Hvað borðar fræga og ríka fólkið?

Elísabet Englandsdrottning.
Elísabet Englandsdrottning. mbl.is/AFP

Ef þið hafið einhvern tímann velt því fyrir ykkur hverjar matarvenjur ríka og fræga fólksins eru, hvort það hafi óbeit á hinum eða þessum mat eða hreinlega geti ekki hætt að borða einhverja ákveðna nammitegund, eru hér nokkur dæmi um matarvenjur nokkurra þeirra.

Elísabetu Bretlandsdrottningu þykir fiskmeti ekki gott en hennar uppáhaldsmatur er meðal annars það sem bretar kalla „jam penny“ en það er hvítt brauð með smjöri og sultu skorið í hring.

Þegar drottningin fór í heimsókn til Írlands árið 2011 bað hún sérstaklega um að ekki yrði borinn fram skelfiskur. Hún borðar heldur ekki humar eða ostrur.

Uppáhaldsterta Elísabetar drottningar er svampterta með hunangi og rjóma.

Barack Obama þykir pylsur mjög góðar en getur með engu móti borðað rauðrófur.

George W. Bush hefur ákveðinn matarsmekk en hann hatar brokkolí svo mikið að hann skipaði að ekkert brokkolí skyldi vera leyft innan veggja Hvíta hússins í Bandaríkjunum eða í flughernum. Spurður um málið sagði hann að móðir sín hefði neytt hann sem barn til að borða brokkolí en hann hefði alla tíð haft óbeit á grænmetinu og mundi aldrei aftur borða það.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, elskar svissneskan ost svo mikið að hann sendi hóp sérfræðinga í matarframleiðslu til frönsku borgarinnar Besancon til að læra hvernig ætti að búa til þess konar ost.

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta þótti heldur mikið vera af osti í matreiðslu í Elysée-höllinni í París og skipaði að ostar yrðu teknir af matseðlinum.

Francis páfi var vanur að elda eigin máltíðir áður en hann var kosinn yfir kaþólsku kirkjunni. Í dag þykir honum besta máltíðin vera sú sem kölluð er bagna cauda en hún samanstendur af steiktri gulrót, selleríi og ætiþistlum í heitu kjötseyði með hvítlauk og ólífuolíu.

Karl Bretaprins fær sér sérstakan morgunverð með nýkreistum appelsínusafa, ristuðu brauði og ávöxtum en það sem honum þykir best er hunang. Hann hefur að minnsta kosti sex hunangstegundir við matarborðið þegar hann borðar morgunverð.

Viktoríu Bretadrottningu fannst fátt betra en að fá sér viskí með frönsku rauðvíni en þótti venjulegur matur bestur eins og bökur og einfaldar súpur.

Richard Nixon, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var með æði fyrir kotasælu. Talið er að síðasta máltíð hans hafi verið kotasæla með ananas en oft fékk hann sér kotasælu með tómatsósu ofan á.

Ronald Reagan elskaði Jelly Beans-nammið og hafði alltaf skál af namminu á borði sínu í Hvíta húsinu í Bandaríkjunum. Þegar hann var kosinn forseti Bandaríkjanna gaf hann um 3,5 tonn af namminu til fagnaðar sigrinum við vígslu sína.

Saddam Hussein elskaði Raisin Bran Crunch-morgunmatinn en þótti Froot Loops ekki gott.

Vladimir Pútín lætur smakka allar máltíðir fyrir sig áður en hann smakkar á þeim sjálfur til að vera viss um að maturinn sé ekki eitraður. Hann er þá svo hræddur um að einhver ætli að eitra fyrir hann að hann hefur allan varann á. Uppáhaldsmaturinn hans er hins vegar pistasíuís. 

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert