Blankheitabuff Nönnu

Krydduð túnfiskbuff.
Krydduð túnfiskbuff. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar

Nanna Rögnvaldardóttir eldaði krydduð túnfiskbuff á dögunum sem hún kallar blankheitabuff. Hún gerði uppskriftina fyrir tímaritið MAN en birti svo á bloggsíðu sinni.

Krydduð túnfiskbuff

1 dós túnfiskur

1 laukur

1 soðin kartafla

½ rautt chilialdin (má vera minna)

1 egg

3-4 msk söxuð steinselja (má sleppa)

rifinn börkur af ½ límónu eða sítrónu

pipar

salt

100 ml rasp (panko eða þurrt brauðrasp)

4-5 msk maís, frosinn eða úr dós

200 g kokkteiltómatar eða 2-3 vel þroskaðir tómatar,

olía til steikingar

Aðferð:

Ég byrjaði á að saxa laukinn gróft og fræhreinsa chilialdinið og saxa það. Setti þetta í matvinnsluvélina ásamt steinseljunni, reif börkinn af límónunni yfir og lét vélina mauka þetta saman.

Ég hellti olíunni af túnfiskinum (það má nota hana til að steikja úr en ég geri það þó yfirleitt ekki) og flysjaði soðnu kartöfluna og skar hana í bita. Setti túnfisk og kartöflu í matvinnsluvélina ásamt eggi, pipar og salti  og maukaði vel saman.

IMG_7075

Svo hrærði ég raspinu saman við. Smakkaði og bætti við pipar og salti eftir þörfum. Það mætti líka bragðbæta með safa úr límónunni ef manni sýnist svo. Blandaði að lokum maísnum saman við með sleikju (ekki láta matvinnsluvélina gera það, maískornin eiga helst að vera heil).

IMG_7077

Ég mótaði svo fremur lítil en þykk buff úr farsinu – 6-7 er hæfilegt, þetta urðu sjö buff hjá mér. Hitaði svo dálitla olíu á pönnu og setti buffin á hana.

IMG_7084

Ég steikti buffin við meðalhita þar til þau voru fallega brún á báðum hliðum og heit í gegn. Skar kokkteiltómatana í tvennt (stærri tómata í báta) og setti á pönnuna þegar ég var búin að snúa buffunum. Ég tók svo buffin af pönnunni þegar þau eru tilbúin og hélt þeim heitum en steikti tómatana ögn lengur, þar til þeir voru vel meyrir.

IMG_7095

Ég hafði nú bara salatblöð með, auk tómatanna, en það má líka hafa t.d. soðin hrísgrjón, kúskús, kartöflur eða soðið eða steikt grænmeti.

IMG_7138

Svo mætti líka hafa með þessu kalda sósu úr hreinni jógúrt eða sýrðum rjóma, söxuðum kryddjurtum, pipar, salti og e.t.v. hvítlauk.

Þessi buff eru ágæt köld eða upphituð og henta því vel sem nesti í vinnuna.

Girnilegt og auðvelt að matbúa.
Girnilegt og auðvelt að matbúa. Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert