Sikileyskt pasta – Busiate al pesto Trapanese

Sikiley er syðsta eyja Ítalíu og matargerðin er einföld, bragðmikil og undir margvíslegum áhrifum. Pesto Trapanese er ein þekktustu pastasósum Sikileyjar, eins konar pestó úr möndlum, hvítlauk og kryddjurtum. Trapanese er til í margvíslegum útgáfum en hér er stuðst við uppskrift úr bókinni Made in Sicily eftir Giorgo Locatelli. Hann  er ítalskur að uppruna en fluttist til Bretlands. Þar sló hann í gegn með Zafferano og rekur nú Michelin-stjörnustaðinn Locanda Locatelli í London, sem er af mörgum telst vera besta ítalska veitingahús borgarinnar.

En fyrst þarf auðvitað rétta pastað. Með Trapanese þarf auðvitað helst að vera sikileyskt Busiate-pasta. Og það er auðvitað best að gera sjálfur. Sem er ekki svo mikið mál.

Í pastað sjálft þarf:

  • 175 g Semolina hveiti
  • 75 g venjulegt hveiti
  • 1 eggjarauða
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 tsk sjávarsalt

Hrærið með hrærara í hrærivél ásamt um 1 dl af vatni þar til að deigið er orðið að kúlu. Látið kúluna standa í um 20 mínútur.

Fletjið út í um 2 mm þykkan ferhyrning. Skerið í 1 sm breiðar ræmur (það er þægilegt að nota pizzaskerara í það.

Tekið hverja ræmu og snúið upp á hana. Setjið síðan hverja ræmu fyrir sig á bökunarpappír með hveiti og setjið viskustykki yfir.

Pesto Trapanese

  • 75 g möndlur
  • 300 g tómatar úr dós eða hágæða tómatamauk
  • 40 g mynta
  • 4-6 hvítlauksgeirar
  • 0,5 dl ólifuolía

Ítalska matargerðin kann að virka svo einföld – það er hins vegar afskaplega mikilvægt að nota bestu mögulegu hráefni. Við þurfum virkilega góða, þroskaða tómata í þetta pestó og þá er best að taka tómata úr dós og sía safann frá – eða nota hágæða tómatamauk.

Byrjið á því að rista möndlurnar í ofni við 180 gráður í um 8 mínútur. Maukið í matvinnsluvél ásamt myntunni og hvítlauknum. Athugið af 40 g af myntu er ansi stórt búnt. Setjið tómata og ólífuolíu út í. Saltið og piprið.

Sjóðið pastað í um 5 mínútur. Blandið pestó saman við og berið fram með rifnum Parmesan eða Pecorino.

Gott ítalskt rauðvín á vel við, t.d. Villa Antinori.

Fleiri pastauppskriftir hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert