Skammaðist sín fyrir líkamann

Tryggvi Þór Skarphéðinsson.
Tryggvi Þór Skarphéðinsson.

„Húðflúr hafa ætíð heillað mig. Sum eru falleg, önnur að mínu mati ekki eins falleg en þau hafa fyrir mig meira gildi heldur en einungis fagurfræðilegt. Mér langar að deila með ykkur minni upplifun og reynslu af því hvernig ég hef fundið styrk, sátt við líkama minn og sjálfsöryggi með því að skreyta líkama minn,“ segir Tryggvi Þór Skarphéðinsson í nýjum pistli: 

Ég fékk mér fyrsta húðflúrið mitt tvítugur eftir miklar vangaveltur og pælingar hvernig ég gæti útfært þann texta sem ég ætlaði að fá mér. Mín upplifun er að fyrsta húðflúrið er oftast stærsta hindrunin. Þetta er svo stórt skref, frá því að vera ekki með húðflúr og að vera allt í einu með húðflúr. Ákvörðun sem er ekki hægt að taka til baka eða hið minnsta tímafrek og kostnaðarsöm aðgerð að fjarlægja.

Ég hafði hugsað málið í rúmt ár áður en ég fékk mér fyrsta húðflúrið mitt. Ég átti pantaðan tíma á stofu og það ríkti mikill kvíði og spenna yfir þessum tímapunkti í lífi mínu. Þegar textinn „Lífið er Tónlist“ hafði verið skrifaður á vinstri framhandlegg þá byrjaði ég strax að pæla í næsta húðflúri sem ætti að vega á móti og koma á hægri framhandlegg til þess að fá jafnvægi í þetta.

Í dag er ég tuttugu og sex ára og er með sex húðflúr. Húðflúrin hafa öll sína merkinga, stóra og litla. Allt frá því að ljúka sérstaklega erfiðu sambandi og frá því að vera sérstaklega bjartsýnn og sjá allar götur greiðar. Í þessi sex ár hefur spurningin „af hverju?“ alltaf brunnið á mínum vörum. Af hverju fæ ég mér tattoo en ekki Jón Jónsson frá Egilsstöðum? Hvað er það sem greinir á milli þeirra sem fara undir nálina og þeirra sem í besta falli láta sig dreyma um að keyra um á Harley Davidson og ríða inn í sólsetrið á Þjóðvegi 66 með ekkert pláss fyrir annað húðflúr?

Ég get ekki svarað því, en fyrir mér hefur það að fá mér húðflúr valdið miklum breytingum hjá mér varðandi hvernig ég hef litið á mig og upplifað sjálfan mig og líkamann minn. Ég tók nefnilega eftir  breytingum í hegðun hjá mér eftir hvert og eitt húðflúr. Ég fór að vera ánægðari með mig og þann líkamspart sem var flúraður. Ef ég flúraði á mér framhandlegginn þá fór ég gjarnan að brjóta upp á skyrtur og bretta upp peysur svo að húðflúrin myndu pottþétt sjást.

Nú hugsar kannski einhver, „vá, einhver gaur með sjúklega sýniþörf“. Það má vel vera en þetta var eitthvað sem ég gerði aldrei áður en ég fékk mér húðflúr.  Ég fékk mér síðar húðflúr á upphandlegginn og þá í fysta skipti á ævinni fór ég að leyfa mér að ganga í hlýrabolum og í raun og veru að sýna á mér handleggina. Það var eins og hvert húðflúr hjálpaði mér hægt og rólega að sættast við minn eigin líkama og það svæði sem var og er flúrað.

Ég hef einmitt alltaf skammast mín ótrúlega fyrir sjálfan mig og líkama minn. Fundist ég vera með asnalega langa handleggi, of feita handleggi, of mjóa handleggi, of feitur, of lítinn vöðvamassa, of stóra brjóstvöðva, ansalega vaxinn eða bara ömurlegt eintak af mannveru. Ég hef gengið í gegnum miklar breytingar í vaxtarlagi og verið kominn niður í sjötíu og sex kíló og nýverið náð tæpum níutíu og tveimur kílóum.

Það sem mér finnst eftirtektarvert er að sama hvort ég var sjötíu eða níutíu og sjö kíló þá fannst mér ég aldrei vera nóg. Aldrei nógu grannur, aldrei nógu flottur, aldrei með sixpack og alltaf með fokkings bumbu. Það eina sem ég bar mig saman við var vitaskuld allir strákarnir í grunn- eða menntaskóla sem æfðu fótbolta fimm sinnum í viku eða gaurarnir í Men’s Health í Eymundsson.

Tryggvi Þór Skarphéðinsson hjólreiðamaður.
Tryggvi Þór Skarphéðinsson hjólreiðamaður. mbl.is/Hugi Hlynsson

Þetta er mynd af mér. Það sést ekki mikið á mér, en á þeim tíma sem þessi mynd var tekin fannst mér ég vera enn þá feitur. Ég var með smá spik á maganum og brjóstunum. Ég var mjög svekktur að leynilega markmiðið mitt hafði ekki gengið upp og ég hafði þyngst áður en þessi mynd var tekin. Þessi mynd var tekin úr viðtali við mig eftir að ég hjólaði hringinn í kringum Ísland sumarið 2015. Ég hafði hjólað rúma fjórtán hundruð kílómetra á fimmtán dögum. Ég hlakkaði svo mikið til að vera sjúklega grannur og vera búinn að léttast þegar ég kæmi heim

Þegar ég lít til baka þá sé ég að það hefði aldrei neitt verið nógu gott. Hausinn á mér er vandamálið en ekki „fitan“ sem sést á myndinni. Sú ranghugmynd að „þegar – þá“ var að brotna niður. „Þegar ég verð í nógu góðu formi líkamlega, þá verð ég hamingjusamur.“ Það yrði aldrei, ekki fyrr en ég breytti mínum hugsunum og opnaði mig varðandi þetta vandamál. Á vissan hátt hafa húðflúr og göt hjálpað mér að taka hluti varðandi minn eigin líkama í sátt og leyfa mér að vera eins og ég er. Fyrir mér er þetta mikill sigur að fatta það að það er ekkert „þegar – þá verð ég hamingjusamur“.

Það eru vissulega mjög óheilbrigðar staðalímyndir í gangi í okkar samfélagi og það er það sama með stráka og stelpur. Ég veit það núna að ég verð ekkert hamingjusamari þótt ég verði tíu kílóum léttari eða ég losni loksins við þessa fitu á brjóstkassanum á mér. Mig langar ekki að elska mig með skilyrðum um að ég verði að vera með lága fituprósentu. Ég veiti mér líklegast enga lífsfyllingu með því að fá mér annað húðflúr en kannski hjálpar það mér að taka þennan líkama sem ég hef í sátt.

screen-shot-2016-11-24-at-19-00-51
Mér finnst gott að vita það að þetta er allt í hausnum á mér og þurfa ekki lengur að streða og rífa mig niður fyrir það að vera einhvern veginn öðruvísi en ég er akkúrat núna. Gott dæmi væri ef vinur minn segði mér að honum liði illa yfir því að hann væri í yfirþyngd eða finnist hann vera hitt eða þetta. Líklegast gæti ég sagt honum að ég skil hann svo vel og að ég elska hann eins og hann er. Hann er ekki vinur minn út af því að hann er með X fituprósentu.

Vonandi er þetta eitthvað sem síast inn hjá mér líka og vonandi finnur sá einstaklingur sem les þessa grein að hann er ótrúlega mikils virði og hann er fullkominn eins og hann er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál