Hömlulaus ofæta og matarfíkill

Elísabet Ólafsdóttir.
Elísabet Ólafsdóttir.

„Ég er búin að vera 2756 daga í fráhaldi eða síðan 10. júní 2009. 2013 tók ég mér 10 daga frí og datt svo hrikalega í það að ég þyngdist um 6,7 kg á þessum tíu dögum. Ég vissi ekki einu sinni að það væri hægt. Eins og ég vissi ekki að það hefði verið hægt að vera ég og vera mjó. En í fráhaldi tókst það. Ég fór á djammið í gullbuxum þar sem ég var klipin í rassinn og fílaði það í drasl,“ segir Elísabet Ólafsdóttir í sínum nýjasta pistli: 

Hömlulaus ofæta og matarfíkill

Það að vera í fráhaldi er sem sagt að vera í tólf spora samtökum fyrir matarfíkla. Ég hef vigtað þrjár sykur- og sterkjulausar máltíðir á dag, tilkynnt þær til sponsors og ekki fengið mér neitt á milli mála nema kaffi, te, Pepsí max og sykurlaust tyggjó.

Síðasta árið hef ég misst máttinn örlítil skref fyrir skref í fráhaldinu. Fyrst hætti ég að tilkynna breytingar. Svo gleymdi ég alltaf að tilkynna á kvöldin og fór að tilkynna á morgnana og smám saman var ég farin að stjórna þessu alveg sjálf og var orðin skíthrædd við sponsorinn minn því ef hún myndi fella mig þá myndi ég náttúrlega fara beinustu leið í Hagkaup og kaupa:

  • Lindt-súkkulaðikúlur
  • Snickers
  • LionBar
  • Allt þetta sterka sem hefur komið á markað síðustu 8 ár
  • Eitt af öllu á nammibarnum
  • Tiramisu
  • Sushi
  • Hrískúlur
  • Krítar
  • Bingókúlur – Fílakarmellur
  • Kókópöffs

Þúst…bara svona beisikk innkaup fyrir manneskju sem er ekki í fráhaldi.

Ég fór á fund fyrir helgi og pissaði næstum því í mig þegar sponsorinn minn gekk í salinn. Ég horfðist í augu við þá staðreynd að ég var ekki að gera neitt af því sem ég átti að vera að gera í samtökunum nema það eitt að vigta matinn minn. Ég ákvað að slökkva á óheiðarleikanum og sagði frá.

En eftir langt og strangt spjall við sponsorinn minn ákvað ég bara að stíga út úr samtökunum. Ég er of hrokafull og í eigin mætti til að eyða tíma þeirra þarna inni og ég hreinlega finn í hjarta mér að ég er ekki á réttum stað fyrir fráhaldsvinnuna.

Venjuleg

Og viti menn. Ég fékk mér lakkrís og hann var ekkert spes. Ég fékk mér súkkulaði og það var ekkert eins æðislegt og mig minnti. Ég vigtaði matinn minn það sem eftir var dags í gær. Og gerði slíkt hið sama í dag.

Ég held í alvörunni að ég verði fyrsta manneskjan í sögunni sem stíg út úr samtökunum og ráði við matinn minn. Já. Ég verð sú fyrsta sem þyngist ekki um 30 kíló. Ég verð sú fyrsta sem verð ekki bitur út í samtökin því mér mistókst fráhald. Ég verð sú fyrsta sem höndlar þetta bara. Já. Ég. Tada! Ég fæ enga þráhyggju. Ég held áfram að borða bökketlód af grænmeti og bara kringum 120 g af próteini. Ég held áfram að borða eins og ég er vön.

Ég hef nefnilega þroskast svolítið síðasta áratug sko. Áður en ég byrjaði í fráhaldi þá varð ég æðislega stressuð ef ég varð svöng. Svona eins og það myndi bara líða yfir mig af vannæringu ef ég fengi ekki eitthvað strax. Jebb… 100 kílóa daman sem leið út af í Kringlunni af vannæringu því hún varð svöng… sá þetta kristallast fyrir mér. En núna þá fæ ég mér bara að drekka nema það sé kominn matartími. Ég er örugg um að næsta máltíð er á leiðinni og ég veit að ég mun fá nóg að borða.

Ég hef örugglega bara verið mis-diagnosed og er ábyggilega bara enginn matarfíkill. Ég held það. En sko til að vakna ekki eftir 30 kíló æðislega hissa þá ætla ég að gera mér svona ramma. Í dag er ég 74 kg og á öðrum degi úr fráhaldi. Ég fór í Hagkaup og labbaði gegnum nammiganginn en langaði ekki í neitt. Ég fór í lúgusjoppu til að pulsa strákana upp en hlakkaði meira til að fara heim að borða svínasnakkið og heimatilbúna ísinn minn en að fá mér eitthvað úr sjoppunni. Af einlægni þá vildi ég matinn minn frekar. Það er eins og ég virði líkamann minn betur en það að setja eitthvað drasl í hann. Í eigin vilja.

Ramminn

Ókei. Ef ég fer út fyrir þennan ramma þá verð ég að játa fyrir mér að ég er ekki að höndla þetta og ég þarf hjálpina sem býðst í matarfíknarprógramminu. Ég nenni nefnilega ekki þessu helvítis samviskubiti sem ég var með í 20 ár. Ef ég fer að upplifa það aftur þá fokkit og ég fer aftur í fráhald.

  • Fer upp í 80 kg
  • Upplifi þráhyggju í sykur eða sterkju
  • Sleppi máltíð
  • Borða yfir mig þannig að mér líði illa og fái samviskubit

En ég fer náttúrlega ekkert út fyrir rammann og ég fæ ekkert rammann á heilann því ég er alveg venjuleg. Ég get borðað venjulega. Ég er sú fyrsta. Ég.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál