Systkinin gerðu hvert öðru grikk við eggjaleitina

Andri Björn Róbertsson.
Andri Björn Róbertsson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Andri Björn Róbertsson hefur heldur betur verið að gera góða hluti í söngheiminum og ættu lesendur að fylgjast náið með afrekum þessa unga og hæfileikaríka söngvara. Andri er nú búsettur í Lundúnum þar sem hann hefur stundað söngnám og m.a. tekið þátt í verkefnum hjá Konunglega óperuhúsinu.

Andri á ljúfar páskaminningar frá því hann var lítill gutti í Mývatnssveit. Þar bjó hann fyrstu ár ævinnar með systkinum sínum og foreldrum. Fyrstu minningarnar sem koma upp í hugann snúast um eftirvæntinguna sem fylgdi því að leita uppi falin páskaeggin. „Við erum þrjú systkinin, ég yngstur, bróðir minn þremur árum eldri og systir átta árum eldri. Foreldrar okkar földu páskaeggin og merktu hvert egg með nafni okkar þriggja. Áttum við systkinin það til ef við fundum egg sem var ekki ætlað okkur sjálfum að fela það aðeins betur.“

Strumpaegg og barnaefni

Andri fæddist 1989 og er því af þeirri kynslóð sem upplifði páska fulla af strumpaeggjum og barnatíma með Afa. „Á heimilinu var ekki keypt áskrift að Stöð 2 nema um jól og páska og var það okkur systkinunum mikil ánægja að geta horft á barnaefnið á morgnana. Sama regla gilti reyndar líka um Kókó-Pöffs; það var bara keypt á stórhátíðum,“ útskýrir Andri. Systkinin fengu sjálf að velja sér egg og skipti miklu að finna úti í matvöruverslun eggið með rétta strumpinum. „Við fengum öll hvert sitt eggið frá mömmu og pabba, og svo líka frá ömmu og afa. Allt í allt voru þetta því þrjú egg á hvert barn.“

Var súkkulaðimagnið svo mikið að Andri gat oft ekki klárað eggin sín. „Þá var afgangseggjunum stungið upp í skáp og gleymdust jafnvel þar svo vikum og mánuðum skipti. Fljótlega fór mamma að stunda það að taka afgangseggin, setja þau í frysti og nota síðan í heitt súkkulaði.“

Man Andri ekki eftir öðru en hvítum páskum fyrir norðan enda snjóþungt á Mývatnssvæðinu. Seinna bjó fjölskyldan á höfuborgarsvæðinu þar sem minna var af snjónum. Bæði úti á landi og í borginni var páskadegi alla jafna varið í makindum heimafyrir. „Það var ekki fyrr en ég fór að syngja meira að páskarnir hjá mér fóru að snúast um að sækja messur.“

Fiskur á föstudeginum

Systkinin gerðu sér ýmislegt til dundurs og voru ekki í leikjastraffi á föstudaginn langa. „Mamma sagði mér að pabbi hennar hefði viljað að fólk tæki því rólega á föstudaginn langa, og mundi hún vel eftir því hvað sá dagur gat verið afar lengi að líða. Eina hefð hélt mamma þó í heiðri og það var að hafa fisk í matinn á föstudeginum. Alltaf var svo lamb í matinn á páskadag.“

Andri hefur verið búsettur í Lundúnum í að verða fimm ár. Stundum hefur hann átt erindi til Íslands í kringum páskana, t.d. til að syngja á tónleikum og í messum á föstudaginn langa og páskadagsmorgni. „Eftir að fjölskyldan flutti á höfuðborgarsvæðið hefur það orðið að venju að halda upp í sumarbústað á páskadag og þangað bruna ég beint eftir messur.“

Síðustu páskum varði Andri með Ruth Jenkins-Róbertsson breskri eiginkonu sinni og dvaldi hann þá hjá tengdafjölskyldunni í Newcastle. Hefur Andri því þurft að venjast breskum páskasiðum. „Þau eru kaþólikkar og leggja mikið upp úr kirkjusókn á þessum tíma árs. Messurnar í kirkjunni sem við höfum sótt hafa á sér léttara yfirbragð en er yfirleitt á íslenskum messum og kirkjugestir eru mun duglegri að taka þátt í söngnum,“ útskýrir Andri. „Páskaeggin spila líka stórt hlutverk og held ég að ég hafi fengið frá þeim sex eða sjö páskaegg í fyrra.“

Íslensku eggin betri

Bresku páskaeggin eru ekki lík þeim íslensku. „Algengt er að stórir sælgætisframleiðendur geri sérstakar eggja-útgáfur af þekktum súkkulaðitegundum. Sumt af þessu er ágætt eins og t.d. eggin frá Ferrero Rocher. Samt er ekkert sem jafnast á við íslensku páskaeggin í bragðgæðum og ef ég hef átt leið til Íslands nógu skömmu fyrir páska hef ég reynt að taka egg með mér aftur út. Svo er það stór ókostur við bresku eggin að í þau vantar málsháttinn.“

Í ár er fyrirhugað að Andri og eiginkonan verji páskunum ein saman í Lundúnum og er hann þegar búinn að gera ráðstafanir svo að a.m.k. páskamaturinn verði eins og hann á að vera. „Ég er búinn að panta lambalæri frá slátraranum svo það verður alveg örugglega lambasteik í matinn í ár.“

Lambið ætlar Andri að elda á gamla mátann. „Ég hef þetta einfalt og ber bara rósmarín og salt á kjötið, og nota reyndar líka mikið af hvítlauk,“ segir hann og bætir við að lambið sem fæst í Bretlandi sé alls ekki svo slæmt „Þegar ég kom hingað fyrst benti ég fólki stoltur á að sauðféð á Íslandi fengi að ganga um frjálst yfir sumartímann og gæða sér á villiplöntum. Bentu heimamenn mér þá á að það sama fengju lömbin að gera í Wales og á Skotlandi og reyndar á það líka við um lambakjötið sem flutt er inn alla leið frá Nýja-Sjálandi. Lambakjötið sem fæst úti í Sainsburys er því alls ekki til að kvarta yfir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert