Forréttindi að geta hreyft sig

Unnur veit hvað hún syngur, enda hefur hún lengi verið …
Unnur veit hvað hún syngur, enda hefur hún lengi verið viðloðandi heilsugeirann.

Unnur Pálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Fusion og mannauðsráðgjafi hjá Zenter, er vel að sér í heilsutengdum málefnum, enda hefur hún lengi verið viðriðin heilsugeirann. Það er því ekki úr vegi að athuga hvort hún lumi á ráðum sem geta gagnast fólki að koma sér af stað í ræktinni eftir hátíðirnar.

Þarft þú að stramma þig af eftir hátíðirnar?

„Ég reyni að passa vel upp á mataræðið ávallt, borða hollt fæði allt árið. Eftir hátíðirnar finnst mér mjög gott að drekka holla detox-drykki, blanda mér „boozt“ og holla safa. Ég drekk mikið vatn og þykir mjög gott að setja engifer, sítrónu, agúrku, jarðarber og bláber út í vatnið og drekka á hverjum degi. Þar sem ég hreyfi mig á hverjum degi, og það er lífstíll, er auðveldara að komast í rétta gírinn eftir hátíðirnar.“

Hvernig er best að koma mataræðinu á rétt ról eftir allt jólaátið, saltið og sykurinn?

„Það er nauðsynlegt að borða hollan og góðan mat og temja sér heilbrigt líferni fyrir alla lífstíð. Drekka nóg af vatni og allt er gott í hófi. Gott er að borða hráfæði, fiskmeti, kjúkling, ávexti, grænmeti, skyr og grófmeti. Svefn skiptir miklu máli þar sem við endurnærumst á líkama og sál með góðum og djúpum svefni. Besta leiðin er að byrja að hreyfa sig og breyta rólega um mataræði, setja sér markmið og fylgja þeim eftir.“

Nú flykkist fólk í ræktina eftir allt jólasukkið, hvað er best að gera til að springa ekki á limminu?

„Ég legg áherslu á mikilvægi þess að styrkja hjarta-, tauga- og æðakerfi með þolæfingum og því er gott að stunda alhliða og fjölbreyttar æfingar. Gott er að skrifa niður æfingaáætlun og ákveða hvaða þjálfun þú vilt stunda og á hvaða tíma dags. Markmiðið er að stunda líkamsrækt þrisvar til fimm sinnum í viku, í 30 til 60 mínútur í senn. Best er að stunda styrktaræfingar með lóðum, bæði í opnum hóptímum og í tækjasal, fara í jóga, synda, út að ganga, stunda fjallgöngur og einnig er hægt að nota fallegu náttúruna okkar á Íslandi við fjölbreyttar æfingar.“

Hvaða ráðleggingar hefur þú fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref?

„Settu þér markmið að stunda líkamsrækt daglega og engar afsakanir. Í dag er hægt að stunda heilsurækt hvar sem er. Farðu út að ganga, hlaupa, synda, í ræktina, dansaðu eða stundaðu líkamsræktina heima í stofu. Það er mjög gaman og hvetjandi að stunda líkamsrækt með æfingafélaga sem dregur þig af stað, því félagsskapurinn skiptir máli. Það er svo hollt og gott fyrir líkama og sál að fara á góða æfingu og hitta æfingafélagana. Byrjaðu strax í dag!“

En fyrir þá sem þurfa bara smá spark í rassinn?

„Markmiðssetning er það ráð sem ég get gefið ykkur til að ná árangri í heilsurækt á lífi og sál. Setjið ykkur skýr markmið, skrifið æfingadagbók og fylgið árangrinum eftir. Gerðu það að venju þinni að stunda líkamsrækt fjórum sinnum í viku. Með því að gera rútínuna að föstum lið þá verður auðveldara að ná settum markmiðum. Því oftar sem þú stundar líkamsrækt því fyrr verður líkaminn að aðlagast. Gerðu mánudagsæfinguna í upphafi vikunnar að föstum lið og haltu því áfram. Það er yndislegt að vakna á mánudagsmorgni, stunda góða heilsurækt og eiga alla vikuna eftir. Best er að byrja rólega þegar við erum að stíga fyrstu skrefin. Það er nauðsynlegt til að læra vel allar æfingarnar og einnig til að hvatinn verði ávallt til staðar og líkamsræktin verði að lífsstíl. Lyfta að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum í viku og stunda þolþjálfun eða fara í hóptíma þá daga sem við hvílum okkur í tækjasal. Ég mæli einnig með að stunda útivist, ganga reglulega og synda. Við þurfum að borða rétt og stunda góðar styrktaræfingar fyrir allan líkamann. Í lokin verð ég að hvetja alla til að fara einnig í jógatíma og að teygja vel á vöðvunum eftir átök því að liðleikaþjálfunin skiptir miklu máli. Mikilvægt er að hlúa vel að líkama og sál.“

Unnur mælir með því að stundaðar séu fjölbreyttar æfingar.
Unnur mælir með því að stundaðar séu fjölbreyttar æfingar. Thinkstock / Getty Images

Hvernig er æfingum hjá þér sjálfri háttað?

„Ég reyni að hafa þjálfunina eins fjölbreytta og hægt er. Ég kenni opna hóptíma sem heita Fight fx, Pump fx og  FitPilates í World Class Laugum og Mosfellsbæ. Nú er ég að bæta við jóga og liðleikaþjálfun inn í prógrammið.  Ég stunda mikla útiveru og fer í góðar göngur á hverjum degi, oftast tvisvar á dag.  Það gefur mér kraft líkamlega og andlega að ganga um fallega Mosfellsbæinn okkar.“

Hvað færð þú út úr líkamsrækt?

„Það er gleðin, hvatningin, lífsmynstrið, félagsskapurinn og tilfinningin eftir góða æfingu er frábær. Ég fyllist af orku við að stunda líkamsrækt og starfsorkan eykst til muna. Það eru forréttindi að geta hreyft sig, stundað líkamsrækt við þær bestu og glæsilegustu aðstæður sem við höfum á Íslandi. Heilsurækt er lífsstíll og við verðum að muna að staldra við í amstri dagsins, njóta vel líðandi stundar og finna hamingjuna streyma um líkamann. Lífið er núna og njótum þess.“

Hvað borðar þú dagsdaglega?

„Ég byrja daginn á að fá mér ferskt sítrónuvatn og græna bombu sem samanstendur af spínati, eplum, engifer og vatni. AB mjólk með bláberjum og múslí er einnig í uppáhaldi og rjúkandi heitur kaffibolli toppar morguninn. Ég borða mikið af hreinu fæði, kjúkling, fisk, grænmeti, ávexti og fræ.“

En þegar þú vilt gera vel við þig?

„Í uppáhaldi hjá mér er humar eða lax, ferskt grænmeti og kartöflur frá Grænmetismarkaðinum að Reykjum. Mér finnst líka góður ís með heitri súkkulaðisósu og bláberjum æði.“

Eitthvað sem þú vilt bæta við að lokum?

„Við eigum að finna líkamsrækt sem hentar okkur best. Það er aðalatriðið að gefast ekki upp þó á móti blási og halda áfram! Þó að það komi nokkrir erfiðir dagar þá stíga eitt skref aftur á bak og tvö skref áfram! Hafið ávallt tíma fyrir heilsuna – við eigum aðeins einn líkama og við verðum að virða hann. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og þess vegna eigum við að hlúa vel að henni.“

Unnur mælir með því að fólk kynni sér jóga.
Unnur mælir með því að fólk kynni sér jóga. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál