Bragðarefurinn vekur lukku

Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs.
Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs. mbl.is/Rósa Braga

Síðustu ár hafa verið spennandi tími fyrir unnendur páskaeggja. Gómsætar nýjungar hafa komið á markað og úrvalið af eggjum orðið meira freistandi með hverjum páskunum.

Kristján Geir Gunnarsson er framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Nóa-Síríusar. Hann segir vöruþróunina á páskaeggjasviðinu hafa gengið mjög vel og hvert nýtt egg verið betra en það sem á undan kom. „Nýjasta viðbótin er egg sem við köllum Bragðaref. Það er gert með Nizza-súkkulaði sem blandað er lakkrís, perlum og litlum kexkúlum. Áður höfðum við gert egg úr lakkrísblönduðu súkkulaði, egg með karamellukurli og egg með hrískúlum, en hugkvæmdist svo einn daginn að prufa að setja þrjár gerðir af sælgæti út í súkkulaðiskurnina, með þessari líka fínu útkomu.“

Alltaf eitthvað nýtt

Hugmyndin á bak við þessa stöðugu þróun páskaeggsins segir Kristján m.a. vera að bjóða neytendum reglulega upp á eitthvað nýtt og spennandi. Viðtökurnar við nýju eggjunum hafa í öllum tilvikum verið góðar og segir hann þessi egg komin til að vera. „Nizza-eggin eru líka hugsuð til að ná til nýrra markhópa, sem vilja prufa aðra súkkulaðieggjaupplifun á páskum. Nýbreytnin kemur þannig ekki bara fram í skelinni heldur líka í smáatriðum eins og málshættinum sem hefur verið skipt út fyrir hnyttin skilaboð, eins og miðinn sem segir eitthvað á þessa leið: „Ég byrjaði sem doktorsritgerð en endaði hér.“

Páskaeggjaframleiðslan er stærsta einstaka framleiðsluverkefni ársins hjá Nóa-Síríusi og segir Kristján að ef allt er talið með taki það heilt ár að undirbúa hvern árgang af páskaeggjum. „Tryggja þarf í tíma allt hráefni til framleiðslunnar og er stutt í að við byrjum að leggja drög að framleiðslu ársins 2015. Sjálf eggjasmíðin hefst svo strax í janúar þegar fyrstu skeljarnar eru steyptar.“

Að gera páskaegg er ekki lítið verk. Kallar ferlið allt á mikið vinnuafl og bara lítill hluti framleiðsluferlisins sem hægt er að leysa með sjálfvirkum tækjum. Allt hefst með því að hráefnin í súkkulaðið eru unnin og blönduð eftir leynilegum uppskriftum og vinnsluaðferðum. „Súkkulaði er sett í mót og kemur út af færibandinu tilbúin skel. Þar tekur mannshöndin við að festa saman eggin á samskeytunum, setja sælgæti í eggið og skreyta að utan. Þegar mest lætur eru á bilinu 25-30 manns að vinna gagngert við páskaeggjagerðina.“

Hjá Nóa-Síríusi eru framleidd yfir milljón páskaegg á hverju ári. „Það gerir u.þ.b. þrjú egg á hvert mannsbarn. Við höfum um 60% markaðshlutdeild á páskaeggjamarkaði svo ætla má að heildarneysla eggja á árinu sé fimm egg á hvern Íslending,“ bætir Kristján við.

Eggjaneyslan virðist lítið breytast sama hvernig árar í efnahagslífi þjóðarinnar. Segir Kristján að strax eftir að kreppan skall á hafi neytendur leitað í ögn smærri egg, en nú séu stærri eggin aftur farin að seljast í eðlilegu magni. „Við hlustum vandlega á óskir og þarfir viðskiptavina okkar og höfum t.d. nýlega tekið að framleiða stærri útgáfur af Nizza- og Konsúm-eggjum, sem fóru úr 320 g upp í 450 g.“

Leitt að kveðja Strumpana

Margir sakna strumpaeggjanna og stór hópur landsmanna ólst upp við það að fá á páskum egg með skemmtilegum strumpi. Á mörgum heimilum má finna stór söfn af strumpum af öllum mögulegum gerðum.

Kristján segir það alls ekki hafa verið ósk Nóa-Siríusar að hætta framleiðslu strumpaeggjanna. „Við gerðum hvað við gátum en tókst ekki að ná samkomulagi við rétthafa strumpamerkisins. Ég veit ekki hvað þeim gengur til, en það fór sem fór og ekki hægt að gera strumpaeggin lengur.“

Fyrir vikið eru því páskaungarnir, krúttlegir sem þeir eru, orðnir allsráðandi. Ungarnir segir Kristján að ferðist til Íslands þvert yfir hnöttinn frá páskaungaframleiðanda í Kína og reynt að gæta að fjölbreytninni í útliti unganna svo eggin séu ekki eins tvö ár í röð. „Strangar reglur gilda um hvað má nota sem skraut með sælgæti og eru þessir ungar í dag það eina sem við megum setja beint á súkkulaðið, enda framleiddir með vottuðum og ábyrgum hætti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert