„Er raunhæft fyrir reykingafólk að hætta reykja?

Júlía Magnúsdóttir sendi nýverið frá sér uppskriftabók, stútfulla af girnilegum …
Júlía Magnúsdóttir sendi nýverið frá sér uppskriftabók, stútfulla af girnilegum uppskriftum. Ljósmyndari / Tinna Björt

Heilsumarkþjálfinn Júlía Magnúsdóttir sendi á dögunum frá sér bókina Lifðu til fulls – yfir 100 ómóstæðilegar og einfaldar uppskriftir fyrir orku og ljóma, en bókin hefur að geyma fjöldann allan af girnilegum uppskriftum sem eiga það sameiginlegt að innihalda engan sykur. Bókin virðist fara vel í landann, en hún skaust fljótlega í fyrsta sæti metsölulista Eymundson.

Júlía sat fyrir svörum Smartlands, og fræddi okkur nánar um sykurlausan lífstíl.

Þú segist sjálf hafa verið sykurfíkill, var erfitt að taka út sykurinn?

„Fyrstu vikurnar voru vissulega erfiðar, en að stórum hluta til vegna þess að ég tók út það sem ég var vön að fá mér án þess að koma með eitthvað inn í staðinn. Ég var vön að fá mér súkkulaðistykki, snúð með kókómjólk, ís og sykraða jógúrt og margt fleira. Ef þú tekur eitthvað út úr mataræðinu, en kemur ekki með einhverjar staðgenglavörur í staðinn þá auðvitað líður manni eins og maður sé að neita sér um hluti. Það er aldrei góð tilfinning og hætt við að maður gefist upp.“

„Ég fann einnig óvissu með hvaða náttúrulegu sætugjafa ég ætti að velja því á einum stað las ég til dæmis að agave væri besti sætugjafinn, en á öðrum stað fékk maður svo upplýsingar um eitthvað allt annað, og það hjálpaði alls ekki við að gera sykurleysið einfalt.“

„Ég fór því að kafa dýpra í vísindi næringarefna og mataræðis og fann mér á endanum sykurlausa staðgengla fyrir allt sem ég hafði unun af að borða. Ég fikraði mig svo áfram og fór að útbúa sykurlaust Snickers, karamelluköku, „nútella“-pönnukökur, kakó, jarðaberjajógúrt og meira segja ís, og allt án viðbætts sykurs.“

Er raunhæft fyrir sælkera og nammigrísi að sleppa sykri?

„Er raunhæft fyrir reykingafólk að hætta reykja? Ég segi að sælkerar geti alveg tvímælalaust sleppt sykri. Þá sérstaklega í dag með þeirri auknu meðvitund sem þjóðfélagið hefur um skaðsemi  sykurneyslu, og aukna framleiðslu á sykurlausum vörum. Nú eru svo miklu fleiri kostir í boði af náttúrulegum sætugjöfum, og tilbúnum bitum og réttum sem fást í matvöruverslunum.“

„Þegar ég hóf mitt heilsuferðalag vorum við ekki komin eins langt á veg og lítil þekking á þeim áhættum sem umframmagn sykurs (frúktósa) í líkamanum veldur. Í dag er þetta af mörgum talin vera ein helsta orsök vanlíðunar, ofþyngdar, sykursýki 2, þreytu, streitu, húðvandamála og fleiri kvilla.“

Hvaða mat munar mestu um að sleppa, ætli fólk að vera í jafnvægi?

„Við þurfum öll einhverja náttúrulega sætu, það er bara þannig. Hver og einn ætti tvímælalaust að finna það jafnvægi sem honum hentar og þegar við ætlum að fá okkar eitthvað sætt að skoða umbúðir og velja sykurlausan staðgengil eða enn betra, gera uppskriftir af því. Það gæti trúlega komið á óvart hvað sykurlaust bragðast betur en við höldum. Mér finnst þetta snúast líka mikið um vana.“

En ef við eigum að nefna eitthvað ákveðið sem ég mæli eindregið með að sleppa, fyrir utan gos og sælgæti, þá er almennur bakarísmatur til dæmis mjög ofarlega á lista. Sykurmagnið í snúðum, kleinuhringjum, vínarbrauðum og brauðmeti er gríðarlegt.“

Sykurlaus og hollur matur getur verið bæði sérlega góður og …
Sykurlaus og hollur matur getur verið bæði sérlega góður og girnilegur. Ljósmyndari / Tinna Björt

Fólk veit að það ætti að halda sig frá sælgæti, gosdrykkjum og sykruðu morgunkorni. Hvar leynist sykur þar sem fólk býst ekki við honum?

„Mér finnst ég sjá sykur mjög mikið í próteinsjeikum og próteinstykkjum. Það er rosalega oft sem við borðum góðan morgunmat og jafnvel salat í hádeginu með góðu próteini en síðan leynist svo oft sykur í millimálinu eins og próteinsjeikum, orkudrykkjum og stykkjum. Margir þeirra fullir af sykri og agave, sem er enn hærri í frúktósa en hvítur sykur.“

„Í almennum mat þá gæti sykurinn helst leynst í salatdressingum, sósum eins og tómatsósu, kokteilsósu, majónesi. Þá er kjörið að útbúa þína eigin sósu eða kaupa sykurlausa út úr búð. Sykur leynist líka í sushi, í kryddlegi og í kjúklingabringum. Þá er kjörið að velja hreinni dýraafurðir, ef þeirra er neytt.“

Hvað er hægt að borða til að slá á sætuþörfina?

„Mér finnst rosalega mikilvægt að borða fæðu sem hjálpar að temja sykurlöngun. Sykurlöngun á gjarnan rót sína að rekja til ójafnvægis á ákveðnum næringarefnum, eins og magnesíum, krómi eða járni. Einnig getur skortur á fitu eða of mikið/of lítið af próteini orsakað sætindaþörfina, en einnig lífsstílsatriði eins og of lítill svefn eða hreyfing og mikið stress.“

„Fæða sem er rík af magnesíum er tilvalin, eins og klettasalat, dökkt hrátt kakóduft eða kakónibbur og lárperur. Epli eru rík af krómíum sem dæmi. Allt grænt, eins og grænkál, er æðislegt vegna þess að beiska bragðið hjálpar til við að venja bragðlauka af of mikilli sætu og gera líkamann basískari. Því er um að gera að setja handfylli af grænkáli, jafnvel lárperu og lífrænt kakóduft út í „búst“ til að byrja daginn og bæta við grænu salati á matardiskinn.“

Hvað ætti fólk, sem er að stíga sín fyrstu skref í sykurleysi, að gera?

„Lykilatriði er að skoða hvenær yfir daginn þú ert helst að sækjast í sykur og finna staðgengil á þeim tíma. Ef þú elskar að fá þér próteinstykki seinni hluta dags, af hverju ekki að gera chia-próteinstöng, litlar próteinsúkkulaðikúlur eða heimagert jarðarberjajógúrt?“ 

„Góð byrjun á deginum er líka alltaf lykilatriði og að velja næringarríka og dúndurholla máltíð í byrjun dagsins hjálpar að halda blóðsykri í jafnvægi og temja hungur sem og sykurlöngun.“

„Ég mæli með að byrja smátt og bæta til dæmis við einni máltíð á dag sem er þá sérstaklega næringarrík og sykurlaus.“

Hver er ávinningurinn af sykurlausum lífsstíl?

„Þeir geta verið eins margir og við erum mismunandi. Meiri orka, betri vellíðan líkamleg sem og andleg, aukið þrek og þol. Bættur svefn, minni verkir og hjá mörgum er það líka minna mittismál þar sem aukakílóin flýja gjarnan. Fallegri húð, bætt melting og meiri ljómi. Meiri einbeiting og jafnvægi sem skilar sér í betri stjórn á streitu. Þetta eru aðeins nokkrir ávinningar.“

Júlía lumar að sjálfsögðu á hellingi af girnilegum uppskriftum, og deildi einni með lesendum Smartlands.

„Þessi uppskrift er úr bókinni Lifðu til fulls – yfir 100 ómóstæðilegar og einfaldar uppskriftir fyrir orku og ljóma. Ég þarf vart að taka það fram að auðvitað eru allar uppskriftirnar úr bókinni lausar við hvítan sykur og ætti bókin að geta hjálpað öllum sem hafa áhuga á að minnka sykurinn, að finna eitthvað við sitt hæfi.“

Sítrónu-ostakaka sem slær á sykurlöngun

Mágkona mín og ljósmyndari bókarinnar segist ekki hugsa lengur um súkkulaði þar sem þessi kaka hefur algjörlega tekið við keflinu. Kakan er rík af magnesíum, en skortur á magnesíum er gjarnan ein orsök sykurlöngunar. Ef þið notið hráan kókospálmanektar sem sætugjafa er hann einstaklega lágur í frúktósa og því góður fyrir heilsuna, nú fæst hann í mörgum verslunum.

Botn:

  • 1 bolli hráar möndlur (lagðar í bleyti í 2 klst. eða yfir nótt)
  • 1 bolli pekanhnetur
  • ¾ bolli mjúkar döðlur (fjarlægið steininn)
  • ¼ bolli kókosmjöl
  • 1 tsk. vanilludropar
  • salt á hnífsoddi

Sítrónufylling:

  • 3 bollar hráar kasjúhnetur (lagðar í bleyti í 8 klst eða yfir nótt)
  • 1 bolli nýkreistur sítrónusafi (u.þ.b. 3-4 sítrónur)
  • ½ bolli hunang/hlynsíróp/hrár kókospálmanektar
  • 2 dropar stevía frá via health
  • 1 tsk. vanilludropar
  • ½ tsk. sjávarsalt eða himalayan-salt
  • ¾ bolli kókosolía í fljótandi formi

 1) Setjið öll innihaldsefni í matvinnsluvél og hrærið vel. Þrýstið blöndunni niður í 23 cm smelluform, leggið lok eða plastfilmu yfir og látið í kæli eða frysti á meðan þið útbúið ostafyllingu.

2) Látið allt nema kókosolíu í blandara eða matvinnsluvél og hrærið þar til áferðin er silkimjúk. Endið á að setja kókosolíu út í og blanda. Hellið fyllingunni á botninn og látið hana stífna í frysti í 5 klst. eða yfir nótt. Leyfið kökunni að standa við stofuhita í 2-3 tíma áður en hún er borin fram. Kökuna má skreyta með hindberjum og lífrænu dökku súkkulaði bræddu í vatnsbaði fyrir fínlegheit.

Sælkerar geta fundið góðgæti við sitt hæfi, þótt sykurlaust sé.
Sælkerar geta fundið góðgæti við sitt hæfi, þótt sykurlaust sé. Ljósmyndari / Tinna Björt
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál