Smassað smælki

Það á við um kartöflur eins og annað að eftir því sem að þær eru nýrri eru þær betri. Og best er auðvitað nýupptekið smælki. Það er hægt að gera margt við kartöflur og hér er ein frábær leið til að leyfa nýjum kartöflum að njóta sín til fulls.

Byrjið á því að forsjóða kartöflurnar. Sjóðið þar til að hægt er að stinga gaffli í þær. Setjið bökunarpappír á ofnplötu eða í ofnskúffu og setjið kartöflurnar á plötuna.

Smassið kartöflurnar með því að þrýsta á þær og kremja með lófanum. Saltið vel og piprið. Saxið niður þær fersku kryddjurtir sem að þið eigið. Það má t.d. nota rósmarín, graslauk, óreganó, dill eða steinselju. Sáldrið kryddjurtunum yfir kartöflurnar. Hellið vel af ólífuolíu yfir.

Setjið plötuna inn í 220 gráðu heitan ofn og eldið þar til að kartöflurnar hafa tekið á sig góðan lit. Bragðið til með meira salti og pipar ef þarf og meiri ólífuolíu. Berið fram.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert