Landsliðsmaður á götunni

Sigurþór Jónsson.
Sigurþór Jónsson.

Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur sem getur eyðilagt líf barna alkóhólista. Sigurþór Jónsson fékk djúp sár á sálina í æsku og villtist sjálfur inn í heim fíkniefnaneyslu. Eftir að hafa leitað bata víða fór hann í langtímameðferð í Hlaðgerðarkoti og hefur fundið gleðina í lífinu á ný.

„Mér leið aldrei vel í æsku og var ósáttur við að foreldrar mínir skildu. Ég eignaðist fósturföður sem var ekki góður við mig þó að hann gæfi mér efnislegar gjafir,“ segir Sigurþór. „Hann var alkóhólisti og beitti mig og móður mína andlegu og líkamlegu ofbeldi. Ég horfði því upp á ýmislegt sem lítið barn á ekki að sjá. Hann hafnaði mér líka og ég er að horfast í augu við það í dag en er búinn að fyrirgefa honum.“ Sigurþór segir fósturföður sinn ekki hafa verið slæman mann heldur hafi hann orðið snarruglaður undir áhrifum áfengis en hann er látinn. „Það er ekki gott fyrir barn að horfa upp á fósturföður sinn berja móður sína og vera líka barinn sjálfur. Hann kunni ekki mannleg samskipti og fór alltaf að rífast og öskra en gat aldrei rætt málin. Ég fékk enga hvatningu heldur var allt sem ég reyndi að standa fyrir rakkað niður. Mér var sagt að ég gæti ekki neitt og var alltaf skíthræddur og í leita að samþykki. Ég átti því mjög erfiða æsku og vímugjafarnir virtust vera sú lausn sem ég þurfti á að halda.“ Sigurþór er Hafnfirðingur en vegna erfiðleika sinna myndaði hann ekki félagsleg tengsl við jafnaldra sína í Hafnarfirði í æsku heldur fann sér vinahópa í Reykjavík. „Ég byrjaði að drekka 15 ára og prófaði fyrst amfetamín 17 ára. Fljótlega fór ég að taka langar helgar og það endaði með því að ég var sendur í meðferð 18 ára gamall. Það gekk ekki neitt því ég vissi ekkert hvað ég var að gera. Mamma er mjög meðvirk og var ánægð ef ég drakk bara bjór en notaði engin fíkniefni. Það gekk í smátíma því alkóhólisminn var ekki kominn á mjög alvarlegt stig á þeim tíma. Ýmsir brestir komu samt fram á fylleríum og aðrir hurfu. Feimnin dó en ég var mjög skapstyggur og þóttist vera mikill maður undir áhrifum. Ég hafði gaman af að slást og lenti stundum illa í því. Ég var kærður fyrir þátttöku í hópslagsmálum þar sem einn maður var nær látinn og eftir það hætti ég algjörlega að slást en ég var aðeins 19 ára gamall.“ Dópaði mig i drasl Upp úr tvítugu prófaði Sigurþór fyrst kókaín sem varð síðan hans helsti vímugjafi. „Mér fannst það gott, spennandi og kúl og það gerði eitthvað fyrir mig. Það fyllti um tíma ákveðið tómarúm innra með mér og ég ánetjaðist því hratt. Skammtarnir fóru að stækka og til að standa undir kostnaðinum fór ég að selja efni og umgangast mjög hættulega menn.“

Sigurþór stundaði golf frá unga aldri og var afreksmaður í íþróttinni.

„Golfið hafði verið mín lífsbjörg og ég var í unglingalandsliðinu og U21 landsliðinu og að æfa á fullu. Ég sprakk síðan alltaf á limminu þegar golftímabilinu lauk í lok sumars og fór í mikla neyslu. Ég var sendur út til pabba míns, sem bjó í Svíþjóð, til að reyna að stramma mig af og ég notaði engin fíkniefni hjá honum en hann var alkóhólisti líka og við duttum í það saman. Þegar ég kom heim var ég því ekki edrú en samt gerðist eitthvað þarna úti sem varð til þess að ég fékk ógeð á eiturlyfjum og notaði þau ekki í mörg ár. Ég fór að vinna mikið á ný og æfði golf eins og ég gat. Tveimur árum síðar fékk ég uppreisn æru þegar ég var valinn í karlalandsliðið. Ég fékk samning hjá Golfklúbbi Reykjavíkur og það fór ýmislegt að stíga mér til höfuðs en þetta var árið 2007. Ég sá fram á blómlegan fjárhag og hafði ekki áhyggjur af neinu, allt gekk mjög vel.“

Líkt og algengt er meðal alkóhólista reyndist velgengnin Sigurþóri erfið.

„Ég fór að nota aftur og fannst ég geta stjórnað neyslunni. Ég náði einhvern veginn að höndla lífið tímabundið og stjórna í stjórnleysinu. Árið 2010 veiktist pabbi mjög alvarlega og fékk bæði krabbamein og heilaæxli. Ég hætti að nota án þess að sækja mér nokkurn stuðning í sjö mánuði. Ég var ekki að höndla ástandið og datt aftur í það en pabbi dó síðan mánuði síðar. Þetta var rosalega erfitt en ég náði að halda jarðarförina þó að ég væri í bullandi neyslu. Mér tæmdist arfur og fékk fullt af peningum en ég réði ekki við neitt. Sársaukinn yfir að hafa misst pabba virtist óyfirstíganlegur og það eina sem ég kunni að gera var að dópa mig í drasl. Frá því að vera í frábærri vinnu, sem viðskiptastjóri með góð laun og lifa góðu lífi, fór ég á götuna. Ég naut allra hlunninda í vinnunni, var með góða bónusa og ferðaðist út um allan heim. Ég bjó í flottri íbúð í Garðabænum og gat ekki kvartað yfir neinu. Ég átti nóg af peningum og allt leit vel út á yfirborðinu. Undir niðri var ég í klessu og var komin á götuna nokkrum mánuðum eftir andlát föður míns. Ég drakk mikið, reykti gras og tók inn kókaín og róandi lyf á hverjum degi. Þetta gekk í þrjá mánuði en þá var allt farið.“

Vorið 2011 fór Sigurþór aftur í meðferð.

„Ég fór í dagmeðferð á geðdeild Landspítalans því ég vildi stjórna meðferðinni sjálfur í stað þess að vera lagður inn. Mér tókst ekki að segja skilið við neyslufélagana og datt í það í miðri meðferðinni. Ég fór strax á sama stað aftur í neyslunni og fékk að gista nótt og nótt hér og þar og vera hjá mömmu öðru hverju ef ég var rólegur. Um haustið 2011 komst ég á Staðarfell og síðan á áfangaheimilið Vin. Ég hélt upp á þrítugsafmælið mitt og fékk góða vinnu og allt virtist á réttri leið þegar ég féll aftur. Ég höndlaði ekki föðurmissinn og hvernig mér fannst ég hafa klúðrað lífinu. Ég var ekkert að spila golf og sá eftir tækifærunum sem ég hafði sóað þar. Ég gat ekki horfst í augu við stöðu mína og datt því bara í það. Ég var að nota í vinnunni og klúðraði henni.“

Sigurþór var kominn í þá stöðu að geta hvorki verið undir áhrifum né edrú en hélt áfram að leita lausna í eigin mætti við ástandinu.

„Vorið 2012 fór ég á Vog, Staðarfell og Vin ákveðinn í að standa mig. Mér tókst að halda mér edrú í sex mánuði og var að vinna markvisst í sjálfum mér. Það eina sem ég gerði rangt var að halda sambandi við menn sem voru að selja eiturlyf. Mér fannst það í lagi vegna þess að ég var ekki að nota sjálfur en ég var fastur í dópmenningunni. Á þeim 14 mánuðum sem ég bjó á Vin datt ég endurtekið í það eftir nokkurra mánaða edrúmennsku og fór þess á milli í afeitrun og meðferð. Þetta endaði með því að mér var hent út af Vin vorið 2013 og þá hófst síðasta neyslutímabilið sem stóð fram í ágúst. Ég var á götunni, ráfaði um bæinn með tösku og kom mér í miklar skuldir. Ég var ekkert að vinna og þáði bara félagslega aðstoð. Mánudagsmorguninn 5. ágúst 2013 hugsaði ég með mér að annað hvort færi ég í gröfina eða gerði eitthvað í mínum málum. Tveimur dögum síðar var ég kominn í Hlaðgerðarkot en móðir mín hafði pantað fyrir mig pláss.“

Sigurþór segir að það að verða heimilislaus hafi e.t.v. verið það besta sem fyrir hann gat komið.

„Það varð til þess að mér tókst að fara í Hlaðgerðarkot og fá nýtt sjónarhorn á lífið. Þar var friður og ró og mér auðnaðist að opna eyrun og hlusta. Þarna var eitthvað nýtt og mér leið vel. Ég gat búið mér til mitt eigið litla heimili og fékk starf sem ég var ábyrgur fyrir sem heimilismaður. Tíminn í Hlaðgerðarkoti var mér gífurlega dýrmætur og mikilvæg undirstaða þess að ég er edrú í dag.“

Flestir, sem sækja meðferð í Hlaðgerðarkoti, dvelja þar í sex vikur en Sigurþór var í kotinu í sex mánuði. „Ég þurfti að kúpla mig frá öllu og láta taka mig úr umferð,“ segir hann.

„Þá var það mér til happs að vera heimilislaus því ég gat ekki farið neitt. Það komu þeir tímar í meðferðinni að mig langaði til að taka stjórnina og fara en ég hafði engan samastað. Ég varð að gjöra svo vel að vera í meðferðinni, hlusta á það sem ráðgjafinn sagði mér og taka leiðbeiningum. Það vandist með tímanum og ég sætti mig betur og betur við þetta. Eftir meðferðina fór ég á áfangaheimilið Sporið, sem Samhjálp rekur, og var þar í níu mánuði.“

Andlega leiðin var vendipunktur Þótt Sigurþór sé búinn að vera edrú í tæp tvö ár finnst honum edrúmennska sín rétt vera að byrja.

„Ég hef tekið hana skref fyrir skref og er núna að byrja að búa með kærustunni minni sem líka er edrú. Ég er forvitinn að eðlisfari og mig langaði að vita hvað þeir, sem ég hitti í Hlaðgerðarkoti og voru búnir að vera edrú í einhvern tíma, gerðu öðruvísi en ég. Þeir höfðu allir sömu sögu að segja, sem gerði það að verkum að ég fór að taka æðri mátt inn í lífið og fara andlegu leiðina í edrúgöngunni. Mér finnst það vera vendipunktur í edrúmennskunni minni því ég hafði aldrei gert það áður. Ég fór alla leið í því eins og öðru og er frelsaður í Jesú Kristi í dag. Edrúmennskan hefur ekki bara verið dans á rósum því ég hef þurft að leysa ýmis erfið mál úr fortíðinni.“

Þegar Sigurþór fór í Hlaðgerðarkot hafði hann nánast ekkert spilað golf í tvö ár en hann var atvinnumaður og landsliðsmaður í golfi og hafði unnið ýmsa Íslandsmeistaratitla þegar Bakkus tók öll völd í lífi hans.

„Ég kom úr meðferðinni í febrúar og byrjaði að æfa í rólegheitunum. Um sumarið fór ég á fullt í mótaröðina en fannst það erfitt því sjálfstraustið var lítið. Ég þjáðist af skömm og var feiminn við strákana. Ég dæmdi mig hart og fannst ég ekki vera velkominn þótt ég væri boðinn velkominn. Ég fór að upplifa umhverfið öðruvísi því ég var með slóða fullan af prinsippum sem ég var búinn að brjóta og brenna brýr að baki mér. Ég mátti ekki keppa fyrir Keili, sem er gamli klúbburinn minn, í eitt ár. Núna er ég kominn í afrekshóp Keilis og er að æfa markvisst með þjálfara. Ég er með það markmið að fara að keppa aftur á erlendri grundu og reyna aftur við Evróputúrinn. Ég ætla í skóla, en ég var byrjaður í PGA skólanum að læra að verða golfkennari þegar ég datt út vegna neyslu. Það er því fullt af hlutum sem eru að koma til baka með edrúmennskunni. Ég er duglegur að tékka mig inn og skila inn skýrslum til bakhjarlanna og þjálfarans um golfið hjá mér. Síðan er ég kominn í alveg frábæra vinnu og rek heimili og á yndislega kærustu. Hún breytti lífi mínu líka til hins betra og ég er gífurlega þakklátur. Fjölskyldutengslin eru alltaf að verða betri en það tekur tíma að byggja upp traustið á ný. Það er enginn búinn að loka á mig og mamma og systir mín eru í sjöunda himni yfir að hafa fengið strákinn sinn til baka.“ Framtíðin er björt Sigurþór er mjög virkur í 12 spora starfi og sækir fasta fundi. „Ég er í þjónustu og fer með fundi á meðferðarstofnanir. Ég er að vinna á fullu í edrúmennskunni og þess vegna er ég edrú. Ég á mér trúnaðarmann og er trúnaðarmaður fyrir aðra og það er líka mjög mikilvægt. Ég fer yfir daginn á kvöldin og hafi ég gert eitthvað á hlut annarra reyni ég að lagfæra það. Ég reyni alltaf að finna lausnir en ekki búa til vandamál.“

Trúin er einn af hornsteinunum í bata Sigurþórs.

„Ég trúi því af öllu hjarta að Jesús hafi frelsað mig. Guð starfar þannig í mér að þegar ég er kærleiksríkur og góður hef ég hleypt honum inn í líf mitt þann daginn. Ég hef átt daga þar sem ég geri það ekki og það eru slæmir dagar því ég er að reyna að stjórna öllu sjálfur. Munurinn er eins og svart og hvítt. Ég hef öðlast andlegt líf og legg daginn í hendurnar á mínum æðri mætti og það finnst á viðmóti mínu.“

Nú stendur fyrir dyrum landssöfnun fyrir Hlaðgerðarkot og Sigurþóri finnst mikilvægt að Hlaðgerðarkot haldi áfram störfum.

„Það eru fá málefni jafn mikilvæg og Hlaðgerðarkot. Sú meðferð sem þar er í boði virkaði fyrir mig en ég var glatað eintak sem átti ekki séns. Hlaðgerðarkot bjargaði lífi mínu og ég á starfsfólkinu þar og Samhjálp líf mitt að launa. Ég fékk sénsinn þar og fann tilgang með lífi mínu. Ég fékk að finna til og taka á mínum vandamálum í rólegheitum. Hlaðgerðarkot er elsta meðferðarheimili Íslands og þar kynntist ég mörgum af þeim sem eru bestu vinir mínir í dag. Það er meiriháttar að sjá að þeir eru edrú og við styðjum hvert annað og það er frábært að fá að vera partur af þessu kraftaverki.“

Sigurþóri hefur tekist að skipta alfarið um viðhorf og einfalda sýn sína á lífið.

„Framtíðin er björt og mikilvægasta markmið mitt er að sofna edrú og vakna edrú á morgun. Ef svo er þá gengur allt annað upp.“

Viðtalið við Sigurþór birtist í blaði Samhjálpar

Sigurþór Jónsson.
Sigurþór Jónsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál