Spagettí Sofiu Loren

Einfalt og girnilegt.
Einfalt og girnilegt. Ljósmynd/TasteBook

Uppáhaldspastaréttur ítölsku kvikmyndastjörnunnar Sofiu Loren er spagettíréttur með tómötum, hvítlauk og parmesan. Vefsíðan TasteBook deilir uppskriftinni að réttinum en uppskriftin er fyrir fjóra.

Þetta þarftu í uppskriftina:

  • 6 msk ólífuolía
  • 2 kramin hvítlauksrif
  • 450 g af tómötum í dós
  • 1 tsk basilíka
  • 1 tsk sykur
  • smásalt
  • 450 g af spagettí
  • parmesanostur

Aðferð:

Hitið ólífu olíuna á pönnu. Þegar hún er orðin heit setjið þið marinn hvítlauk á pönnuna. Bætið því næst við tómötum, basilíku, salti og sykri og blandið vel saman. Lækkið hitann og eldið í um 30 mínútur á lágum hita. Hrærið af og til.

Ef elda á rétt fyrir fjóra mælir Sofia Loren með 450 grömmum af spagettíi. Fyrst skal setja vatn í pott og þegar suðan kemur upp er tveimur matskeiðum af salti bætt út í vatnið (ef fólk vill nota salt). Því næst er spagettíið sett í pottinn í litlum skömmtum. Athugið að vatnið hætti ekki að sjóða. Sophia Loren leggur til að pasta ætti aldrei að ofsjóða en þá á það til að verða að mauki. Hrærið við og við til að koma í veg fyrir að spagettíið festist við botninn. Áður en þið hellið vatninu af takið þá eitt spagettístrá og smakkið hvort það sé tilbúið. Ef ykkur finnst það tilbúið hellið þá öllu spagettíinu í sigti.

Setjið spagettíið í stóra skál, hellið tómatmaukinu af pönnunni og yfir spagettíið. Stráið svo parmesanosti yfir og hrærið vel. Hafið parmesanost við höndina fyrir þá sem vilja meiri ost.

Með spagettíinu hefur Sofia Loren ferskt salat með sveppum og ólífum, olíu og dressingu, ítalskt brauð og rauðvín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert