Löngu hætt að sjá kökur og sykur sem spennandi kost

Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti.
Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Næringarþerapistinn Inga Kristjánsdóttir ætlar að hrista upp í fólki í júlí með áskorun sem hún kallar jáskorun. Hún segir að fólk megi ekki detta út af vagninum í sumarfríinu og þess vegna vill hún ýta við fólki. Allir geta verið með.

„Jáskorunin er hugsuð sem jákvæð leið til að sýna fólki fram á að litlar breytingar sem allir geta gert skipta miklu máli varðandi orku og heilsu. Þetta verða fjórar jáskoranir í júlí, ein á viku sem allir geta tekið og sagt JÁ við. Mér finnst jáskorun svo miklu fallegra orð en áskorun,“ segir Inga.

Hver var kveikjan að henni?

„Kveikjan var sú að mér finnst gjarnan að fólki vaxi mikið í augum að breyta mataræði og lífsstíl og oftast er það vegna þess að flækjustigið verður of mikið. Prógrammið verður of flókið, þá bara gerir fólk ekki neitt eða heldur það ekki út. Mig langar að sýna fram á hve mikið litlar og einfaldar breytingar geta gert fyrir líðan og heilsu. Ég var vöknuð allt of snemma einn morguninn og hugmyndin um jáskorun í júlí skaust upp í kollinn á mér. Sumarið er rólegur tími hjá mér þannig að ég ákvað að í stað þess að láta mér leiðast, þá gæti ég bara skellt verkefninu í gang og látið gott af mér leiða í leiðinni. Þetta er alveg ókeypis fyrir alla, engar skuldbindingar eða vesen,“ segir hún.

Maryam Sicard/Unsplash

Er júlí mánuðurinn þar sem allt fer í rugl hjá fólki?

„Já, það er gömul saga og ný. Ég þekki það vel sjálf frá fyrri tíð og sé það á fólkinu mínu sem kemur á námskeiðin til mín. En málið er bara að með ákveðnum einföldum aðgerðum, þá þarf lífið ekkert að fara í rugl. Sumarið er tíminn til að hafa það huggulegt og njóta matar og drykkjar, ekki spurning. Ég er sko ekkert að stinga upp á neinu öðru, en það eru ákveðnir einfaldir þættir sem skipta máli og geta bjargað okkur frá ruglinu.“

Hvers vegna er svona erfitt að halda sig inni á réttri braut?

„Ef ég gæti gefið fullkomið svar við því þá fengi ég fálkaorðuna! Það er margt sem spilar inn í. Að mínu viti skapar þekkingin styrkinn þegar kemur að mataræði og lífsstíl. Því meira sem fólk veit um málið og þekkir sinn líkama, því sterkara verður það á svellinu. Það er líka gott að kunna nokkur einföld trix, sem geta komið flestum langt. Svo er það vaninn. Mörgum finnst þeir einhvern veginn bara skyldugir að fara í bulið á sumrin, njóta nú almennilega! Kannski er bara kominn tími til að átta sig á að það er hægt að hafa það kósí án þess að fara í ruglið. Ég segi svona. Það er líka algengt að fólk kannski borðar eitthvað, eða gerir eitthvað sem það veit að er ekki það besta og í kjölfarið kemur upp hugsanavilla. Það er bara allt ónýtt! Þá finnst viðkomandi að allt sé farið í skrúfuna, vegna þess að einn dagur var ekki fullkominn eða eftir formúlunni. Þetta er auðvitað algjör vitleysa, einn dagur skiptir engu máli. Á morgun kemur nýr dagur,“ segir hún og hlær.

Liliana Olivares/Unsplash

Jáskorun í júlí

Inga stofnaði hóp á félagsmiðlinum Facebook undir heitinu Jáskorun í júlí. Hún segist hafa stofnað hópinn til þess að halda utan um verkefnið.

„Það geta allir sótt um inngöngu og verið með, alveg frítt. Þangað inn set ég eina jáskorun á viku og fylgi henni eftir með meiri fróðleik, oftast í formi örstuttra myndbanda,“ segir hún en jáskorunin hefst 1. júlí.

Hvað um þig sjálfa? Hvað finnst þér erfiðast þegar kemur að því að halda dampi í mataræði og hreyfingu?

„Já, góð spurning, ég er auðvitað mjög langt frá því að vera fullkomin í þessu enda væri það nú ömurlega leiðinlegt. En ég er eiginlega hætt að nenna að fara í eitthvert rugl á sumrin, það kostar mig bara of mikið heilsufarslega. Mér finnst það bara ekki þess virði. Ég hætti að borða sykur að mestu leyti fyrir einum sjö árum og er löngu hætt að sjá kökur og sælgæti sem eitthvað spennandi. Ég grínast samt oft með það að ég drekki minn sykurskammt. Mér finnst ekkert leiðinlegt að fá mér vínglas af og til. Klárlega mætti ég borða fjölbreyttara og örugglega meira af grænmeti. Ég dett stundum í mikla einhæfni og síðustu árin finnst mér hrikalega leiðinlegt að elda. Hugsanlega var það spurningin „hvað er í matinn“ sem gerði út af við það! Ég hreyfi mig reglulega og hætti því bara alls ekki á sumrin. Fyrir mig er hreyfingin gríðarlega mikilvæg og þá aðallega vegna andlegu hliðarinnar. Líkaminn myndar svo mikið af móteitri gegn stressi þegar hann er á hreyfingu og ég þarf á því að halda.“

Hvert er þitt ráð til þess að halda blóðsykrinum í jafnvægi?

„Veistu, ég ætla svolítið að fjalla um það á mjög einfaldan hátt í jáskorun í júlí. Viltu ekki bara vera með og sjá hvað gerist?“

Þetta þarftu að borða á breytingaskeiðinu

Hvað ætti fólk að vera að borða sem er á breytingaskeiðinu?

„Á breytingaskeiði er mikilvægt að koma böndum á sykurneyslu, borða vel af gæðapróteini, fitu, grænmeti og trefjum. Það eru engin geimvísindi svo sem og ekkert sem er nýtt undir sólinni. Kannski er samt eitt sem margir hafa ekkert spáð í varðandi breytingaskeiðið og það er blóðsykurinn. Að jafna blóðsykurinn hefur rosalega góð áhrif á hormónabúskapinn. Það bara skiptir öllu máli að vera ekki með blóðsykurinn í sveiflum, það skapar bara meiri þreytu, andlega vanlíðan og verki ef hann er í rugli. Blóðsykurssveiflur ýta líka undir þyngdaraukningu. Breytingaskeiðið er skeið breytinga eins og nafnið gefur til kynna. Við upplifum það að gömlu trixin sem við kunnum og notuðum með góðum árangri bara virka ekki lengur. Þetta þekkja flestir, sem komast á þetta skeið. Ég heyri til dæmis mjög oft, að fólk talar um að það hafi bætt á sig kílóum, án þess að neitt hafi breyst í mataræðinu. Þarna liggur hundurinn grafinn. Það þarf að breyta, til að fá betri útkomu. Finna nýtt jafnvægi og læra ný trix.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál