engu standi til þess að spila þessa leiki. Ég samt gat ekki sagt NEI þar sem ég var samningslaus og ég þurfti að sýna mig þar sem tímabilið á undan hafið verið hrikalegt.

Þetta var ekki góð ákvörðun.

Sjálfstraustið var ekki neitt og með hverju skotinu sem ég klikkaði á sökk ég alltaf dýpra og dýpra. Ef mig minnir rétt þá fyrir síðasta leikinn á smáþjóðaleikunum á móti Kýpur þá veiktist ég og spilaði ekki leikinn. Þegar ég lít til baka var þetta örugglega bara kvíðakast og hræðsla. Ég var svo hræddur við að sökkva ennþá dýpra.

Ég kláraði landsliðsverkefnið og ákvað að semja við Grindavík og koma heim aftur. En það var eitthvað sem ég ætlaði aldrei að gera.

Ég var í engu ástandi til þess að spila körfubolta og gekk mér eftir því. Í desember meiddist ég en í byrjun janúar fékk ég svo tilboð frá Frakklandi en ég gat ekki farið þar sem ég var meiddur. Þetta var ekki að hjálpa ástandinu sem ég var kominn í.

Í febrúar náði ég botninum. Ég gat ekki meira. Ég gleymi þessari kvöldstund væntanlega aldrei. Ég átti að fara á foreldrafund þar sem ég var að kenna 5. bekk (eða 6. bekk) í Grunnskóla Grindavíkur. Ég keyrði hinsvegar bara framhjá skólanum og niður að höfn. Þar brotnaði ég algjörlega saman og þá kom upp hugsun sem hræddi mig mikið. Setning sem ég á aldrei eftir að gleyma:

„Á ég ekki bara að enda þetta núna”

En það fyrsta sem kom upp í hugann minn var að ég gæti ekki gert konunni minn þetta. Ég vildi ekki skijla hana eina eftir. Ég keyrði heim niðurbrotinn og örmagna. Ég þurfti hjálp.

Ég kláraði tímabilið og á ég Friðrik Ingi Rúnarssoni mikið að þakka. Hann er ekki bara frábær þjálfari heldur líka einstök persóna. Alltaf gat ég hringt í hann og spjallað. Það hjálpað mér mikið. Ég er ekki í efa um það að ég hafi verið einn erfiðasti leikmaður sem hann hefur þjálfað smile emoticon.

Eftir tímabilið þá var ég eiginlega búinn að taka þá ákvörðun um að hætta. Því ég gat ekki spilað körfubolta lengur. Ég HATAÐI íþróttina en í staðinn fyrir að hætta ákvað ég að tala við Bjarni Jóhannsson sem var þá að þjálfa meistaraflokk karla í fótbolta hérna í Grindavík.

Ég spurði hann hvort að ég mætti ekki á æfingar hjá honum. Ég varð að breyta um umhverfi ef ég ætlaði að halda áfram að spila körfu.

Hann tók vel í það örugglega bara út af því að við erum báðir frá Neskaupstað og þar að auki þjálfaði hann mig þegar ég var í 6. flokk smile emoticon.

Ég dróg mig út úr landsliðinu þar sem ég ætlaði að vera í fótbolta þetta sumar. Það voru margir hissa á því og fékk ég góðan skammt af gagnrýni en mér var skítsama því ég hataði körfubolta.

Sumarið gekk vel og ég komst í liðið og spilaði nokkra leiki í efstu deild. Afrek sem ég er bara nokkuð stoltur af.

Ég kom endurnærður inn í næsta tímabil. Ég var búinn að finna ánægjuna aftur. Eftir tímabilið var ég kosinn besti leikmaður deildarinnar og ég hélt að allt væri á réttri leið.

Ég ákvað að fara aftur í fótboltann beint eftir körfuna en núna ætlaði ég mér að komast strax í liðið og ég æfði eins og vitleysingur. Þá meina ég eins og vitleysingur. Ég æfði alltof mikið og að lokum gaf líkaminn sig.

Þetta hafði í för með sér að ég kom meiddur inn í tímabilið hjá körfunni og allt fór í sama farveginn. Ég reyndi að spila eitthvað en tímabilið 2003-2004 spilaði ég fimm leiki, tímabilið 2004-2005 spilaði ég sex leiki og 2005-2006 náði ég 14 leikjum.

Ég var bara skugginn af sjálfum mér. Ég var í rauninni hættur fyrir tímabilið 2003-2004. Ég reyndi bara að spila af því að ég var ungur og fólk ætlaðist til þess að ég myndi spila.

Ég var að gera þetta fyrir aðra, ekki sjálfan mig.

Það má því segja að ég hætti á þeim aldri sem flestir blómstra. Ég held að ég hafi aldrei náð sýna hvað bjó í mér. Hugurinn var aldrei á réttum stað.

Ástæðan fyrir að ég stíg loksins fram er sú að ég vill ekki að ungir íþróttamenn lendi í sama rugli og ég. Íþróttamenn sem stunda sína íþrótt í slæmu hugarástandi ná aldrei að sýna hvað í þeim býr. Það er bara ekki hægt.

Bataferlið hefur verið langt og það á ekki að taka íþróttamenn 10-15 ár að ná sér út úr þessum neikvæða vítahring. Þessi neikvæði vítahringur getur haft skelfilegar afleiðingar.

Ég get ekki sagt þetta nógu oft. Það má ekki GLEYMA andlegum undirbúning. Hann skiptir miklu meira máli heldur en sá líkamlegi. Ekki bara fyrir íþróttina heldur líka fyrir lífið sjálft.

Það þarf að kenna íþróttamönnum að takast á við neikvæðar og jákvæðar aðstæður.

Það þarf að kenna þeim að leyfa ekki tilfinningum og ytri aðstæðum að stjórna því hvernig þeim líður.

Það þarf að kenna þeim hvernig á að takast á við lífið þegar ferlinum líkur því það er líf eftir íþróttina.

Það er fullt af íþróttamönnum sem glíma við þunglyndi af einhverjum toga. Það er ekki hægt að líta framhjá þessu. Vítahringurinn eða ferlið getur byrjað á saklausan hátt og ef ekkert er gert verður þetta eins og snjóbolti sem rúllar niður brekku, það stækkar og stækkar.

Það þarft að stoppa ferlið STRAX!

Virðingarfyllst

Helgi Jónas Guðfinnsson

Mig hefur lengi langað að deila þessari sögu með ykkur en ég hef ekki þorað því. Ég hef ekki haft hugrekki til þess....

Posted by Helgi Guðfinnsson on 2. júlí 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál