Vil hafa gaman af þessu og leika mér

Vigdís Ólafsdóttir, innanhússhönnuður.
Vigdís Ólafsdóttir, innanhússhönnuður. Eggert Jóhannesson

Vigdís Ólafsdóttir starfaði lengi vel sem fjármálastjóri, en hún er menntaður viðskiptafræðingur. Hún ákvað þó að venda sínu kvæði í kross fyrir nokkrum árum og skella sér í nám í innanhússhönnun. Vigdís flutti því með börnunum sínum þremur til London þar sem hún settist á skólabekk. Hún útskrifaðist á síðasta ári og hefur unnið við innanhússhönnun síðan. Heimili Vigdísar ber þess glöggt merki að þar býr smekkvís manneskja, en þar úir allt og grúir af fallegum munum auk þess sem litadýrðin er mikil. 

Ég hef mestan hluta starfsævinnar unnið við eitthvað fjármálatengt og var fjármálastjóri framan af. Ég átti þó þann gamla draum að fara í þetta nám, sem ég lét síðan rætast. Ég tel nefnilega að maður þurfi ekki endilega að vinna við það sem maður lærir alla ævi. Lífið er fjölbreytilegt og skemmtilegt og maður getur brotið þetta upp og farið að læra eitthvað allt annað seinna meir. Kannski hentar manni ekki lengur að vinna við það sem maður lærði í kringum tvítugt þegar maður er kominn yfir fertugt. Það er nefnilega aldrei of seint að taka u-beygju í lífinu. Það sem skiptir máli er að hafa gaman af vinnunni sinni og ef maður brennur fyrir það sem maður er að vinna við þá er það mikill kostur,“ segir Vigdís, sem svo sannarlega söðlaði um en hún stofnaði fyrirtækið Vigdís innanhússhönnun að námi loknu.

„Ég lærði innanhússhönnun í London, og þetta var árs nám. Ég útskrifaðist í júlí 2016 og vann úti til áramóta. Síðan flutti ég aftur heim, meðal annars vegna krakkanna, en sú yngsta fílaði sig ekki alveg þarna úti. Þá stofnaði ég fyrirtækið og hef starfað við innanhússhönnun síðan.“

Vigdís segir að heimilið hafi ekki tekið neinum stökkbreytingum eftir að námi lauk, enda hafi hún alltaf verið dugleg að dytta að, skreyta og gera fínt í kringum sig. Hún viðurkennir þó að nokkur húsgögn hafi fengið að fylgja heim frá London, auk þess sem litaval á veggjum hefur breyst.

„Húsið var allt hvítt þegar ég flutti inn, en það eru fallegir hvítir listar í loftinu. Ég málaði því veggina til að leyfa þeim að njóta sín betur. Þegar maður býr í sögufrægri borg eins og London fer maður að meta það betur sem er gamalt og öðruvísi. Úti eru bæði gólf- og loftlistar algengir, húsnæði er oft eldra, hlýlegra og meiri saga á bak við það og í raun meiri saga í loftinu. Maður fer því að meta hlutina á annan hátt. Ég keypti eitthvað af húsgögnum úti sem eru dálítið öðruvísi, því úrvalið hér heima er svolítið einsleitt. Svo eflaust breyttist heimilið svolítið. Ég hef þó alla tíð verið að breyta og bæta þannig að þetta er kannski bara eðlilegt framhald af því,“ segir Vigdís og bætir við að stíllinn á heimilinu sé nokkuð blandaður.

„Hann sver sig í ætt við svokallaðan „eclectic“-stíl sem nýtur mikilla vinsælda í London. Þá er mismunandi stílum blandað saman, gömlu og nýju. Pínu antík í bland við nútímalegri muni. Ég er einnig mikið fyrir liti. Mér finnst gaman að poppa upp rými með fallegum litum. Ég vil hafa svolítið gaman af þessu, oft er gaman að blanda smá húmor í hönnunina og leika sér smá. Heimilislegt umhverfi skiptir mig einnig miklu máli, manni þarf að líða vel heima hjá sér.“

Þegar Vigdís er spurð hvort hún eigi sér eftirlætis húsgagn eða skrautmun stendur ekki á svörum.

„Stóru olíumyndirnar mínar tvær eftir vinkonu mína Steinunni Hildi Hauksdóttur eru í miklu uppáhaldi. Mér þykir óendanlega vænt um þær, bæði vegna þess að Steinunn gerði þær en svo eru þær bara svo fallegar. Litirnir í þeim eru sérstaklega fallegir og ætli þær hafi ekki gefið tóninn að litagleðinni á heimilinu.“

Annað uppáhaldshúsgagn er forláta hengistóll frá finnska hönnuðinum Eerio Aarnio þótt Vigdís viðurkenni að hún hún noti hann sjaldan sjálf.

„Hann var hannaður árið 1968, sama ár og ég fæddist, og mér finnst hann skemmtilega öðruvísi. Ég ætti nú að nýta hann betur, hann er meira nýttur sem leikfang þegar krakkar koma í heimsókn. Það finnst öllum ægilega gaman að leika sér í þessum stól,“ segir Vigdís og hlær. En hvað er það að mati hennar sem gerir hús að heimili?

„Fólkið númer eitt, tvö og þrjú. Svo er líka voða gott að safna hlutum í kringum sig sem manni þykir vænt um. Hlýleg birta, kertaljós og kósí lampar eru einnig alger nauðsyn,“ segir Vigdís að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál