Afnám verðtryggingar er eina útgönguleiðin

Ingibjörg Þórðardóttir.
Ingibjörg Þórðardóttir.

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur beint því til lántakenda með óverðtryggð fasteignalán að vera viðbúnir umtalsverðri hækkun á mánaðarlegri greiðslubyrði lána. Ingibjörg Þórðardóttir hjá Híbýlum og formaður Félags fasteignasala segir, að fljótt á litið sýnist sér viðvörun Fjármálaeftirlitsins styðja við bakið á verðtryggingunni og „... kostum hennar og gæðum,“ eins og hún kemst að orði. Fjármálaeftirlitið sagði á dögunum að þeir sem hygðu á slíkar lántökur þyrftu að „hafa borð fyrir báru“ því gripi Seðlabankinn til þess ráðs að hækka vexti frekar gæti hækkun mánaðarlegra afborgana óverðtryggðra fasteignalána numið tugum þúsunda króna á mánuði.

Lántakendur varnarlausir

„Verðtryggð lán hafa leikið fólk mjög grátt á liðnum árum og hafa þannig margir fagnað óverðtryggðum lánum en það eru lán sem fasteignaeigendur í Evrópu þekkja og hafa þann kost, að fólk er almennt ekki háð óeðlilegum sveiflum,“ segir Ingibjörg.

„Fólk veit almennt hvaða vexti lán þeirra bera til framtíðar ólíkt verðtryggðum lánum sem voru komin í um og yfir 20 % vexti þegar verst lét. Það er ljóst að greiðslubyrði óverðtryggðra lána er nokkuð þyngri en verðtryggðra lána en þá er fólk á hinn bóginn alltaf að greiða lán sitt niður ólíkt verðtryggðum lánum. Óverðtryggð lán hljóta að vera komin til að vera enda hvers vegna í ósköpunum eigum við Íslendingar að búa við allt önnur og verri lánskjör en fólk í Evrópu nýtur.“

Ingibjörg segir að evrópskir fasteignasalar hvái þegar íslenskir starfsbræður lýsi fyrir þeim kerfi íslenskra húsanæðislána og þeirri hættu sem getur búið að baki verð- tryggðum lánum þegar verðbólga fer upp þar sem lántakendur séu algerlega varnarlausir. Hún segir ennfremur að viðvörun Fjármálaeftirlitsins og annarra þeirra sem á líkum nótum hafa talað endurspegli ótta þeirra, sem lána til húsnæðiskaupa um að bera minna úr býtum vegna óverðtryggðu lánanna. Einnig megi geta þess að lífeyrissjóðirnir hafi komið að fjármögnun húsnæðislána meðal annars í gegnum Íbúðalánasjóð.

Vísitalan er mulningsvél

„Fyrirsvarsmenn sjóðanna hafa ekki léð máls á óverðtryggðum lánum né að hróflað sé við vísitölunni enda er hún þvílík mulningsvél lánastofnana gagnvart lántakanum, sem þarf að taka öllum sveiflum sem koma inní neysluvísitöluna, hvort heldur er stríð í Lýbíu eða skógareldar í Rússlandi og uppskerubrestur þá hækka húsnæðislán á Íslandi að ekki sé talað um stöðuga veikingu krónunnar sem leiðir til vöruhækkunar og þar af leiðandi hækkunar húsnæðislána,“ segir Ingibjörg og heldur áfram:

„Nú í fyrsta skipti sjáum við mannsæmandi lán á markaði og sambærileg við þau lán sem boðin eru í öðrum löndum, þó vextirnir séu mun hærri hér þá koma fram raddir sem hræða eiga lántaka frá óverðtryggðum lánum. Íslenskir lántakar hafa strítt við verðtryggð lán frá árinu 1979, margoft á því tímabili hefur geisað óðaverðbólga en aldrei, já aldrei hef ég orðið þess áskynja að yfirvöld og fjármálastofnanir hafi varað við verðtryggingunni. Það þarf ekki að vera neinn yfirburðamaður í reikningi til þess að sjá fyrir hverja verðtryggingin vinnur.“

Krónan verði aflögð

Hvað verðtrygginguna varðar segir Ingibjörg það koma undarlega fyrir sjónir „hins almenna verðtryggingarþræls“ að sumir verkalýðsleiðtogar hafa algerlega staðið vörð um hana og benda á í því samhengi að eftirlaun sem sjóðirnir greiða séu verðtryggð.

„Það skýtur því skökku við að þeir sem bjuggu við óvertryggð lán fram til 1979, og eru því flestir hverjir í skuldlausum eignum, skuli búa við verðtryggð eftirlaun á meðan vinnandi almenningur fær ekki slíka umbun samfélagsins þar sem launavísitala var tekin úr sambandi 1983 og hefur aldrei frá þeim tíma verið tengd aftur við launin. Verkalýðsleiðtogar sem sitja sín hvorum megin við borðið eftir því hvort þeir eru í hagsmunagæslu fyrir launþega eða lífeyrissjóðina bera mikla ábyrgð að hafa borið hagsmuni launþega fyrir borð hvað þetta varðar. Eina leiðin út úr þessum ógöngum verðtrygg- ingarinnar er að hún verði aflögð. Krónunni er sífellt kennt um ástandið hér en segir ekki máltækið að árinni kenni illur ræðari. Ábyrgðarleysi í íslenskri efnahagsstjórn er búin að bíta okkur svo illilega að þjóðinni er að blæða út og það er óviðunandi ástand að við skulum enn búa við þrenns konar gjaldmiðil, það er óverðtryggða krónu, verðtryggða krónu og gengistryggða krónu. Þetta þekkist ekki á byggðu bóli,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál