Lax á tíu mínútum

Það þarf ekki að taka langan tíma að búa til góða máltíð. Þessi laxaréttur sem sækir brögðin í asíska eldhúsið tekur til dæmis ekki nema um það bil tíu mínútur að undirbúa og elda.

Notið heilt laxaflak, beinhreinsað og roðflett. Það má líka nota bleikju. Mirin er japanskt hrísgrjónavín til matreiðslu, ekki ólíkt Sake sem hægt er að fá í asísku hillunum í flestum stórmörkuðum.

Einnig þarf:

  • 1 dl púðursykur
  • 1 dl sojasósa
  • 1/2 dl Mirin
  • 1/2 dl hrísgrjónaedik (eða hvítvínsedik)
  • klípa af chiliflögum
  • fínt saxaður kóríander

Blandið púðursykri, sojasósu, Mirin, ediki  og chiliflögum saman í fati þar til að púðursykurinn hefur leysts upp. Setjið laxaflakið ofan í fatið. Látið liggja 2 mínútur á hvorri hlið.

Hitið pönnu (non stick – teflonpönnu). Setjið laxaflakið á þurra og sjóðandi heita pönnuna. Steikið þrjár mínútur á fyrri hliðinni. Snúið flakinu við. Hellið marineringunni yfir og steikið aftur þrjár mínútur á hinni hliðinni.

Setjið flakið á disk til að bera fram. Hellið sósunni yfir og sáldrið söxuðum kóríander yfir. Berið fram með hrísgrjónum.

Gott hvítvín frá t.d. Alsace með. Reynið til dæmis Pierre Sparr Pinot Gris.

Fleiri uppskriftir af lax finnið þið svo hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert