Langar í gúmmístígvél og regngalla

Gréta Mjöll Samúelsdóttir.
Gréta Mjöll Samúelsdóttir. Þórður

Greta Mjöll Samúelsdóttir er landsmönnum að góðu kunn fyrir afburða söngrödd og almenn elskulegheit. Greta er mikil matkona og nýtur þess í botn að eyða tíma með fólkinu sínu. Hún hefur aldrei unnið möndlugjöfina nema í eitt skiptið en þá var það hreinræktað svindl.  

Hvað er mikilvægast þegar halda skal heilög jól?

„Mikilvægasta er auðvitað klisjan og allt það en það er fólkið. Fólkið í kringum mann og þessi yndislega rólegheitastemmning sem kemur yfir heimilið. Ég er mikil matkona og eitt af því sem mér finnst afar jólalegt er að hafa nóg til af alls kyns kræsingum. Jólabakstur, trufflur, vestfirskar hveitikökur, hangikjöt og annað meiri háttar kruðerí. Ég er á þeim stað í lífinu að við erum svona að móta okkar eigin hefðir ásamt því að halda í gamlar. Ég finn það núna sérstaklega eftir að hafa orðið foreldri að löngunin kemur afar sterk að búa til akkúrat þetta heima hjá mér með minni fjölskyldu. Svo er ég svo lukkuleg að vera flutt út á land og er að kynnast svo mörgum skemmtilegum hefðum og matarmenningu hjá yndislegum sælkerum sem ég hlakka svo til að flækist inn í mínar eigin hefðir.“

Ertu með ákveðið þema í skreytingum og hverjar eru helstu áherslurnar þetta árið?

„Nei, í rauninni ekki, ég hef aldrei verið mikið fyrir jólaskraut eða alla vega of mikið af því. Finnst alltaf flottast að hafa hvít ljós og ekki of mikið af öllu á einum stað. En svo er þetta að breytast þar sem ég er með eina litla dömu sem til dæmis skreytti jólatréð okkar í fyrsta sinn í ár og setti allt jólaskrautið okkar á tvær greinar. Þetta kemur auðvitað herfilega illa út eins og gefur að skilja en það er bara e-ð svo dásamlegt við það að hún hafi skreytt jólatré alveg sjálf í fyrsta sinn og gerði það alveg eins og hún vildi. Mér dettur ekki í hug að breyta því! Ég er einnig mikil jólakortakona, hef lengi sent svoleiðis og sendi alveg vandræðalega mörg á ári hverju. Ég hef nýtt þau til skreytinga og finnst ákveðin stemmning í því að hengja þau öll upp frá árinu áður. Mér finnst það falleg skreyting og kemur vel út. Núna í ár toppaði mamma mín sig enn einu sinni, sem ég vissi ekki að væri hægt, og sendi okkur fjölskyldunni 24 gjafir til að opna allan desember fram að jólum. Ég hengdi gjafirnar upp í gluggann og finnst það koma sérstaklega vel út. Fyrir utan hvað það er skemmtilegt. Ég finn það að þetta er að breytast hjá mér, það er að allt þurfi að vera í stíl og í samtóna lit. Mér er farið að þykja nokkuð vænt um skipulagða óreiðu af jólaskrauti sem passar ekkert saman en er e-n veginn samt svo yndislegt.“

Tekurðu húsið í gegn fyrir jólin?

„Já, svona temmilega. Ég reyni þó að dreifa þessu yfir desembermánuð þannig að þetta verði ekki þrif maraþon með tilheyrandi stressi. Tek þá þessi „leiðinlegu“ verkefni sem gerð eru sjaldnar og þar af leiðandi talin til svona „jólahreingerninga“ jafnt og þétt vikurnar fyrir jól og þá finn ég ekki eins mikið fyrir viðbótinni við almennt heimilishald. Það verður ágætishefð í því líka að taka ofninn alveg í bakaríið og baka svo smákökur í tandurhreinum ofni. Finnst það dásamlegt.“

Hvernig er aðfangadagur hjá þér?

„Í gegnum árin hefur alltaf verið möndlugrautur hjá mömmu og pabba í hádeginu. Um það bil 30 manns í graut og kósý þar sem ég vinn ALDREI. Og þá meina ég aldrei, fyrir utan auðvitað eina skiptið þegar Hófí systir fékk möndluna og vorkenndi mér svo að hún laumaði henni í minn graut. Vorkunnarverðlaun teljast sem sagt ekki með. En svo er svipuð og skemmtileg hefð í fjölskyldu mannsins míns sem mér finnst alveg ómissandi. En þau eru alltaf með ólífubrauð í hádeginu. Skelfilega gott fyrir bragðlaukana og gaman að hitta fjölskylduna og koma síðustu gjöfunum í réttar hendur. Síðustu ár hefur yfirleitt tekið við eldamennska en ég hef fengið að verið aðstoðarkokkur mömmu þó nokkuð lengi. En þetta er eins og áður sagði svona hefð í mótun þar sem við skiptum okkur enn á milli foreldra okkar á aðfangadagskvöld. vorum hjá tengdafólkinu mínu í fyrra og nutum þess að mæta bara á svæðið og njóta.“

Hvað er í jólamatinn?

„Ég er alin upp við rækjukokteil í forrétt og lengst af hefur verið hreindýrasteik með villisveppasósu og karmelliseruðum perum. Ég er afar hrifin af villibráð og því opin fyrir því að þetta teygist og beygist í ýmsar áttir með tímanum en það er e-ð við rækjukokteilinn hennar mömmu. Jólin bara koma við fyrsta munnbita.“ 

Hvað langar þig helst í í jólagjöf?

„Það er nú ekki langur listinn hjá mér í ár en ýmislegt sem ég gæti alveg nýtt mér. Mig langar dálítið í góð gúmmístígvél og alvöru regngalla. Fann það í berja- og sveppamó í haust að þetta er staðalbúnaður hér í sveitinni. Góðar bækur eru ávallt hátt á lista, oftast fæ ég bara matreiðslubækur og kvarta ekki yfir því enda hágæða bókmenntir þar á ferð. Ég les þær kiljanna á milli og á aldrei nóg af þeim.“ 

Gréta Mjöll Samúelsdóttir.
Gréta Mjöll Samúelsdóttir. Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál