Valdimar léttist um 40 kg

Valdimar Guðmundsson er grjótharður í ræktinni.
Valdimar Guðmundsson er grjótharður í ræktinni. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Valdimar Guðmundsson söngvari vaknaði við vondan draum og ákvað að taka ábyrgð á eigin heilsu. Rúmu ári síðar hafa lífsgæðin aukist til muna og hann losað sig við heil fjörutíu kíló með skynsemina að vopni. Í viðtali við Heilsublað Morgunblaðsins sagði hann frá nýjum áskorunum og hvernig honum hefði tekist þetta allt saman. 

„Þetta var eina nóttina einhvern tímann seinni hluta síðasta árs. Ég var með væga lungnabólgu og átti mjög erfitt með andardrátt á meðan ég svaf. Mig dreymdi alla nóttina að ég væri að kafna og vaknaði sveittur og lúinn og hugsaði með mér að þetta hefði getað endað illa. Þetta var botninn hjá mér og sparkið í rassinn sem ég þurfti til að koma mér af stað,“ segir Valdimar um augnablikið þegar hann ákvað að taka heilsuna í sínar hendur.

Nú, rúmu ári síðar, líður Valdimari mjög vel, hann hreyfir sig reglulega, passar upp á mataræði sitt og lifir almennt nokkuð reglusömu lífi. Hann viðurkennir að þetta bætta líkamsástand hafi gríðarlega góð áhrif á andlegu hliðina sömuleiðis.

Galdurinn ekki að banna allt

Spurður um fyrstu skrefin í átt að auknum lífsgæðum segir Valdimar þau vissulega hafa verið erfið en einnig góð. „Ég vissi að ég var kominn í rétta hugarástandið til að takast á við þetta og horfði því bara björtum augum fram veginn.“ Hvernig hefur ferðalagið gengið síðan? „Það hefur gengið mjög vel. Ég geri þetta bara á mínum hraða og passa að fara ekki í neinar öfgar með neitt, bara skref fyrir skref. Ég held að ef maður fari of hratt af stað og banni sér einhvern veginn allt sem hugsanlega getur talist óhollt endist maður einfaldlega ekki. Ég hef verið að temja mér almenna skynsemi þegar kemur að þessum málum og það hefur virkað fyrir mig.“

Umvafinn fagfólki

Valdimar hefur fengið dygga aðstoð fagfólks undanfarið ár, en Birna Markúsdóttir hefur séð um þjálfun hans ásamt því að búa hann undir maraþonið á síðasta ári, sem hún hljóp svo einnig með honum. „Við æfum líka reglulega saman í World Class og svo hjálpar hún mér líka með ýmsum ráðum varðandi mataræðið og annað slíkt. Tómas Guðbjartsson, eða „LæknaTómas“ eins og hann er stundum kallaður, hefur einnig reynst mér ótrúlega vel og séð til þess að ég fari í öll réttu prófin varðandi líkamlegt ástand og þess háttar. Svo hefur hann meira að segja farið með mér í fjallgöngur og svo auðvitað í maraþonið eins og hún Birna,“ segir Valdimar þakklátur.

Hann segist vel geta talið upp heilan her af fólki sem hafi komið að því að hjálpa honum með einum og öðrum hætti frá því að hann tók upp nýjan lífsstíl. „Það rúmast einfaldlega ekki allir hér þannig að ég segi bara takk allir.“

40 kílóum léttari

Spurður um árangur erfiðisins segist Valdimar einmitt hafa verið að ljúka við þolpróf hjá Tómasi. „Ég er búinn að bæta mig á öllum sviðum frá því á sama tíma og í fyrra. Þoltalan fór frá 14 upp í 20,8, ég komst upp í 282 wött á hjólinu en komst bara upp í 205 síðast, mjólkursýruþröskuldurinn er búinn að bætast um 4 mínútur og súrefnisupptakan hefur bæst um 27%. Auk þess er ég búinn að missa eitthvað í kringum 40 kíló. Þannig að það er allt í blússandi gangi.“ Hefurðu einhvern tímann hugsað um að gefast upp? „Nei, í rauninni ekki. Ég hef átt slæma daga og vikur hér og þar en lykillinn er held ég bara að vera alltaf að fylgjast með þessu, stíga á vigtina reglulega og muna að það kemur dagur eftir þennan dag.“

Venjulegir hlutir auðveldari

Valdimar tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á síðasta ári og er óhætt að segja að þátttaka hans hafi vakið gríðarlega athygli, en aldrei hafa jafn margir tekið þátt í hlaupinu. Upplifðir þú að fólk þyrði frekar að skrá sig og keppa við sjálft sig með þátttöku þinni í hlaupinu? „Já, ég verð nú að viðurkenna það, ég hitti marga úti á götu sem sögðust hafa ákveðið að skrá sig út af mér.“ Spurður hvernig tilfinning það sé að hreyfa við fólki með þessum hætti segir hann hana ótrúlega skrítna en jafnframt góða. „Það er frábært að upplifa að maður hafi svona jákvæð áhrif á fullt af alls konar fólki sem maður þekkir ekki neitt. Það hvetur mig áfram í því sem ég er að gera.“

Ágóði bættrar heilsu skilar sér ekki bara á vigtinni eða í ræktinni hjá Valdimari, en hann segist finna gríðarlegan mun á sér á tónleikum sem og í öðrum daglegum athöfnum. „Það er orðið auðveldara að skera laukinn, labba út í búð, dansa, bíða í röð og gera alls konar hluti sem eiga að vera svo auðveldir en gátu reynst ansi erfiðir þegar líkamsástandið var upp á sitt versta.“

Byrjaðu bara

Þar sem Valdimar vinnur óreglulega segir hann mataræðið stundum geta verið svolítið snúið. „Ég reyni að svindla ekki of mikið en það gerist alveg að ég þurfi að kaupa mat á skyndibitastað eða borða pítsu sem er pöntuð á æfingu eða þess háttar. Það er reyndar farið að vera miklu auðveldara en það var áður fyrr að ná sér í hollan mat, sem betur fer.“

Þrátt fyrir frábæran árangur á liðnu ári er Valdimar hvergi nærri hættur og stefnir á að bæta líkamsástand sitt enn frekar og lifa áframhaldandi heilsusamlegu lífi, sem og að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst í annað sinn.

Margir kannast eflaust við það að vilja taka skrefið að bættum lífsstíl en hafa ekki fundið kraftinn til þess. Hvað viltu segja við þá sem standa í þessum sporum? „Byrjaðu! Hættu að fresta þessu fram á næsta mánudag, næsta meistaramánuð eða hvað sem er, byrjaðu bara. Manni líður svo vel þegar maður er byrjaður. Fyrsta skrefið þarf samt ekki að vera stórt, gerðu þetta bara á þínum hraða og á þínum forsendum. Skiptu út einum vondum hlut í einu og bættu inn einum góðum í einu, þú gætir til dæmis minnkað gosdrykkju, ég gerði það fyrst. En umfram allt, ekki fara of hratt af stað, þetta hefst með þolinmæði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál