Ekki orðin nein meinlætamanneskja

Hér er Ragga nýbúin að reima á sig hlaupaskóna og …
Hér er Ragga nýbúin að reima á sig hlaupaskóna og í þann mund að þeysast um götur Kaupmannahafnar. Ljósmyndari Ragga Eiríks

Á haustin fer fólk gjarnan að huga að heilsunni, enda margir búnir að sporðrenna fjöldanum öllum af grilluðum pylsum og hamborgurum yfir sumarið. Svo ekki sé minnst á allan ísinn og bjórinn. Smartland fór því á stúfana og ákvað að kanna hvað landinn væri að gera til þess að halda sér í fínu formi, svona í tilefni af nýkomnu hausti.

Hjúkrunarfræðingurinn og blaðamaðurinn Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir, eða Ragga Eiríks eins og hún er oftast kölluð, sat fyrir svörum Smartlands. Þrátt fyrir að Ragga sé stundum sjúklega löt, líkt og hún segir sjálf, stundar hún fjölbreytta hreyfingu þar sem megináherslan er lögð á skemmtilegheit.

Hvað gerir þú til að halda þér í formi?

„Ég reyni nú yfirleitt að gera sem allra minnst. Eftir áramótin og fram á vor var ég reyndar óvenjudugleg í einkaþjálfun hjá yndinu honum Ingimundi í World Class á Nesinu, en sumarið hefur verið rólegt hjá mér. Ég er búin að missa svo mörg kíló síðan ég fór í magabandsaðgerð í lok janúar að öll hreyfing í daglega lífinu er orðin auðveldari en áður. Núna geng ég miklu meira og er virkari, og ég finn að það skiptir máli.“

Færð þú spark í rassinn á haustin og drífur þig í leikfimi?

„Oft hef ég gert það, að minnsta kosti haft mikil plön um að drífa mig nú í gang. Stundum gengur það vel og stundum verr. Ég er alls ekki ónæm fyrir auglýsingum líkamsræktarstöðvanna.“

Hvaða leikfimi stundar þú?

„Mér finnst langskemmtilegast að dansa – til dæmis magadans, bollywood-dansa og Beyoncé-dansa í Kramhúsinu. Svo elska ég sjósund, en ég byrjaði að stunda það fyrir ári. Stundum tek ég hlaupaskorpur en fyrir um fjórum árum komst ég að því að ég gæti hlaupið. Í sirka 30 ár þar á undan hélt ég að ég gæti það ekki. Svo fæ ég óendanlega mikið kikk út úr lyftingum undir vökulu auga einkaþjálfara.“

Hvað færðu út úr hreyfingu?

„Tilfinningin eftir á er stórkostleg og ef maður dröslast í gegnum fyrstu vikurnar er frábært að finna til dæmis mun á þoli. Ég sef líka miklu betur ef ég hreyfi mig reglulega.“

Hugsar þú vel um mataræðið?

„Eftir að ég fékk magabandið þurfti ég að læra að umgangast mat á alveg nýjan hátt. Ég get borðað nánast hvað sem er, en alltaf í mjög litlum skömmtum. Þannig held ég áfram að léttast hægt og rólega án þess að þurfa að vera með mat á heilanum. Þeir sem eru með magaband þurfa til dæmis að passa upp á að fá nægilegt prótín, því skammtarnir eru svo litlir. Ég finn samt miklu betur núna hvernig mismunandi matur fer í mig og reyni að borða það sem gerir mér gott.“

Hvað borðar þú til að láta þér líða betur?

„Ég er búin að átta mig á að kjúklingur, fiskur og grænmeti er það sem fer best í mig. Avókadó er í sérstöku uppáhaldi, en svo leyfi ég mér líka ýmislegt sem er minna hollt, bara í litlum skömmtum.“

Ertu með einhverja ósiði sem þú þarft að venja þig af?

„Já ég er sjúklega löt stundum og áður en ég fékk magabandið borðaði ég einfaldlega allt of mikið. Mér finnst samt mikilvægt að leyfa mér það sem gerir mig hamingjusama og er fjarri því að vera orðin einhver meinlætamanneskja þó að ég sé að mjókka.“

Hvað kemur þér í gott skap?

„Dans, skemmtileg tónlist, logn, matarboð, börnin mín og barnabörnin, matarboð og yfirdrifinn glamúr í daglega lífinu.“

Ragga tók þátt í miðnæturhlaupi Zusuki og var líka svona …
Ragga tók þátt í miðnæturhlaupi Zusuki og var líka svona hoppandi kát. Með henni á mynd eru Sigurlaug Arnardóttir og Lóa Pind. Ljósmyndari / Ragga Eiríks
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál