Mikilvægt að trúa á bata bakverkja

Harpa Helgadóttir sjúkraþjálfari.
Harpa Helgadóttir sjúkraþjálfari. mbl.is/Þórður

„Þjóðarstofnunin fyrir heilsu og velferð í Bretlandi gaf út nýjar leiðbeiningar við meðferð bakverkja með eða án leiðniverks hjá National Institute for Health and Care Excellence í nóvember,“ segir dr. Harpa Helgadóttir, sjúkraþjálfari og sérfræðingur í greiningu og meðferð stoðkerfis í pistli: 

Leiðbeiningarnar sem byggja á niðurstöðum margra ára rannsókna á bakverkjum eru ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki og fólki með bakverki. Leiðbeiningarnar leggja áherslu á að fólki séu veittar ráðleggingar og upplýsingar sérsniðnar að þörfum og getu hvers og eins til að hjálpa því að vinna sjálft í mjóbaksvandamáli sínu á öllum stigum meðferðarinnar. Þetta felur meðal annars í sér að fólki eru veittar upplýsingar um eðli barkverkjanna auk þess sem það er hvatt til að halda áfram eðlilegri virkni.

Þegar við höfum bakverki er mikilvægt að forðast rúmlegu og einhæft álag en leggja þess í stað áherslu á æfingar og hreyfingu. Æfingarnar bæta starfsemi baksins og hreyfingin eykur blóðstreymið um svæðið sem færir vefjunum næringu og fjarlægir úrgangsefni.Vefur sem hefur orðið fyrir skaða þarf enn meira á góðu blóðstreymi og næringarflæði að halda til að gróa og starfa eðlilega á ný.

Fólki er ráðlagt stunda hópæfingar undir leiðsögn sjúkraþjálfara eða annarra heilbrigðisstarfsmanna en vegna þess að ólíkar orsakir geta verið fyrir bakverkjum þurfa ráðleggingarnar og æfingarnar á sama tíma að vera einstaklingsmiðaðar. Hreyfingin sem fólk stundar má heldur ekki ofgera stoðkerfinu. Ganga er í flestum tilfellum góð fyrir hrygginn og hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga þegar við notum göngu sem heilsurækt.Til að ná góðu blóðstreymi um vefina er gott að ganga rösklega í 15-20 mínútur á hverjum degi. Þegar þú gengur rösklega og sveiflar handleggjum, verður snúningshreyfing á hryggnum, bolvöðvarnir spennast og slaka til skiptist og blóðflæðið eykst um vefina. Þegar gengið er mjög rólega eða rölt þá er álagið ekki ólíkt því og þegar staðið er í kyrrstöðu. Hreyfingin er mjög lítil almennt í hryggnum og bolvöðvarnir spennast ekki og slaka til skiptis. Gott er að ganga rösklega og sveifla handleggjunum um axlir. Þeim sem hafa bakverki hættir til að beygja aðeins olnboga í stað þess að hreyfa axlir, auk þess hættir þeim til að halla sér meira fram en þeir sem hafa ekki verki. Að hafa hendur í vösum eða fyrir aftan bak hindrar eðlilegar hreyfingar hryggsúlunnar.

Þegar við fáum slæmt bakverkjakast er betra að forðast athafnir sem auka verkinn alveg á sama hátt og við myndum gera ef við tognuðum á ökkla. Það flýtir hins vegar fyrir bata og minnkar líkurnar á því að verkir verði langvarandi ef við hreyfum okkur og snúum sem fyrst til daglegra athafna. Við þurfum samt að auka álagið smátt og smátt til að minnka hættuna á að verkirnir aukist. Það er mjög algengt að fólk yfirkeyri sig fyrstu dagana á eftir og geri of mikið og of snemma. Ef þú gerir of mikið og hættir ekki fyrr en verkurinn er orðinn óbærilegur leiðir það til þess að í kjölfarið þarftu að hvíla þig og gera minna. Þegar verkurinn minnkar þá ferðu aftur á fullt og ofgerir þér aftur. Ef vítahringurinn fær að þróast í einhvern tíma minnkar virkni þín með tímanum. Í hvert skipti sem þú ofgerir þér er líklegra að þú forðist að gera það sem olli verkjunum og segir: „Ég get ekki gert þetta, þá fæ ég verkina.“

Sumir hreyfa sig lítið og eru óvirkir en aðrir vaða áfram, ofmeta getu sína og ofgera sér aftur og aftur. Þeir lenda oftar en ekki í þessum vítahring ofálags/vanálags. 

Það er mikilvægt að við höfum trú á því að við náum okkur af bakverk en gætum þess að lenda ekki í þessum vítahring sem leiðir til þess að virkni okkar minnkar smátt og smátt með árunum og við hættum að gera hluti sem við vorum vön að gera. Það er einnig hætta á að fólk verði hrætt við að hreyfa sig eftir að hafa verið sagt að það hafi mikið slit eða til dæmis brjósklos. Niðurstöður myndgreiningar þarf að taka með fyrirvara þar sem að rannsóknir á fólki sem hefur aldrei fundið til í bakinu sýna að slitbreytingar eru mjög algengar og að um 30% fólks hefur til dæmis brjósklos án þess að hafa einkenni. Sambandið á milli einkenna og þess sem sést á myndgreiningu er því mjög óljóst auk þess sem rannsóknir hafa sýnt að heilsa þeirra sem fá að vita niðurstöður myndgreiningar versnar samanborið við þá sem fá ekki að vita þær.

Myndgreining er mikilvæg til að útiloka alvarlega sjúkdóma og það er mikilvægt að þú farir til læknis ef þú hefur mikla og stöðuga verki sem minnka ekki við hvíld, næturverki, leiðniverk niður í fótlegg með doða og kraftminnkun eða minnkaða stjórn á þvagi og hægðum eða doða á söðulsvæði.

Þetta eru einkenni sem ber að taka alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál