Hannaði Adidas skó úr endurunnu plasti

Alexander Taylor, vöruhönnuður, er einn erlendra gesta sem sækir HönnunarMars …
Alexander Taylor, vöruhönnuður, er einn erlendra gesta sem sækir HönnunarMars 2016 heim. Ljósmynd/Liz Seabrook

Alexander Taylor er einn þeirra erlendu gesta sem sækja HönnunarMars heim. Taylor hefur komið víða við og hefur meðal annars hannað húsgögn og lampa, auk þess sem hann hefur starfað fyrir íþróttavöruframleiðandann Adidas. 

Taylor segist ungur hafa áttað sig á því að hann myndi leggja skapandi greinar fyrir sig, og í rauninni hafi ekkert annað komið til greina.

„Það má eiginlega segja að ég hafi alltaf haft meiri áhuga á listum, en ég ákvað þó að einbeita mér að hönnun eftir að ég byrjaði í námi. Ég hefði í raun ekki getað ímyndað mér að gera nokkuð annað,“ segir Taylor.

Alexander Taylor.
Alexander Taylor. Ljósmynd/Liz Seabrook

Eins og áður sagði er Taylor ákaflega farsæll í sínu fagi, en hann hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar. Þá hafa störf hans fyrir Adidas hlotið gríðarlega eftirtekt, en hann hannaði til að mynda íþróttaskó úr endurunnu plasti. En hvaða hönnuðir skyldu eiga sérstakan sess í hjarta Taylors?

„Átrúnaðargoðin mín eiga það flest sameiginlegt að hafa verið starfandi um miðbik 20. aldarinnar. Ég kann að meta hvernig þessir hönnuðir unnu og hvaða áhrif þeir höfðu á menninguna. Ég er til að mynda mjög hrifinn af húsgagnahönnun hjónanna Charles og Ray Eames. Mér líkar það hvernig þau störfuðu með öðrum hönnuðum og fundu upp nýja tækni, aðferðir og áherslur. Þetta var alvöru hönnun. Ég er einnig hrifinn af karakternum og kímninni í hönnun hinna ítölsku meistara Achille Castiglioni og Enzo Mari,“ bætir Taylor við.

Fold lampinn eftir Alexander Taylor.
Fold lampinn eftir Alexander Taylor. Ljósmynd/Established & Sons

Þegar Taylor er spurður að því hvaða verkefni hann sé sjálfur ánægðastur með stendur ekki á svörum, en lampinn Fold er í miklu uppáhaldi.

„Ég myndi segja að Fold lampinn sem ég hannaði fyrir Established and Sons hafi markað tímamót í lífi mínu. Lampinn er nú orðinn sýningargripur á Nútímalistasafninu í New York sem gerir mig auðvitað afar stoltan. Hvað Adidas varðar er ég ákaflega hreykinn af því að hafa komið með hugmynd að nýrri prjónatækni sem hafði mikil áhrif á iðnaðinn,“ segir Taylor og bætir við að Adidas x Parley verkefnið, eða skórnir sem gerðir eru úr endurunnu plasti úr sjónum, hafi tvímælalaust haft mesta þýðingu fyrir hann. En hvert skyldi viðhorf Taylors til hönnunar vera?

Adidas x Parley skórnir eru hannaðir af Alexander Taylor, en …
Adidas x Parley skórnir eru hannaðir af Alexander Taylor, en þeir eru gerðir úr endurunnu plasti úr sjónum. Ljósmynd/Adidas

„Hönnuðum ber skylda til að haga hönnun sinni þannig að hún bjóði upp á skynsamlegri lausnir en þær sem eru þegar til staðar. Að mínu mati ætti hönnun einnig að vera uppátækjasöm og gædd innsæi. Sjálfur hef ég vanið mig á að skrifa alltaf stutta skýrslu sem skilgreinir takmarkið með hlutnum eða hönnuninni. Ég trúi því einnig að maður þurfi að gefa sér tíma til að þróa og uppgötva nýjar leiðir,“ segir Taylor, sem segist enn ekki hafa orðið uppiskroppa með hugmyndir.

„Ég hef komist að því að þegar ég byrja á nýju verkefni verða hugmyndir sjálfkrafa til, og það hleðst auðveldlega utan á þær. Innblástur getur komið hvenær sem er, en það er einnig mikilvægt að taka sér pásur endrum og sinnum og sækja innblástur á önnur skapandi svið. Þó ekki sé nema í klukkustund. Þegar ég þarf að fá skýra sýn á hlutina finnst mér einnig gott að fara út að hlaupa.“

Þegar Taylor er spurður nánar út í samstarf sitt við Adidas, og þá sér í lagi Adidas x Parley verkefnið, segist hann hafa haft nauman tíma til að framleiða skóna en þeir voru kynntir árið 2015 í tengslum við leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.

„Við vorum með tengsl við Parley-samtökin og höfðum aðgengi að netum sem náttúruverndarsamtökin Sea Shepherd höfðu lagt hald á við ólöglegar veiðar. Við höfðum samband við efnafræðing í Boston sem gat unnið þráð úr netunum, sem við síðan notuðum til að gera skóna. Við notuðum tækni sem þekkist frekar úr bíla- og flugvélaiðnaðinum til að vinna efnið og útbúa skóna.“

Alexander Taylor hannaði Primeknit skóna fyrir Adidas.
Alexander Taylor hannaði Primeknit skóna fyrir Adidas. Ljósmynd/Alexander Taylor Studio

„Ég vildi einnig að útlit skónna myndi endurspegla verkefnið, en þar af leiðandi var bylgjumynstrið tilvalið,“ segir Taylor, sem er handviss um að fólk í skapandi greinum geti látið gott af sér leiða í umhverfismálum.

„Ég held að hönnuðir, listamenn og skapandi fólk hafi mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að uppfræða fólk og hvetja til breytinga,“ bætir Taylor við að endingu.

Eins og við er að búast situr Taylor sjaldnast auðum höndum og er um þessar mundir í óðaönn að leggja drög að spennandi verkefnum, sem hann vill þó ekkert tjá sig um. Tíminn verður því að leiða í ljós hvaða muni Taylor sendir frá sér í framtíðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál