Færir fundi til að komast í crossfit

Ómar R. Valdimarsson lögmaður hugsar ákaflega vel um heilsuna en fyrir fjórum árum var hann 99,9 kg og ákvað að snúa vörn í sókn. Markmiðið var að vera í toppformi á fertugsafmælinu sem fram fór í síðasta mánuði. 

Ómar leggur mikið upp úr því að lifa heilsusamlegu lífi. Þegar ég spyr hann hvað hann geri til þess að vera vel á sig kominn líkamlega segist hann vera kolfallinn fyrir crossfit.

„Ég stunda crossfit af kappi og reyni að borða heilsusamlega. Sleppi hvað ég get sykri og einföldum kolvetnum á borð við þau sem má finna í brauði og pasta. Borða þess meira af próteini, flóknum kolvetnum en lítið af fitu,“ segir Ómar.

Ómar mætir 5-6 sinnum í viku í CrossFit Reykjavík og æfir í klukkutíma í senn.

„Það er eiginlega vandræðalegt hvað ég er „húkt“ á crossfit. Ræktin er farin að skipta mig það miklu máli í dag að ég reyni að skipuleggja tíma minn í kringum 11-tímann í CFR – færi fundi og aðrar uppákomur alveg miskunnarlaust!“

Þegar Ómar er spurður út í það hvað hann fær út úr ræktinni segist hann fá mun betra líf.

„Lögmennskan er mikið kyrrsetustarf og það að vera bograndi yfir tölvuskjánum heilu og hálfu dagana gerir það lífsnauðsynlegt að komast í ræktina. Áður en ég byrjaði í lögmennskunni var ég eini starfsmaður Bloomberg-fréttastofunnar á Íslandi og það gat verið dálítið einmanalegt. Að komast í crossfit einu sinni á dag hafði því mikið félagslegt gildi fyrir mig – og hefur enn.“

Skiptir það þig máli að vera í góðu formi?

„Það skiptir mig miklu máli að geta tekist á við daglegar athafnir án þess að það hálfdrepi mig. Þá á ég við að geta gert einfalda hluti eins og að bera matarpoka inn úr bílnum og skrattast með dætrum mínum án þess að vera móður og másandi. Þá er það gott að vera fyrirmynd fyrir stelpurnar – að sýna það í verki að ég sé að hugsa um heilsuna mína hvað best ég get.“

Hefur þú alltaf æft mikið eða er þetta nýtilkomið?

„Fyrir 4 árum hreyfði ég mig sama og ekki neitt og einn daginn steig ég á vigtina og var 99,9 kíló. Ég ákvað þá að ég ætlaði að vera í mínu besta líkamlega formi þegar ég yrði 40 ára, en ég fagnaði þeim tímamótum þann 7. júlí sl. Það er óhætt að segja að það hafi tekist – á þessu ferðalagi hef ég týnt meira en 20 kílóum og er sterkari en ég hef nokkurn tíma verið. Núna er bara að halda áfram í rútínunni og þá verð ég kannski í enn betra formi þegar ég verð 50 ára!“

Hvað ertu að borða á venjulegum degi?

„Það er í heldur föstum skorðum. Í morgunmat borða ég hafragraut með próteindufti út á. Á æfingu drekk ég mysupróteindrykk með einföldum kolvetnum út í. Hádegismaturinn er svo um 140 g af mögru próteini með sætum kartöflum eða öðrum flóknum kolvetnum. Um kaffileytið fæ ég mér tvö próteinstykki sem eru kolvetnasnauð og í kvöldmat er það aftur um 140 g af mögru kjöti með salati en svo gott sem engum kolvetnum. Fyrir svefn fæ ég mér síðan casein-prótein. Þessu öllu er skolað niður með vatni, sódavatni eða Nocco-drykknum, enda er það bara bilun að drekka hitaeiningar. Einu sinni í viku – oftast á laugardögum – leyfi ég mér hvað sem hugurinn girnist. Það gerir það auðveldara að halda sig við planið hina dagana.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við ræktina?

„Félagsskapurinn! Það er ótrúlega gaman að hitta fólkið í ræktinni og bulla í því, hvetja það áfram og vera hvattur áfram og keppa við það. Svo er ótrúlega gaman hvað það eru miklar áskoranir í crossfit – maður er alltaf að keppa við sjálfan sig og reyna að gera betur en maður hefur gert áður. Það gerir daginn manns að geta eitthvað í dag sem ekki var fræðilegur möguleiki að gera í gær.“

Æfir þú með einhverjum sérstökum eða skiptir það engu máli?

„Það er ákveðinn kjarni af fólki sem mætir alltaf kl. 11.00 í CFR, sem maður telur til vina sinna. Þegar ég byrjaði þekkti ég fáa en eftir því sem maður hefur æft lengur bætist í vina- og kunningjahópinn. Þetta skiptir máli – bæði að vera hluti af liðsheild og eins að vera í hvetjandi umhverfi.“

Ertu hættur að borða eitthvað sem þú borðaðir áður?

„Nei, kannski ekki. Borða bara mun minna af ruglinu þar sem ég geri það ekki nema einn dag í viku. Og svo almennt, þá eru skammtastærðirnar mínar mun minni dags daglega núna en þær voru áður.“

Ómar hleður lóðum á stöngina. Hann tekur 135 kg í réttstöðulyftu, 121 kg í hnébeygju, 106 kg í bekkpressu, 90 kg í jafnhendingu (e. clean & jerk) og 66 kg í snörun (e. snatch). Móðir Ómars, Dagmar Agnarsdóttir, æfir kraftlyftingar og hefur náð góðum árangri á kraftlyftingamótum síðustu ár. Þegar ég spyr Ómar hvernig það sé að eiga mömmu sem stundi kraftlyftingar segir hann að það sé algerlega frábært.

„Mamma er æðisleg fyrirmynd og það er gaman að geta spjallað við hana um hinar og þessar lyftur. Mamma er uppáhaldsíþróttamaðurinn minn.“

Lyftir hún þyngra en þú eða hefur hún vinninginn?

„Það er kannski ekki gott að segja. Líklega er best að segja að kíló fyrir kíló, þá bakar hún mig,“ segir hann og hlær.

Finnst þér það hafa áhrif á vinnuna ef þú ert duglegur að hreyfa þig?

„Ekki spurning – það er himinn og haf á milli hvað varðar einbeitningu, orku og frumkvæði. Það að stunda heilsusamlegt líferni er eins og eldiviður fyrir allt annað sem ég tek mér fyrir hendur – vinnuna þar með talda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál